Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.10.2009.
Þetta er annar pistill minn um það sem ég tel vera ástæður fyrir hruni hagkerfisins síðast liðið haust.
Menn eru örugglega með skiptar skoðanir um það, hver eru afdrifaríkustu mistökin við einkavæðingu bankanna. Ég hef viljað líta fyrst aftur til síðustu aldar, þegar stórfeldar kennitölusafnanir áttu sér stað til að tryggja bönkunum sjálfum hluti hver í öðrum. Ferli sem hefði getað orðið fyrirmyndaraðferð til að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum varð að leiksýningu. Hlutirnir söfnuðust fljótlega á hendur fárra aðila og hér á landi myndaðist ný eignastétt, bankaeigendur. Að hluta til tilheyrðu þessi nýja eignastétt ekki gömlu blokkunum í kringum kolkrabbann og Sambandið, en að hluta voru þetta aðilar sem spruttu upp úr þessu umhverfi. Það sem skipti líklegast mestu máli, var að þessir aðilar áttu eftir að verða aðalleikendur í fjármálakerfi nýrrar aldar.
Hvort sem við lítum til fyrsta skrefs í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands eða Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA), þá var sala hluta til almennings algjört klúður. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að ekki voru sett tímamörk á eignarhald. Kaupin snerust fyrst og fremst upp í það fyrir almenning að ná í skjótfenginn gróða. Með því að kaupa skammtinn af bréfum í hverjum banka fyrir sig og selja strax, þá mátti hala inn nokkra tugi þúsunda í hagnað á hverjum banka. Sjónarmiðið að koma bönkunum strax í almenningseigu varð undir. Lítill banki í samstarfi við nokkra sparisjóði var áberandi í þessu og komu þar fram fyrstu ábendingarnar um draum bankans um að verða stór. Þarna á ég við Kaupþing. En einnig leituðu menn úr sjávarútveginum í þessa átt, auk þeirra sem voru betur þekktir í fjárfestingum. Merkilegast verður þó að teljast ásælni Búnaðarbankans í bréf í Landsbankanum og Landsbankans í bréf í Búnaðarbankanum.
Þegar FBA var sett í sölu, þá atvikaðist það þannig að Kaupþing eignaðist talsverðan hluta í bankanum. Líklega hafa Kaupþingsmenn litið til þess að stjórnandi FBA var fyrrum starfsmaður bankans og menn því vitað hvaða stjórnunarstefnu hann fylgdi. Eftir á að hyggja, þá hljóta það að teljast mikil mistök hjá ríkinu, að velja óharðnaðan mann vart kominn af unglingsaldri til að stjórna bankanum. Með fullri virðingu fyrir Bjarna Ármannssyni, þá hafði hann ekki þá yfirsýn eða reynslu til að sinna þessu starfi. Það sem verra var, valið á Bjarna varð að einhverri fyrirmynd um að reynsluleysi og óbeislaðar hugmyndir væru það sem byggja ætti íslenskt bankakerfi á. Furðuleg afleiðing af því, var að góðir og traustir bankamenn af gamla skólanum voru ekki taldir falla inn í hina nýju staðalímynd sem ráðning Bjarna skapaði.
Að ráðamönnum hafi dottið í hug, að framsækni næðist best með því að ráða ungan mann í svona ábyrgðarstöðu, er mér hulin ráðgáta. Viðtöl við Bjarna í fjölmiðlum upp á síðkastið sýna, svo ekki verður um villst, að hann var ekki tilbúinn í starfið.
