Ábyrgð lánveitanda er engin!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.12.2009.

Það vill svo til að þetta er 10 daga gömul frétt eða a.m.k. birtist hún á visir.is 18 .desember sl.  Gerði ég færslu um fréttina þá og vil endurbirta hana núna.

---

Hæstiréttur staðfest í dag synjun Héraðsdóms Reykjavíkur um tímabundna greiðsluaðlögun öryrkja, þar sem hann var talinn hafa hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt.  Í frétt á visir.is er birtur eftirfarandi texti úr dómi héraðsdóms:

..af því að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, hann tók fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við greiðslugetu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað og hann hafi á þeim tíma verið með öllu ófær um að standa við þær.

Síðan er greint ná um fjárhagsstöðu lántaka á tíma lántöku:

Fasteignina keypti maðurinn á 39 milljónir árið 2006 en sama ár keypti hann bíl fyrir rétt rúmar fjórar milljónir króna. Hann tók lán fyrir báðum kaupunum og voru þau að stórum hluta í erlendri mynt. Það ár var maðurinn með samtals um 2,5 milljónir króna í örorkubætur og laun.

Nú spyr ég bara:  Hvor sýndi af sér ámælisverða háttsemi lánveitandinn eða lántakinn?  Í mínum huga er það alveg á tæru, að maður með 2,5 m.kr. í árstekjur og með 3 börn á framfæri getur ómögulega haft greiðslugetu fyrir 39 m.kr. fasteign.  Þessi einstaklingur hafi því aldrei átt að standast greiðslumat.  Sá starfsmaður bankans, sem samþykkti greiðslumatið og síðan að veita lán fyrir 39 m.kr. eign var sá sem sýndi af sér ámælisverða háttsemi.  Samkvæmt almennum reiknireglum, þá nemur mánaðarleg greiðsla um kr. 5.500 af hverri milljón sem er skuldað.  Þó lánið hafi bara verið 30 m.kr., þá hefði greiðslubyrðin átt að vera 165.000 kr. á mánuði eða kr. 1.980 þús.kr. á ári.  Drögum þá upphæð frá 2,5 m.kr. og blessaður maðurinn hefði verið með 520 þús.kr. til framfærslu og annarra útgjalda allt árið eða 43 þús.kr. á mánuði. 

Þetta er náttúrulega sagt, að því gefnu, að lántaki hafi veitt bankanum réttar upplýsingar um hag sinn.  

Annars held ég að þetta sé bara gott dæmi um þá vitleysu sem var í gangi á þessum árum.  Þetta sýnir líka þann augljósa galla sem er á fyrirkomulagi neytendalána.  Einstaklingur fær lán upp á háar upphæðir til að kaupa bifreið.  Hann þarf líklega ekki að leggja fram neinar upplýsingar um greiðslugetu sína eða aðrar skuldbindingar.  Andlitið eitt nægir.  Ég held að það sé kominn tími til að breyta um vinnulag.  Lánveitandi má ekki vera svo blindur í ákefð sinni að lána, að honum sjáist ekki fyrir.  Auðvitað er ábyrgð lántaka líka mikil, en munurinn er þó, að lántakinn er ekki að láta af hendi verðmæti til notkunar.  Hann er ekki að taka áhættu af því að glata verðmætum eigenda fyrirtækisins.

Að þessu leiti er ég hissa á niðurstöðu Hæstaréttar, en hún um leið sýnir ágalla laganna.  Lánveitendur eru alltaf stikkfrí.  Þeir mega sýna af sér ábyrgðalausa hegðun og í versta falli fá þeir föðurlega ráðleggingu.  Ábyrgð lánveitenda er engin.  Neytendavernd er engin.  Miðað við þessa niðurstöðu, þá mega lántakar ekki búast við mikilli vernd frá dómstólum.  Þetta er greinilega, að mati dómstóla, allt almenningi að kenna.

----

Í frétt mbl.is koma fram fleiri upplýsingar en í frétt visir.is og eru þessar áhugaverðastar:

Í dómum héraðsdóms kemur fram, að maðurinn fékk m.a. lán hjá Kaupþingi, Avant, Lýsingu og Íslandsbanka. Þá eru tilgreind þrjú skuldabréf til Sparisjóðs Mýrasýslu, eitt til Íslandsbanka og eitt til Málsefnis ehf.

Ég spyr bara:  Hafði enginn af þessum aðilum rænu á því að framkvæma greiðslumat samkvæmt lögum?

Mér hefur verið tjáð, að í Danmörku hafi komið upp svipað mál.  Fólki var lánað langt umfram greiðslugetu þess og reglur um greiðslumat voru þverbrotnar.  Þar endaði málið þannig, að lánin voru feld niður og lántaka dæmdar skaðabætur!  Ólíkt því sem er á Íslandi, þá er neytendaréttur sterkur í Danmörku.  Hér hefur neytandinn alltaf rangt fyrir sér gegn ofurvaldi hins aðilans.

Niðurstaða þessa máls sýnir að lánveitandi þarf ekki að axla neina ábyrgð á gjörðum sínum.  Vissulega tapar hann í þessu tilfelli megnið af peningunum sínum, en hann gerði það um leið og hann veitti lánið.  Það er því ekkert nýtt.  Í leiðinni gerir hann lántaka, sem aldrei átti að fá þau lán sem um ræðir, gjaldþrota.

Ein hlið í viðbót mun vera á þessu máli.  Húsaleigan sem maðurinn greiddi var víst nokkuð há og þetta var tilraun hans til að lækka greiðslubyrðina.  Það er nefnilega þannig, að fólk er ekki sett í greiðslumat, þegar það tekur húsnæði á leigu.  Þessi einstaklingur var því einfaldlega í ómögulegri stöðu.


117 milljóna skuld - 296 þúsunda tekjur