Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.10.2009.
Stundum verður maður kjaftstopp. (Þeir sem þekkja mig vita að það gerist ekki oft ) Það eru ótrúlegar sögur sem maður heyrir af framferði fjármögnunarfyrirtækja gagnvart neytendum. Marga grunar að þar gætu verið á ferðinni stórfelld fjársvik, þegar um er að ræða vörslusviptingar á bifreiðum og öðrum lausafjármunum og „uppgjör“ fyrirtækjanna og endurkröfur á viðsemjendur sína í kjölfarið. Hér fylgir eitt nýlegt dæmi:
Málavextir voru þeir, að fjármögnunarfyrirtæki innkallaði bíl vegna vanskila. Þetta var ríflega 4 milljóna króna bíll og skuldin var orðin eitthvað hærri. Svo kom uppgjörið. Verðmæti bílsins var metið á 1,6 m.kr., m.a. vegna þess að hitt og þetta væri að. Fyrri eigandi sat því uppi með mismuninn. Kunnugleg saga, ekki satt. En nú er ekki öll sagan sögð.
Maðurinn hafði fréttir af því að umrætt fjármögnunarfyrirtæki væri með bílasölu á sínum snærum og þóttist vita að bíllinn færi þangað á sölu. Svo reyndist vera. En ætli bílinn hafi þar verið auglýstur á 1,6 m.kr.? Nei, aldeilis ekki. Verðmiðinn var 4,5 m.kr. Maðurinn ræddi við sölumann og spurði hvort ekki væri hægt að fá afslátt. Í mesta lagi 2-300 þús. kr., þetta væri svo gott eintak!
Það er ýmislegt sem hægt er að læra af svona uppákomu. Fyrsta er að uppgjörssamningur taki mið af eðlilegu söluverði bifreiðar á markaði samkvæmt mati sjálfstæðs og óháðs matmanns. Í öðru lagi ættu fyrri eigendur að krefjast upplýsinga um það hvað verður um bifreið eftir að hún er gerð upptæk til þess að geta sannreynt að söluverð bifreiðar sé í reynd í samræmi við uppgjörssamning. Þriðja er að standa alltaf á rétti sínum sem neytanda. Hver og einn á rétt á því að hlutlaus aðili meti eign við yfirtöku.
Þessu til viðbótar er rétt að benda á, að EKKI er hægt að vörslusvipta bifreið eða aðra lausafjármuni nema að undangengnum úrskurði yfirvalds. Í slíkri málsmeðferð geta neytendur komið að sjónarmiðum sínum, t.d. um það að samningur aðila standist ekki lög, um sé að ræða forsendubrest eða að verðbreytingarviðmið (gengistrygging) hafi verið ólögmætt frá upphafi. Þetta vita fjármögnunarfyrirtækin vegna þess að þau hafa oft verið gerð afturræk. Málið er að þau spila inn á þekkingarleysi neytenda og að fólk veiti ekki viðspyrnu. Þær handrukkanir, sem fjármögnunarfyrirtækin stunda, eru ólöglegar. Sé ekki fyrirliggjandi dómsúrskurður, þá er aðgerðin gripdeild, þrátt fyrir að um meint vanskil sé að ræða. Þeir sem lenda í slíkri uppákomu geta því kært verknaðinn til lögreglu.
Í lögum nr. 141/2001 er að finna heimildir til að fara fram á lögbann og höfða dómsmál til að vernda hagsmuni neytenda. Það má furðu sæta að engin slík mál skuli nú þegar vera í gangi. Eitt af þeim félögum og samtökum sem hefur slíka málsaðild er Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB. Væri ekki rétt að þau samtök tækju nú þegar upp hanskann fyrir varnarlausa bifreiðaeigendur sem verið er að brjóta freklega á um allt samfélagið? Einnig hlýtur að koma til álit að allir þeir sem telja á sér brotið við uppgjör fyrirtækjanna og telja sig hafa verið beitta svikum, kæri slíkt umsvifalaust til lögreglu!