Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.10.2009.
Trú stjórnvalda á getu heimilanna til að draga sama neyslu sína er með ólíkindum. Fyrst er heimilunum ætlað að standa undir uppbyggingu bankakerfisins með því að gefa bönkunum fasteignir sínar og nú eiga þau að láta stóran hluta tekna sinna renna til ríkissjóðs svo ríkissjóður geti greitt reikninginn sem bankarnir sendu þjóðinni. Með fullri virðingu, þá hef ég ekki áhuga á að taka þátt í þessari vitleysu. Við hjónin eigur fjögur yndisleg börn. Við þurfum tiltekna lágmarksfjárhæð til að framfleyta okkur. Við viljum bjóða börnunum okkar tiltekin lífsgæði. Ég get ekki séð að það verði mögulegt á næsta ári, ef næstu árum.
Nálgun ráðstjórnarríkisstjórnar Samfylkingar og VG til fjárlaga og viðréttingar á efnahagslífinu er kolröng. Ef þetta er það sem AGS vill, þá eigum við að vísa þeim á dyr. Auk þess legg ég til að reikningurinn frá bönkunum verði endursendur og þeir sjái um að greiða hann sjálfir. Það verði þeirra verkefni að fjármagna klúður forvera sinna.
Ég mótmæli þeim glórulausu tillögum um aukna skattheimtu sem kemur fram í frumvarpi til fjárlaga. Ég hvet jafnframt alla landsmenn að mótmæla. Við látum ekki þetta rugl yfir okkur ganga. Ég skora á Alþingi að hafna þessu frumvarpi og senda það út í hafsauga. Ég sting upp á því að samþykkt verði lög sem heimila stjórnvöldum að gera upptækar eigur allra þeirra einstaklinga, sem teljast hafa verið virki þátttakendur í þeim fjárglæfrum sem endaði með hruni efnahagskerfisins. Eignirnar verði leitaðar uppi með hjálp erlendra ríkja og þær haldlagðar hvar sem þær finnast. Reikna má með að þær dugi fyrir halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári og því næsta.
Að lokum vil ég endurtaka yfirlýsingu sem Hagsmunasamtök heimilanna birti fyrir nokkrum mánuðum:
Heimilin í landinu eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fyrir banka og stjórnvöld
(Tekið skal fram að í þessum pistli sem fleiri er ég að tjá persónulega skoðun mína, en ekki Hagsmunasamtaka heimilanna.)