Nýtt "kostaboð" Íslandsbanka

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.10.2009.

Íslandsbanki spilar út nýju spili.  Bankinn ætlar að lækka stökkbreyttan höfuðstól gengistryggðra lána, sem vafi leikur á að sé löglegur, um heil 23% en í staðinn ætla þeir að hækka vexti um 7% strax og svo sjáum við til.  Til að láta þetta nú líta vel út, þá er bent á að mánaðarleg greiðsla lækki úr 86.000 kr. í 54.000 kr.

Skoðum þetta boð Íslandsbanka aðeins betur, eins og það er birt á vefsvæði bankans.  Bankinn tekur dæmi um 2,5 m.kr. bílalán í ótilgreindri mynt sem var tekið í nóvember 2007 til 84 mánaða.  Sagt er að lánið standi núna í 4,6 m.kr. og greiðslubyrði sé 86 þús. kr.  Næst er fullyrt að eftir leiðréttingu lækki höfuðstóllinn í um það bil 3,5 m.kr. og greiðslubyrði lánsins verði 54 þús. kr. miðað við að lánið verði lengt um 3 ár.

Það er ekki nokkur leið að sannreyna þessa útreikninga Íslandsbanka, þar sem nokkrar grunnforsendur vantar.  Ekki er nefnt hvaða mynt er notuð til viðmiðunar.  Lántökudagur skiptir líka máli, þar sem gengisbreytingar í nóvember 2007 voru nokkrar.  Japanska jenið flökti t.d. milli 0,5128 og 0,5814, en þetta nemur um 16,1% eða álíka mikið og í mars 2008.  Hvað þýðir "miðað við ákveðið gengi í lok september 2008"?  Af hverju er ekki hægt að nefna bara tiltekna dagsetningu eða hvert gengisviðmiðið er?  Ef við skoðum 29. og 30. september, þá er talsverður munur á þessum dögum með krónuna mun sterkari þann 29. og 26. september, föstudaginn á undan, er munurinn aftur mjög mikill. Mér finnst líklegast að verið sé að miða við 29. september 2008 út frá breytingu á gengisvísitölunni, en af hverju er það ekki bara sagt.  (Hafa skal í huga, að breytingin á jenum og frönkum er búin að vera meiri en breytingin á gengisvísitölunni á þessum tíma.) Svo má spyrja sig:  Af hverju er sú dagsetning valin sem notuð er?  Loks er ekki nefnt hvort óverðtryggða lánið er jafngreiðslulán eða með jöfnum afborgunum.

Áður en fólk hleypur til fer að breyta lánunum sínum, þá þarf það að fá nánari upplýsingar.  Það þarf að sjá útreikninga frá bankanum á mismunandi leiðum.  Það þarf að skýringar á mismuninum og hvaða áhrif hann hefur.  Hver er heildargreiðslubyrðin eftir hverri leið fyrir sig og greiðsludreifing.  Fá þarf upplýsingar um hvaða gengisbreytingar bankinn sér fyrir sér að verði á lánstímanum og hvernig það hefur áhrif á greiðslujafnað lán.  Einnig hvernig bankinn sér fyrir sér þróun óverðtryggðra vaxta.

Það getur vel verið að tilboð Íslandsbanka sé kostaboð, en það vantar einfaldlega allt of mikið af upplýsingum til að hægt sé að skera úr um það.  Mín tilfinning er að fólk eigi að ganga hægt um gleðinnar dyr.