..og aldrei það kemur til baka

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.12.2009

Annus Horribilis er líklegast það eina sem hægt er að segja um þetta ár sem er að líða.  Þrjár ríkisstjórnir hafa setið og nær engu áorkað í uppbyggingu landsins eftir hrunið.  Úrræðaleysi þeirra hefur verið algjört varðandi vanda heimilanna.  Það hefur verið algjört varðandi vanda fyrirtækjanna.  Það hefur verið algjört varðandi styrkingu hagkerfisins og þar með krónunnar.  Það eina sem gert hefur verið er að auka á vanda allra með frestun aðgerða, hækkun skatta og loks samþykkt Icesave nauðungarsamninganna, sem munu halda aftur af uppbyggingunni ennþá lengur.

Allt sem ríkisstjórnir Samfylkingar og VG hefur gert, hefur tekið óratíma.   Á fyrsta blaðamannafundi fyrri ríkisstjórnar flokkanna lofaði Jóhanna Sigurðardóttir að slegin yrði skjaldborg um heimilin í landinu.  Vissulega var ákveðið að fresta nauðungarsölum og stuðlað að frystingu lána, þá voru samþykkt lög um greiðsluaðlögun.  Málið er að ekkert af þessu leysti nokkurn skapaðan hlut fyrir yfirskuldsett heimili, sem lent höfðu í svikamyllu fjármálafyrirtækja.  Því var haldið fram fullum fetum, að ekki væri svigrúm til að gera neitt, þó svo að lesa mætti út úr gögnum frá gömlu og nýju bönkunum að gríðarlegt svigrúm væri fyrir hendi.  Við fall SPRON jókst þetta svigrúm enn frekar.  Nei, það sem átti að vera skjaldborg um heimilin varð að skjaldborg um fjármálafyrirtækin.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar um það eitt að standa vörð um heimilin í landinu.  Því miður var nafn samtakanna helst nefnt í hátíðarræðum stjórnmálamanna.  Samráð við neytendur var talið óþarft með öllum.  Fjármálafyrirtækin, sem sett höfðu allt á annan endann, voru talin hæfust til að ákveða hvaða dúsur ætti að rétta heimilunum.  Félagsmálaráðherra hefur safnað í kringum sig fólki sem hefur engan skilning á mannlegum samskiptum frekar en hann sjálfur.  Þau álíta að mannleg samskipti felist í því að sitja á fundi með lokuð eyru.  Sorgleg staðreynd.  Það sama á við um stóru bankana þrjá.  Innandyra hjá þeim hafa skipað sér til sætis stjórnendur sem telja sig ekki þurfa að hlusta á viðskiptavini sína.  Kannski telja þeir að það sé líklegt til árangurs, en ég er hræddur um að þar skjátlist þeim illa.  HH hömruðu á öllum viðeigandi aðilum allt árið.  Strax í febrúar héldum við því fram að fasteignir viðskiptavina bankanna ætti að nota til að endurreisa þá.  Það hefur smátt og smátt verið að koma í ljós að er rétt.

Stuðningur við kröfum HH um leiðréttingu á lánum heimilanna kom úr óvæntri átt.  Stuttu eftir að Alþingi hafði samþykkt lög um greiðslujöfnun og sértæka skuldaaðlögun sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér skýrslu, þar sem kom fram að fjármálafyrirtæki þyrftu að öllu óbreyttu að afskrifa um 600 milljarða af skuldum heimilanna.  Það sem meira var, að bankarnir þrír hafi fengið um 45% afslátt við færslu lánasafna heimilanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Það þýðir að bankarnir geta fært niður gengistryggð lán um 50% og verðtryggð um 20% og átt samt meira en þriðjung af fjörtíu og fimm prósentunum eftir til að greiða fyrir hærri fjármögnunarkostnað.

Bankarnir reyndu svo sem að klóra í bakkann með "lausnum" sem eru flestar hálf aumar.  Vissulega létta sumar pressuna tímabundið af illa stöddum heimilum, en allt sem er gefið eftir núna er tekið til baka síðar.  HH hafa vakið athygli á þessu og vonumst við að barátta okkar muni skila varanlegum árangri.  Höfum það alveg á hreinu, að barátta samtakanna hefur skilað miklu.  Án hennar væri staða heimilanna ennþá verri.  En betur má ef duga skal og því þurfum við öll að sameinast í baráttunni á komandi ári.

Ég þakka öllum mikinn stuðning á árinu sem er að líða og hvet fólk til dáða á nýju ári.