Færum okkur þá yfir á þess öld. Eftir að ríkið var búið að selja nærri helminginn í ríkisbönkunum í lok 20. aldarinnar, þá kom að því að selja restina. Farin var auðvelda leiðin við að selja FBA. Bankinn var sameinaður Íslandsbanka og til varð Íslandsbanki - FBA. Þar mættust nýi og gamli tíminn. Það getur vel verið að Valur Valsson hafi ekki fallið vel að ímynd FBA, en Bjarni féll ekki heldur vel að ímynd Íslandsbanka. Að því leiti var raunar út í hött að af þessari sameiningu hafi orðið. En hún varð og allt í einu breyttist Íslandsbanki í framsækinn, hugmyndaríkan og djarfan banka eða það áttum við a.m.k. að halda. Mín upplifun af honum var aftur, að þar voru menn svo uppteknir af að koma með nýjungar að þær voru oft illa útfærðar og úthaldið var takmarkað. Frá mönnum sem ég þekki/þekkti innan bankans, þá bárust mér alls konar sögur um holur í hugbúnaðarkerfum, tæknilegar útfærslur voru ekki tilbúnar og flýtirinn að vera fyrstur varð varúð oft yfirsterkari. Þó að ótrúlega fá mál um slíkt hafi ratað upp á yfirborðið og þar með í fjölmiðla, þá hefur eitt orðið mjög áberandi, þ.e. þegar gjaldeyriskaupaforritið sneri kaup- og sölugengi á haus. En kannski það sem almenningur varð mest var við (og mikið var rætt), var sú stefna, sem virtist ríkja hjá bankanaum, að yngja upp í hópi starfsmanna. Gert var grín af því, að stefna bankans væri að enginn mátti vera eldri en Bjarni Ármannsson (sem var náttúrulega ekki satt).
Hafi einkavæðing FBA verið byggð á veikum grunni, þá var hún samt hátíð á við það sem átti eftir að gerast með Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Talsvert hefur verið ritað um einkavæðingu þessara banka og því meira sem kemur fram því furðulegra verður málið.
Lagt var upp með fögur fyrirheit, þegar ákveðið var að selja 51% hlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Koma átti ráðandi hlutum í bönkunum í hendur erlendum bönkum, sem gætu komið hingað til lands með alþjóðlega bankaþekkingu. Niðurstaðan varð þveröfug. Bönkunum var komið í hendur aðilum sem höfðu enga alþjóðlega bankaþekkingu og takmarkaða þekkingu á rekstri banka að öðru leiti. Ég ætla ekki að fara yfir einkavæðingarferlið, enda aðrir mér hæfari til þess. Var það ferlið sem brást eða voru það pólitíkusar í helmingaskiptaleik sem rugluðu ferlið, verður fyrir sagnfræðinga að deila um.
Einkavæðing bankanna breytti miklu í íslensku þjóðfélagi. Margt mjög jákvætt gerðist meðan nýir eigendur héldu sig á mottunni og ráku bankanna sem almenna banka, en það átti eftir að breytast. Með innleiðingu nýrra reglna um fjármálamarkaði og aukinn aðgang að fé breyttist eigendahópur bankanna. Búnaðarbankinn var sameinaður Kaupþingi, Íslandsbanki komst í hendur einni viðskiptablokkinni og þó fáir hafi áttað sig á því í upphafi, þá höfðu nýir aðaleigendur Landsbankann ekki næga burði til að byggja bankann upp. Og enginn af aðaleigendum bankanna hafði þolinmæði til að láta uppbyggingu þeirra eiga sér stað, eins og hefðbundið hefur verið í hinum alþjóða bankaheimi, þ.e. með innri vexti. Nei, menn höfðu stórveldisdrauma og það átti að gerast strax. Fé til uppbyggingarinnar var fengið að láni, nákvæmlega eins og allt fé til upprunalegu kaupanna hafði verið fengið að láni. Eigendur þeirra voru hvergi að leggja raunveruleg verðmæti inn í bankana. Allt var upp á krít.
Líklegast var það þetta viðhorf sem vó þyngst í því, að bankarnir voru alltaf án baklands í eigendahópum sínum. Og líklegast var það þessi veika eiginfjárstaða eigendahópanna, sem síðan varð til þess, að bankarnir breyttust í raun úr bönkum í einkaeigu í einkabanka eigendanna. Í baksýnisspeglinum, þá hljóta það að hafa verið afdrifaríkustu mistök einkavæðingar bankanna, að bankarnir voru keyptir upp á krít án nægilegra sterkrar eiginfjárstöðu kaupendanna. Mistök sem áttu eftir að fylgja bönkunum alla lífdaga þeirra.