Leið til að forðast auknar álögur á fólk og fyrirtæki

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.9.2009.

Ríkisstjórnin er að leita leiða til að loka fjárlagagatinu margfræga.  Í sumar kom ég með hugmynd, sem ekki fékk hljómgrunn og vil ég endurtaka hana núna.  Hún kallar á samstarf launþegar, atvinnurekenda og stjórnvalda.  Ég vil meina að hún sé sársaukalausasta skattahækkun sem hægt er að fara út í og það sem skiptir mestu máli, hún skilar sér ekki út í verðlagið og þar með í lánin okkar.

Tillagan er einföld:  Launþegar samþykkja að færa 3-4% af mótframlagi launagreiðenda í lífeyrissjóð tímabundið yfir í tryggingagjald, sem hækkar þá sem því nemur.  Þetta gildi í 3-4 ár og gangi til baka eftir það.  Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af aðgerðinni yrði 22,5-30 milljarðar á ári.  Áhrif aðgerðarinnar á verðbólgu væri engin og þar með hefði þetta engin áhrif á verðbætur lána.  Áhrifin á ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja væru engin.  Þetta hefði vissulega áhrif á innstreymi fjár í lífeyrissjóðina, sem næmi allt að þriðjungi af ársinngreiðslu iðgjalda.  Þetta hefði líka neikvæð áhrif á réttindaávinning sjóðfélaga, en þarf ekki að hafa neikvæð áhrif á útgreiddan lífeyri þeirra sem eru núna að greiða í lífeyrissjóði.  Verði áhrif neikvæð á áunnin réttindin, þegar kemur að útgreiðslu lífeyris, þá verða þau áhrif lítil eða á bilinu 2 - 4%.  Vissulega munar fólk um slíkar fjárhæðir, en líklegast mun markviss fjárfestingastefna og -stjórnun á næstu árum og áratugum vinna upp tapið.

Einn stór kostur er við þess tillögu umfram þá að skattleggja iðgjöld áður en þau fara inn í lífeyrissjóðina.  Skattlegging kallar á það, að stofna þarf nýja deild í hverjum og einum lífeyrissjóði og flækir utanumhald.  Mín leið leiðir ekkert slíkt af sér.  Iðgjöldin eru meðhöndluð á sama hátt og áður, það er bara lægri upphæð sem kemur inn.  Vissulega þyrfti að gera smávægilegar breytingar á upplýsingakerfum, en ég efast um að þær yrðu eins flóknar og þær sem þyrfti að gera ef farin er leið skattlagningar.

Ég geri mér grein fyrir að einhverjir verða viðkvæmir fyrir þessari hugmynd, en staðreyndin er að ríkið þarf að auka skatttekjur sínar.  Spurningin er bara hvaðan þær eiga að koma.  Á þetta að bitna á ráðstöfunartekjum almennings núna, sem hefur áhrif á neyslu og þar með lækkar neysluskatttekjur ríkisins, eða á þetta að bitna á ráðstöfunartekjum okkar í framtíðinni, auk þess sem óvíst er að nokkur skerðing verði. Ef ég hefði val, þá veit ég hvorn kostinn ég veldi.