Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.10.2009.
Ég vil vara við því að þingmál nr. 69 frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gengishrunsins verði samþykkt í þeirri mynd sem það birtist í áliti félags- og tryggingamálanefndar. Málið er ekki tilbúið til afgreiðslu.
Stærsta atriðið er þó hin mikla óvirðing sem lántakendum er sýnd með frumvarpinu og raunar tillögum félagsmálaráðherra frá 30. september sl. Óvirðingin felst í því, að skoðanir lántakenda eru hunsaðar gjörsamlega. Eina sem skiptir máli er álit lánveitenda, sem í mörgum tilfellum eru grófasta dæmi um kennitöluflakk sem komið hefur upp.
Höfum eftirfarandi staðreyndir á hreinu:
Allar stærstu fjármálastofnanir landsins tóku þátt í mjög grófu samsæri gegn fólkinu í landinu. Þetta samsæri endaði með því að lán heimilanna í landinu hækkuðu um þriðjung vegna falls krónunnar og verðbólgu.
Verið er að flytja hluta af lánum heimilanna frá gömlu birtingarmynd þessara fjármálafyrirtækja til hinnar nýju, ýmist í formi nýrra fyrirtækja eða þrotabúa þeirra, með gríðarlegum afslætti eða verðrýrnun. Ekki fæst gefið upp hve mikið þetta er, en heimildir Hagsmunasamtaka heimilanna segja að öll verðtryggð fasteignalán, sem á annað borð færast á milli, fari á milli með minnst 20% afslætti og þau gengistryggðu lán, sem færast á milli, fari með minnst 40% afslætti/verðrýrnun.
Stór hluti fasteignalán Kaupþings (þ.e. bankans sem hrundi 9. október 2008) og Glitnis mun í raun vera í eigu Seðlabanka Íslands, en þar voru þau sett að veði í endurhverfum viðskiptum. Verðmæti lánanna hjá Seðlabankanum nemur 50% af bókfærðu verðmæti þeirra á þeim degi sem þau voru lögð að veði. Þar sem þetta var að mestu gert á vormánuðum og sumarið 2008, þá má reikna með að verðmæti gengistryggðu lánanna sé hjá Seðlabankanum á um 33% af því sem nýju bankarnir eru að krefja fólk um. Já, 33%. Ástæðan fyrir því er að frá 2. maí 2008 til 1. september 2008 sveiflaðist gengisvísitala milli 146 og 168 með meðalgildi 156. Það þýðir að verðmæti lánanna hjá Seðlabankanum miðar við gengisvísitölu 78 sem er 33% af gengisvísitölu dagsins í dag. Og verðtryggðu lánin voru sumarið 2008 um 14% verð minni en núna og síðan tökum við 50% af og endum með innan við 45% af núverandi upphæð lánsins.
Mér finnst út í hött að NBI, Íslandsbanki, Nýja Kaupþing, slitastjórn SPRON, slitastjórn Frjálsa fjárfestingabankans og skilanefndir gömlu bankanna séu að krefja fólk og fyrirtæki um fulla greiðslu lána, sem eru í reynd mun minna virði hjá kröfuhafa viðkomandi fjármálafyrirtækis. Og að Alþingi sé að ganga erinda þessara fjármálafyrirtækja, er síðan ennþá furðulegra.
Ég vil stinga upp á því, að lántakendum verði hreinlega gefinn kostur á að kaupa lánin sín af Seðlabankanum og skilanefndum gömlu bankanna á sömu kjörum og nýju bönkunum og slitastjórnum bjóðast. Þannig gefist fólki og fyrirtækjum kost á að rétta sinn hlut eftir óráðsíu fjármálafyrirtækja í rekstri sínum undanfarin ár.
Mér finnst einnig út í hött, að það séu kröfuhafar sem eiga að móta verklagsreglur um meðhöndlun skulda. Með fullri virðingu, þá voru það þessir sömu aðilar, sem klúðruðu öllu og komu skuldurunum í þá stöðu sem þeir eru í. Þetta voru þeir sem brutust inn til okkar og stálu af okkur eigum okkar og nú eiga þeir að semja reglurnar sem ákveða hvernig á að hirða af okkur restina. Þvílík firra. Það sem ég hef heyrt af væntanlegum verklagsreglum, þá veit ég ekki hvor leiðin er betri: dómstólaleiðin, þ.e. greiðsluaðlögun, eða leið bankanna. Leið bankanna sýnist mér hreinlega vera grimmari, en dómstólaleiðin.
Sterkustu rökin, samkvæmt nefndarmönnum félags- og tryggingamálanefndar, fyrir því að samþykkja þurfi frumvarpið í dag eru að tryggja þurfi að ákvæðið um greiðslujöfnun allra verðtryggðra lána taki gildi um mánaðarmótin. Þessi rök standast ekki. Ástæðan er einföld: Með því að hraða þessu svona gefst ekki tækifæri til að kynna úrræðið og þeir sem vilja segja sig frá því eftir að hafa kynnt sér það, hafa lítið eða ekkert svigrúm til þess. Það er nóg með reglugerðarbreytingu að skerpa á því að núverandi ákvæði um greiðsluaðlögun sé opin öllum.
Nú vegna tilvitnunar Þórs Saaris í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna, þá skal taka skýrt fram að "óráðsían" sem við tölu um er beint að þeim sem keyptu hlutabréf fyrir hundruð milljóna, ef ekki milljarða með veði í bréfunum. Við höfum aldrei litið á almenning, sem litið hefur á hlutabréfa- eða stofnfjáreign sem sparnaðarleið eða hluta af skyldum sínum til nærsamfélagsins, sem "óráðsíufólk". Það var nefnilega snúið þannig út úr orðum Þórs af bæði Unni Brá Konráðsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur.