Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.10.2009.
Ég náði að hlusta á hluta af viðtalinu við Árna Pál Árnason, félagsmálaráðherra, á Bylgjunni áðan. Þar kom hann upp um þekkingarleysi sitt og ótrúlega lélega stærðfræðikunnáttu. Á þeim stutta tíma sem ég hlustaði fullyrti ráðherra m.a. spurður af hverju megi ekki lækka höfuðstól lánanna (gróf endursögn):
Ef við förum í höfuðstólslækkun og við lendum í nýju áfalli, nýrri lækkun krónunnar, þá stendur fólk í sömu sporum og áður.
Þetta var það sama og Magnús Orri Schram hélt fram í Kastljósi í gærkvöld. Ég spyr bara: Hvaða snillingur fann upp þessa skýringu?
Skoðum dæmi:
Höfuðstóll verðtryggðs láns stendur í 10 m.kr. Nú er ákveðið að lækka höfuðstólinn um 15%, þá lækkar hann strax í 8,5 m.kr. Nýtt verðbólguskot skellur á og ársverðbólga fer í 15%. Höfuðstóllinn hækkar þá um 15% eða í 9,8 m.kr. Ef höfuðstóllinn hefði ekki verið leiðréttur, þá færi hann úr 10 m.kr. í 11,5 m.kr. Fólk er sem sagt 15% betur sett.
Tökum síðan gengistryggt lán:
Raunar gilda alveg sömu rök. Höfuðstóllinn er lækkaður, en núna um 40%. 10 m.kr. höfuðstóllinn lækkar því í 6 m.kr. Gjaldeyrishöftin eru afnumin og krónan fellur um 20% sem þýðir að erlendir gjaldmiðlar hækka um 25%. 6 m.kr. höfuðstóllinn hækkar í 7,5 m.kr., en óbreyttur höfuðstóll færi í 12,5 m.kr. Fólk er eftir sem áður 40% betur sett.
Hvernig getur nokkur maður sagt að lántakandinn sé í sömu sporum og áður? Samfylkingin á aðgang að einum mesta stærðfræðisnillingi þjóðarinnar í formi Þorkels Helgasonar. Ég mæli með því, að menn fái fræðslu hjá honum áður en menn láta svona bull út úr sér og afhjúpi þannig eigin vanþekkingu.
Auðvitað er fólk betur sett, ef það fær lækkun á höfuðstóli, þó svo að gengi hrapi aftur eða verðbólgan fari af stað. Ekki bjóða fólki upp á svona málflutning. Ekki opinbera vankunnáttu ykkar svona svakalega.
Annað sem ráðherra sagði, var að dagsetningin 2. maí hafi verið ákveðin fyrir löngu, áður en hann kom að verkinu. Ég hélt að þetta væru HANS tillögur, en ekki tillögur fjármálafyrirtækja! En það var ekki það versta. Í umræðunni sem fylgdi, þá spurði hún Kolla af hverju ekki önnur dagsetning. Þá kom tungubrjótur stjórnmálamannsins:
Við verðum að hafa í huga að gengið var í sögulegu LÁGMARKI í janúar 2008.
Vafalaust á hann við að gengisvísitalan hafi verið í sögulegu lágmarki í janúar 2008 og túlka ég orð hans þannig. Hér er ráðherra greinilega mjög illa upplýstur, er að misskilja eitthvað eða vill nýta sér vankunnáttu fólks á gengisþróun. Ég veit eiginlega ekki hvað af þessu er verst. En, staðreyndin er sú, að krónan var í sögulegu HÁMARKI í janúar 2006. Þá var gengisvísitalan rétt rúmlega 100 stig. 31. desember 2007 stóð gengisvísitalan í 120,5 eða 20% hærri (sem þýðir að krónan var veikari) en þegar þessi vísitala var sterkust.
Hélt ráðherra virkilega að hann gætti sett fram svona vitleysu og hann kæmist upp með það? Málið er að líklegast gerir hann það, þar sem stór hluti þjóðarinnar er ekki að fylgjast með þróun gengisvísitölunnar, en þá er komið að fjölmiðlum. Nú þurfa fréttamenn Stöðvar 2 eða RÚV að stökkva á ráðherrann og spyrja hann út í bullið, því það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað, og birta svör hans á besta útsendingartíma. Það á ekki að láta ráðamenn komast upp með að bera svona rugl á borð fyrir þjóðina.
Af hverju vil ég ekki að hann komist upp með þetta? Vegna þess að þetta er kjarninn í rökstuðningi ráðherra fyrir því að ekki er hægt að fara í leiðréttingar/niðurfærslu á höfuðstóli lána heimilanna.
Nú viðurkenni ég, að morgunverk heimilisins komu í veg fyrir að heyrði allt viðtalið. Hafi restin verið eins og fyrstu 5 mínúturnar, þá boðar það ekki gott. Ég vona innilega, ráðherrans vegna, að hann hafi farið betur með tölur og staðreyndir í þeim hluta, sem ég heyrði ekki. Það var virkilega vandræðalegt að hlusta á villurnar sem frá honum komu. Ef hann er ekki betur að sér en þetta, hvað segir það um skilning hans á eigin tillögum? Ef grunnurinn er ónýtur, þá hrynur allt sem á honum er byggt.
----
Ég hlustaði á síðari hluta viðtalsins og verð að viðurkenna, að ég hef ekki geð í mér, að minnsta kosti í bili, að leiðrétta hinar vitleysurnar sem komu frá ráðherra. Trúir hann virkilega því sem hann segir? Er verið að semja við fjármálafyrirtæki um þessa vitleysu ÁN AÐKOMU NEYTENDA?