Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.10.2009.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa undanfarna daga legið yfir tillögum félagsmálaráðherra um aðgerðir til lausna á greiðsluvanda og skuldum heimilanna. Afrakstur vinnunnar varð 12 síðna greinargerð sem send var ásamt fréttatilkynningu og ítarefni til fjölmiðla, stjórnvalda og þingmanna núna í morgun. Niðurstaða samtakanna er skýr:
Tillögur ráðherra eru ófullnægjandi og eru lymskulegt bragð til að tryggja að stökkbreytt lán verði innheimt í botn.
Ekki stendur til að gefa neitt eftir. Þessu hafa t.d. Landsamtök lífeyrissjóðanna áttað sig á, enda styðja þau tillögur ráðherra. Þau hafa áttað sig á því að það fé sem heimtist ekki strax af fjalli komi í betri holdum síðar!
Hér fyrir neðan eru nokkrar tilvitnanir í greinargerð HH:
Hagsmunasamtök heimilanna hafa tekið tillögur félagsmálaráðherra til ítarlegrar skoðunar. Samtökin telja að margt sé vel gert í þessum tillögum en annað missi gjörsamlega marks, hafi ætlunin verið að leiðrétta þann órétt sem heimilin hafa verið beitt undanfarin ár.
Líkja má aðgerðum fjármálafyrirtækjanna við að þau hafi spilað rússneska rúllettu með fjöregg þjóðarinnar.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert þá kröfu að leiðrétt verði sú hækkun á höfuðstóli húsnæðislána sem fjárglæfrar fjármálafyrirtækjanna orsökuðu. Samtökin telja furðulegt, að lántakendur skuli eiga að bera tjón sitt að fullu, eins og ráðherra gerir ráð fyrir í tillögum sínum.
Með tillögum félagsmálaráðherra, sem birtar voru 30. september 2009, er ráðherra að staðfesta þessa eignarupptöku hjá öllum þeim heimilum sem geta eingöngu nýtt sér þær almennu aðgerðir sem boðaðar eru í tillögunum. Hagsmunasamtök heimilanna geta alls ekki fallist á slíka staðfestingu og munu berjast gegn fyrirhugaðri eignaupptöku með öllum tiltækum ráðum.
Með því að viðurkenna þessa eignaupptöku, er félagsmálaráðherra að binda fjölmarga átthaga- og íbúðafjötrum. Fólk mun ekki geta fært sig til, hvorki farið í stærra húsnæði né minnkað við sig um ókomna framtíð.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að fara eigi í leiðréttingu á greiðslubyrði húsnæðislána. Samtökin telja þó að sú útfærsla sem felst í tillögum félagsmálaráðherra bæði ganga of stutt og vera of flókin.
Gagnrýni samtakanna á þessa aðferð er því tvíþætt. Samtökin telja aðferðina allt of flókna til að bjóða fólki upp á hana og að tilgangur hennar sé að tryggja að engin leiðrétting skulda heimilanna komi til.
Samtökin sjá alveg þann kost við tillögu ráðherra, að greiðslubyrðin mun léttast strax 1. nóvember samkvæmt þessari leið, en sjá það fyrir að þetta sé svikalogn og stormurinn sem fylgir gæti orðið mörgum erfiðari en hamfarir undanfarinna mánaða.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja ítreka kröfu samtakanna um að sett verði afturvirkt 4% þak á hækkanir höfuðstóls verðtryggðra lána. Við teljum að það sé sanngjörn og réttlát leið til að leiðrétta þann misrétt sem heimilin voru beitt í aðdraganda kreppunnar og þau hafa þurft að súpa seyðið af síðast liðið ár eða svo.
