Stjórnvöld enn að bjarga bönkunum á kostnað heimilanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.10.2009.

Í mars kvartaði ég undan því í færslu hér, að áherslur stjórnvalda væru rangar.  Allt snerist um að bjarga bönkunum á kostnað heimilanna.  Nú er stóri dómur stjórnvalda kominn.  "Björgunaraðgerðir" í þágu einstaklinga og heimila hafa verið samþykktar sem lög frá Alþingi.  Mér sýnist fátt hafa breyst frá því í mars og sé aðgerðum best lýst eins og sýnt er hér fyrir neðan:

Það er sorglegt til þess að hugsa, að á þeim tæpum 13 mánuðum sem eru frá hruni bankanna og 20 frá falli krónunnar, þá hafa markmið stjórnvalda bara verið að tryggja að heimilin geti staðið í skilum.  Það er engin viðurkenning á óréttlætinu.  Það er engin viðurkenning á forsendubrestinum og þess síður er gerð krafa til bankanna að þeir bæti almenningi og ríkissjóði þann skaða sem hlaust af háttsemi þeirra.  Gunguskapur stjórnvalda gagnvart bönkunum er ótrúlegur.

Ég veit að AGS setti það sem skilyrði, að ekki mætti grípa til almennra aðgerða til lækkunar lána almennings sem væru á kostnað kröfuhafa.  Málið er að kröfuhafar hafa samþykkt gríðarlegar eftirgjafir skulda gömlu bankanna.  Í febrúar var áætlað að slík eftirgjöf næmi um 2.800 milljörðum.  Mér vitanlega hefur sú tala ekkert breyst.  Nú síðast heyrði ég, að lánasöfn Landsbankans væru færð yfir í NBI (nýja afsprengi hans) með 50% afslætti hið minnsta.  Vissulega eru þetta öll lán, en ég hef líka heyrt að gengistryggð lán heimilanna fari á milli með minnst 40% afslætti og verðtryggð með minnst 20% afslætti.  Hvað varðar hina banka eru málin flóknari.

Flækjan varðandi húsnæðislán Glitnis og Kaupþings er vegna þess, að þessir aðilar veðsettu þau í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands, eins og ég skýrði út í færslu hér á föstudaginn.  Mig langar að endurtaka hluta af því sem ég sagði þá:

Stór hluti fasteignalán Kaupþings (þ.e. bankans sem hrundi 9. október 2008) og Glitnis mun í raun vera í eigu Seðlabanka Íslands, en þar voru þau sett að veði í endurhverfum viðskiptum.  Verðmæti lánanna hjá Seðlabankanum nemur 50% af bókfærðu verðmæti þeirra á þeim degi sem þau voru lögð að veði.  Þar sem þetta var að mestu gert á vormánuðum og sumarið 2008, þá má reikna með að verðmæti gengistryggðu lánanna sé hjá Seðlabankanum á um 33% af því sem nýju bankarnir eru að krefja fólk um.  Já, 33%.  Ástæðan fyrir því er að frá 2. maí 2008 til 1. september 2008 sveiflaðist gengisvísitala milli 146 og 168 með meðalgildi 156.  Það þýðir að verðmæti lánanna hjá Seðlabankanum miðar við gengisvísitölu 78 sem er 33% af gengisvísitölu dagsins í dag.  Og verðtryggðu lánin voru sumarið 2008 um 14% verð minni en núna og síðan tökum við 50% af og endum með innan við 45% af núverandi upphæð lánsins.

Það er alveg ljóst að bankarnir þrír hafa mikið svigrúm til niðurfærslu höfuðstóls lánanna, án þess að breyta lánunum að öðru leiti.  Byr, SPRON og Frjálsi fjárfestingabankinn eru líka komin í þá stöðu, að það er betra fyrir þessi fyrirtæki að koma til móts við lántakendur.  Byr, Íslandsbanki, Nýja Kaupþing og NBI eru í þeirri merkilegu stöðu að vera í hálfgerðu stríði við viðskiptavini sína.  Gleyma þessir aðilar því að þeir eru ekkert án viðskiptavinanna?

En málið núna er hvernig stjórnvöld eru að beita Alþingi fyrir sér til að valta yfir almenning.  Kjósendur.  Lögin sem samþykkt voru á föstudaginn eru svo vitlaus, að ég er gáttaður.  Er öllu hleypt í gegnum þingið?   Hvað lá svona mikið á?  Félagsmálaráðherra sagði að ná yrði mánaðarmótunum svo þetta tæki gildi frá og með 1. nóvember.  Svo kemur í ljós að þetta tekur ekki gildi fyrr en 1. desember.  Hefði ekki mátt slaka aðeins á og taka meiri tíma í umræður í nefndinni og taka þetta fyrir á þingi, þegar allir þingmenn gátu verið á staðnum.  Það var vitað af þeirri jarðarför, sem þingmenn voru viðstaddir, með nokkur daga fyrirvara.  Nei, þessu var þröngvað í geng.  Því miður, þá verð ég að segja að Alþingi setti niður í mínum huga.  Það var sorglegt, að Alþingi skuli hafa kosið að taka málstað þeirra sem settu þjóðina á hausinn en ekki almennings.  Gleymum því ekki, að allt sem Alþingi í raun gerði var að setja 3 ára þak á lengingu lána og að leiða í lög leyfi til fjármálafyrirtækja til að samræma upptöku á eignum almennings.  Alþingi samþykkti þjóðnýtingu í þágu einkafyrirtækja!