Undir hverjum steini er eitthvað nýtt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.10.2009.

Maður er eiginlega hættur að vera hissa á nýjum sögum um misferli hjá blessuðum bönkunum.  Hér er enn eitt dæmið um það hvernig menn gátu "keypt" sér lán.  Samkvæmt því sem talsmaður Gertner bræðra segir, þá var nóg, eða nauðsynlegt, að gerast stór hluthafi í Kaupþingi til að komast að peningageymslum bankans.

Það er hins vegar athyglisverður punktur í fréttinni, en það er um tengsl helstu leikenda í gegnum FL Group.  Ég fékk símtal í þar sem viðmælandi minn benti á þessi tengsl.  Hann gekk svo langt að líkja hópi hlutahafa FL Group við nokkurs konar bræðralag (mín orð, ekki hans).  Sá sem rauf samheldni hópsins hann var gerður brottrækur úr himnaríki peningamanna á Íslandi.  Þ.e. fékk ekki að taka þátt í plottinu, fékk ekki aðgang að lánsfé í bönkunum þremur og var jafnvel reynt að leggja snörur fyrir menn. 

Stærsta plottið í kringum FL Group voru framvirkir samningar.  Menn gerðu samninga sína á milli og út fyrir hópinn um viðskipti fram í tímann á föstu gengi.  Markmiðið var að búa til eftirspurn og halda uppi verði bréfanna.  Sá sem var á söluendanum var öruggur með góðan hagnað og kaupandinn bjó svo til nýjan framvirkan samning.  Undir lokin snerist þetta síðan yfir í skortsölur, enda var öllum í bræðralaginu ljóst í febrúar 2008, og jafnvel fyrr, að endanlokin yrðu ekki umflúin í október.  Ég vil bara benda á athugasemd Kolbrúnar Stefánsdóttur á blogg hjá mér við færsluna Játning Davíðs.  Þar segir hún:

Thér er óhaett ad trúa mér. Thad var allt of seint thá. Ég var í Florida í febrúar og tha var thad raett í fullri alvoru ad thetta myndi fara svona í byrjun okt (5) og ad vid aettum ad selja hlutabréfin okkar og taka sparifé út í evrum. Thetta var logmadur hja einum bankanna ad tala um thá sem stadreynd. Thví midur erum vid treg til ad trúa slaemum spádómum en hlaupum hratt á eftir hinum th.e. um gull og graena skóga. Thad er talad um thad hérna úti í Evropu af bankamonnum ad morg lond séu í somu sporum og Island en leyni thví hvad theyr hafi tapad miklu.

Viðmælandinn minn í dag endurtók liggur við orðrétt það sem Kolbrún segir.  Þ.e. mönnum var ráðlagt að selja hlutabréf og taka út úr peningasjóðum.  Þegar hinir fjársterkari tóku út úr peningasjóðunum, þá þurfti að fjármagna þá upp á nýtt.  Og hvað var gert?  Jú, þjónustufulltrúum var uppálagt að hringja í alla sem áttu meira en 5 milljóna kr. innistæður og fá þá til að færa peningana sína í hina vonlausu og í raun gjaldþrota peningasjóði.  Mörgum þjónustufulltrúm ofbauð þetta, en létu sig hafa það.  Aðrir sættu sig ekki við þetta og sögðu upp.  Það hlýtur að vera erfitt að lifa við að hafa blekkt fólk á öllum aldri til að setja hluta af ævisparnaði sínum í gjaldþrota sjóði.  En sökin er ekki fótgönguliðanna heldur hershöfðingjanna og tryggja verður að þeir fái sinn dóm.

En stúkubræður björguðu sínu fé úr peningasjóðunum og komu þeim fyrir út um allt.  Sumt tapaðist síðar.  Það var óumflýjanlegt af þeirri einföldu ástæðu að ekki voru til kaupendur.  Þeir sem fundust hafa reynst hafa verið leppar í gervifyrirtækjum sem stofnuð voru að því virðist til að halda uppi verði hlutabréfa í fyrirtækjum stúkubræðra.