Hagsmunasamtök heimilanna geta ekki fallist á að greiðslujöfnunarvísitala verði notuð til að ákvarða greiðslubyrði verðtryggðra eða gengistryggðra lána til langframa. Samkvæmt útreikningum samtakanna felst í þessu gildra, þar sem telja á fólki trú um að verið sé að slaka eitthvað á innheimtuklónni, þegar ekkert slíkt er í gangi.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja ítreka þá skoðun, að ekki verði nein sátt í samfélaginu, nema fólk fái fjárhagstjón sitt bætt. Samtökin skilja ekki þau rök, að sjálfsagt mál sé að verja sparnað fólks í peningainnistæðum, en gjörsamlega ómögulegt að verja sparnaðinn ef hann er í fasteignum fólks.
Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna, að í tillögum ráðherra felist mikilsverð viðurkenning á þeirri kröfu að samtakanna, að þörf sé fyrir almennar aðgerðir til að leiðrétta stöðu heimilanna. Tillögurnar veita vissulega ákveðið skjól til skamms tíma, en allt bendir til að heimilin verði gerð brottræk úr skjólinu innan fárra ára.
Ráðherra hefur sagt að tillögurnar leggi vissan þrýsting á lánastofnanir að halda verðlagi stöðugu og verðlagsbreytingum í lágmarki. Með því hámarka þær væntanlega endurgreiðslu af lánunum. En eins og oft, þá eru fleiri en ein leið að hverju marki. Lánastofnanir geta einnig hámarkað væntanlega endurgreiðslu með því að stuðla að því, að verðlagsbreytingar verði alltaf minni en launabreytingar, þó svo að verðlagsbreytingarnar séu miklar. Lykillinn að hámarks endurheimtum lánveitenda felst því í kaupmáttaraukningu, ekki tiltekinni þróun verðlags.
Ráðherra hefur sagt fleira sem vekur upp ýmsar spurningar. Svo sem að hans fólk hafi verið að vinna í þessum tillögum frá því í sumar. Sé það rétt, þá telja samtökin að tími sé til kominn að skipta um mannskap í verkinu. Að það hafi tekið tvo eða þrjá mánuði að breyta fyrri greiðslujöfnunarúrræðum úr því að vera ekki með neitt þak á framlengingu lánstíma í að vera með 3 ára hámark á framlenginguna, er ekki góður vitnisburður um afköst starfsmanna vinnuhópsins.
Heimilin hafa þurft og eiga á næstu árum að bera fullan kostnað af hruninu. Ef það er ekki stökkbreyttur höfuðstóll lána og gríðarleg hækkuð greiðslubyrði til langframa, þá eiga þau á meðan dregið er aðeins úr greiðslubyrðinni að bera 30-40% hærri skatta, ef eitthvað er að marka ný fram lagt fjárlagafrumvarp.
Og sé það ekki nóg, þá á að egna þjóðfélagshópum saman á næstu árum, þar sem hækkun launa, t.d. kennara, verkafólks eða bankamanna, mun leiða til hækkaðrar greiðslubyrði lána.
Meðan ekkert er gert til að rétta af efnahagsreikning heimilanna, þá eru þessar tillögur ófullnægjandi, þó vissulega sé eitthvað jákvætt í þeim.
Það sem meira er, með tillögunum er heimilunum enn einu sinni sýnd langatöng og staðfestur sá grunur samtakanna, að það sé ætlun og eindreginn vilji stjórnvalda að heimilin í landinu eigi að fjármagna kennitöluflakkarabankana með fasteignum sínum. Þjóðnýta á heimili landsmanna og kóróna þannig getuleysi þriggja ríkisstjórna á einu ári til að gera eitthvað sem mark er á takandi fyrir heimilin í landinu.
Ef þetta er réttlæti ríkisstjórnarinnar, biðja samtökin allar góðar vættir að forða okkur frá ranglæti hennar.
Tillögur ráðherra eru ekkert annað en stríðsyfirlýsing.
Ég hef tengt þau skjöl sem send voru út með tilkynningu samtakanna við þessa færslu fyrir almenning að lesa.
Segja tillögur ráðherra stríðsyfirlýsingu
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: