Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.12.2009.
Í dag gekk dómur í máli SP Fjármögnunar gegn lánataka, þar sem tekist var á um lögmæti gengistryggðra lána. Dómurinn féll SP Fjármögnun í vil. Mér er sagt að dómnum verði áfrýjað.
Dóminn er að finna á vef Héraðsdóms Reykjavíkur undir máli nr. E-4501/2009. Ákaflega fróðlegt er að skoða ályktanir dómara, þar sem í þeim eru hreinar rangfærslur, svo ekki sé meira sagt, miðað við það sem Eyvindur G. Gunnarsson sagði í erindi sínu á fundi Orators í síðasta mánuði.
Skoðum nokkur atriði úr dómsorðum:
Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. fjármagnaði útlán sín með lántökum hjá Landsbankanum. Þegar SP-fjármögnun hf. lánaði út dollara þá tæki félagið lán í dollurum. Ef félagið lánaði japönsk jen þá tæki það lán í japönskum jenum. Kjartan sagði að erlendar lántökur væru 80 til 90% í starfsemi félagsins, eða hefðu verið það fyrir hrun. Nú stæði ekki erlend mynt til boða. Allir nýir samningar í dag væru í íslenskum krónum.
Hér stangast orð Kjartans G. Gunnarssonar á við upplýsingar sem hann hefur veitt í öðru máli. Þar hefur komið fram að lántökum er veitt lán úr einhvers konar sjóði sem stofnaður er. Sjóðurinn samanstendur af mynteiningum og tekur breytingum eftir breytingum á myntinni. Að halda því svo fram í héraðsdómi, að framlánað sé lán frá Landsbankanum kallar á nánari skýringar út af öðrum málum. Annað í þessu er að það kemur lántaka ekkert við hvernig SP Fjármögnun fjármagnar sig ekkert frekar en það kemur honum við hvaða laun einhverjir starfsmenn fá.
Næst er kostulegur kafli um skyldur SP fjármögnunar gagnvart gjaldeyrisjöfnuði:
Kjartan sagði að félagið væri bundið almennum reglum um að hafa jafnvægi í erlendri mynt í eignum og skuldum. Farið væri eftir ákveðnum reglum í því sambandi. Eignir og skuldir verði að standast á. Óheimilt sé að taka gengisáhættu. Ef lánað er út í dollurum þá verði félagið að skulda í dollurum. Ef lánað er út í íslenskum krónum þá verði að taka lán í íslenskum krónum. Ekki megi taka lán í erlendri mynt og lána út í íslenskum krónum til að ná gengishagnaði.
Þessi kafli kemur málinu nákvæmlega ekkert við. Ekkert frekar en kaflinn þar á eftir um hverjir sátu eða sitja í stjórn félagsins. Málið snýst ekki um rekstur SP Fjármögnunar heldur lögmæti gjörningsins að lána út með gengistryggingu.
En þá að ályktunum dómara:
Óskar Sindri byggir í fyrsta lagi á því að óheimilt hafi verið af SP-fjármögnun hf. að binda afborganir lánsins við gengi japansks jens og svissneska franka gagnvart íslenskri krónu samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öðru lagi á því að forsendur samningsins hafi brostið og megi SP- fjármögnun hf. því ekki byggja á honum eins og nú stendur á. Í þriðja lagi byggir Óskar Sindri á því að ákvæði 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi hér við, enda sé, eins og nú standi á, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að SP-fjármögnun hf. beri hann fyrir sig.
Ætla verður að heimilt hafi verið að binda afborganir lánsins í íslenskum krónum við gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni og svissneskum frönkum eins og gert var. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla. Í 13. gr. segir m.a. að ákvæði um verðtryggingu gildi um skuldbindingar er varða lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar, en með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Þá segir að með verðtryggingu fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað. Í 14. gr. segir m.a. að heimilt sé að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grunvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.
Viðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt. SP-fjármögnun hf. tók erlent lán sem félagið lánaði síðan Óskari Sindra. Á félaginu hvílir skylda samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands að eiga á móti skuldbindingum sínum í erlendum lánum nokkurn veginn sömu fjárhæð í kröfum. Skuldbinding Óskars Sindra er í jenum og svissneskum frönkum samkvæmt samningi aðila. Engu breytir þó að erlenda myntin sé umreiknuð í íslenskar krónur við afborgun í hverjum mánuði og greitt hafi verið með íslenskum krónum, enda er til þess að líta að krónan er lögeyrir þessa lands. SP-fjármögnun hf. seldi erlenda mynt og fékk íslenskar krónur, sem notaðar voru til að greiða fyrri eiganda bifreiðarinnar. Óskari Sindra var í sjálfsvald sett hvort hann greiddi SP-fjármögnun hf. með íslenskum krónum eða með jenum og svissneskum frönkum. Erlent fé var lánað. Lög standa ekki í vegi fyrir að hægt sé að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var.
(Feitletrun mín.)
Það er einmitt þessi feitletraði texti sem er rangur í dómsorðinu. Í lögum nr. 38/2001 segir í 2. gr.:
Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.
Þarna segir að ekki megi víkja frá innihaldi 13. og 14. gr. nema "að því marki sem þar er kveðið á um". Athugasemd með 13. og 14. gr. í frumvarpinu segir berum orðum: "Í 1. mgr. [13. gr.] er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður." Og síðar segir: "Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi." Hvað er hægt að hafa hlutina skýrari?
Samkvæmt grein Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, sem birtist á eyjan.is síðast liðinn föstudag, þá vísar hann til nokkurra lagatexta þar sem bent er á, að viðskipti á Íslandi milli íslenskra lögaðila geti lögum samkvæmt bara átt sér stað í íslenskum krónum, enda sé krónan (samkvæmt athugasemd með frumvarpi að lögum nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands) "eini lögmæti gjaldmiðillinn á Íslandi". Gunnlaugur vitnar næst í athugasemd við frumvarp að lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, en þar segir: „Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í…….Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent“ (feitletrun Gunnlaugs) Samkvæmt þessum orðum, þá eru engin "erlend lán" veitt hér á landi. "Erlend lán" eru eingöngu tekin erlendis og öll lán tekin hér á landi eru "innlend lán" og "innlend lán" eru þá samkvæmt lögum í íslenskum krónum.
Mér virðist sem Páll Þorsteinsson, dómari í málinu, hafi leitað leiða til að sneiða framhjá hinum raunverulega ágreiningi í málinu. Hann leiðir hjá sér augljósar staðreyndir, samanber grein Gunnlaugs Kristinssonar, um að "skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er alltaf í íslenskum krónum"! Hvernig SP Fjármögnun fjármagnar sig, er lántaka algjörlega óviðkomandi. Að lántaki hafi óskað eftir láni í gengiskörfu, er málinu líka óviðkomandi. Málið snýst um hvort SP Fjármögnun hafi haft heimild í lögum til að veita þessi lán. Um það snýst málið og ekkert annað. Mér virðist af málflutningi mér vitrari manna, að lög nr. 22/1968, nr. 87/1992 og nr. 38/2001 taki af öll tvímæli. Ég skil ekki hvernig Páll Þorsteinsson getur tekið afstöðu til málsins án þess að skoða ákvæði tveggja fyrrnefndu laganna, þar sem þau eru grunnurinn að því að "erlend lán" verði ekki veitt á Íslandi og þá virka varnir 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um að eingöngu megi tengja íslensk lán við vísitölu neysluverðs eða innlenda eða erlenda hlutabréfavísitölur.
Niðurlag dómsorðs er ótrúlegt:
Ekki veldur sá er varar er almennt talið.
SP Fjármögnun varaði stefnda ekki við því að nokkur lög í landinu bönnuðu þann lánsamning sem hér um ræðir. Fyrirtækið var að bjóða ólöglegan varning. Fyrst þegar þessi varningur var boðinn, þá var það almennt gert í bakherbergjum og farið leynt með. Það var eins og verið væri að selja smygl eða ólögleg vímuefni. Ég get ekki annað sagt, en að mér finnst þessi orð dómarans sorgleg. Mér finnst líka sorglegt að sjá hann gjörsamlega líta framhjá fjölda lagaákvæða sem hrekja rökstuðning hans fyrir dómnum, en sorglegast finnst mér tvær ályktanir hans þ.e. "[á]kvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla" og"[v]iðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt". Hvernig hann kemst að þessu tvennu er mér gjörsamlega óskiljanlegt og þætti mér vænt um að fá nánari skýringu búi einhver yfir henni.