80 ára leyndarákvæðið hefur, sem betur fer, nánast engin áhrif

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.12.2009.

Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um meðferð skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins.  Í frumvarpinu er lagt til að um leynd upplýsinga fari eftir 3. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1996 Upplýsingalaga (sjá skýringu með 2. gr. frumvarpsins), en þar segir:

Veita skal aðgang að öðrum gögnum sem 4.–6. gr. taka til þegar liðin eru þrjátíu ár frá því að gögn urðu til, að frátöldum upplýsingum er varða einkamálefni einstaklinga, en aðgang að þeim skal fyrst veita að áttatíu árum liðnum frá því að þau urðu til. …2)

 

Hér er því verið að því virðist að leggja til 80 ára leynd á tilteknar upplýsingar sem rannsóknarnefndin hefur safnað í "þá gagnagrunna sem orðið hafa til í störfum hennar", eins og segir í 2.mgr. 2. gr. frumvarpsins.  Þarna er því ekki verið að tala um skýrslu nefndarinnar, enda telst hún seint vera gagnagrunnur.  En hvaða upplýsingar falla þá undir 80 ára leyndina? 

Skoðum Upplýsingalögin betur.  Í 4. gr. er eingöngu fjallað um upplýsingar frá stjórnvöldum og hún á því ekki við.  Og í 6. gr. fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, sem 80 ára reglan nær heldur ekki til.  Það er því eingöngu 5. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna sem virðist eiga við.  Greinin hljóðar sem hér segir:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Fyrri setning málgreinarinnar fjallar um "einkamálefni einstaklinga" og því þarf að skoða hana betur.  Þar segir:  "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari..".  Það er þetta "sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari" sem skiptir hér mestu máli.  Ég get skilið (og tel mig hafa stoð í athugasemdum með frumvarpi að upplýsingalögum) að upplýsingar sem falla undir friðhelgi einkalífsins skuli fara leynt, en þær upplýsingar sem lúta að störfum einstaklinga fyrir stjórnvöld, opinbera aðila eða fjármálafyrirtæki, þá falli þær ekki undir 5. eða 8. gr. upplýsingalaga.  T.d. ef í ljós kemur að æðstu starfsmenn bankanna hafi verið í einhvers konar bræðralagi sem gekk út á að ná sem mestum peningi út úr vinnuveitanda sínum, þá verði ekki hægt að skýla sér bak við um gögn "um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga" sé að ræða.  Sama á við um afkastatengdar launagreiðslur, sem ýttu undir áhættusækni.  Föst laun gætu aftur fallið undir þennan lið hjá starfsmönnum einkarekinna fjármálafyrirtækja, meðan heildarlaun seðlabankastjóra falla undir leyndina.

Mér sýnist sem frumvarp Rannsóknarnefndar Alþingis gangi hóflega fram í að takmarka aðgang almennings að þeim gögnum, sem sanngjarnt og eðlilegt sé að hann hafi aðgang að.  Til þess að haft sé það sem sannara reynist, þá eru engin leyndarákvæði í frumvarpinu, sem ekki er þegar í íslenskum lögum, og það er ekkert ákvæði sem heftir á einn eða neinn hátt aðgang almennings, að þeim upplýsingum sem munu birtast í skýrslu nefndarinnar.  2. gr. frumvarpsins nær eingöngu til þeirra "gagnagrunna sem orðið hafa til í störfum" nefndarinnar, þ.e. persónugreinanlegra einka- og fjárhagsupplýsinga sem "sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari".  Það ætti því ekkert að vera útstrikað í skýrslunni, þegar hún birtist almenningi.