Vandræðaleg uppákoma Magnúsar Orra í Kastljósi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.10.2009.

Ég var að hlusta á Magnús Orra Schram, þingmann Samfylkingarinnar, í Kastljóssviðtali.  Með honum var Björn Þorri Viktorsson lögmaður.  Því miður voru svo margar rangfærslur í málflutningi Magnúsar Orra, að það var virkilega vandræðalegt. 

Höfum alveg á hreinu:

  • Þó tillögur félagsmálaráðherra dragi tímabundið úr greiðslubyrði lána eru áhrif þeirra til langs tima neikvæð fyrir megin þorra almennings.  Þeim er fyrst og fremst ætlað að fresta vandanum.

  • Tillögur félagsmálaráðherra eru ekki að tryggja megin þorra landsmanna leiðréttingu.

  • Það er ekki verið að bjarga þeim sem þurfa á því að halda.  Þær tillögur eru ekki fram komnar.

  • Það er engin sanngirni í tillögum félagsmálaráðherra.  Heimilin eiga að greiða allt tjónið sem fjárglæfrar fjármálafyrirtækjanna ollu.

  • Það er ekkert réttlæti í tillögum félagsmálaráðherra, þar sem þeir sem söfnuðu mestum skuldunum fá niðurfærslu skulda, en hinir sem fóru varlega eiga að borga stökkbreyttan höfuðstól lánanna.

  • Það nýtist fólki strax ef höfuðstóll lána þeirra er leiðréttur núna.

Ég vorkenni mönnum sem eru svo auðtrúa að halda að verið sé að gera eitthvað marktækt fyrir skuldara.  Vissulega lækkar mánaðarleg greiðsla tímabundið, en svo verður ástandi verra en núna.  Nei, þeir sem helst fá hugsanlega eitthvað út úr þessu, eru þeir sem skulda meira en þeir eiga og eru því tæknilega gjaldþrota.  Það á því ekki að hjálpa þeim á annan hátt en að tryggja að þeir verði ekki eltir um aldur og ævi af innheimtulögfræðingum fjármálafyrirtækjanna.  Ef hér væru eðlilegar fyrningarreglur, þá væri ekki hægt að rjúfa fyrningu og halda kröfu lifandi um aldur og ævi.  Þær eru virkilega ómerkilegar hrææturnar, sem mæta á uppboð og bjóðast til að kaupa kröfur á lágu verði í þeim eina tilgangi að elta skuldarann út í eitt.

Ef Magnús Orri Schram heldur virkilega að hann geti komið í Kastljós og sagt fólki ósatt, þá skjátlast honum.  Það ættu náttúrulega að vera viðurlög við því að menn hagræði sannleikanum eins og hann gerði.  Auðvitað er möguleikinn, að hann skilji ekki tillögur félagsmálaráðherra, en þá á hann ekki að tjá sig um þær.  Þegar þingmenn mæta í Kastljós, þá verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir viti um hvað þeir eru að tala.

Skoðum nokkur ummæli hans (eru ekki orðrétt, en ekkert er slitið úr samhengi):  (MOS:  Magnús Orri Schram; MGN: Marinó G. Njálsson, þ.e. mín viðbrögð við orðum hans.)

MOS:  Afláttur á lánasöfnum, sem fæst við færslu þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju, verður notaður til að aðstoða ÞORRA almennings.

MGN:  Þorri almennings fær engan afslátt af lánum sínum samkvæmt tillögum ráðherra.  Tillögurnar ganga einmitt út á að þorri almennings beri tjón sitt óbætt.  Heimilin í landinu eiga að greiða fjármagnseigendum upp í topp.

MOS: Verið er að láta afskriftir fara til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda. 

MGN:  Nei, það er verið að láta afskriftirnar fara til þeirra sem bankarnir geta ekki innheimt eitt eða neitt af.  Þeir sem þurfa mest á þeim að halda, eru þeir sem ennþá geta eða eiga að geta staðið í skilum en hafa þurft að skera umtalsvert niður í neyslu til þess að halda sér í þeirri stöðu.  Fólkið sem er á mörkum þess að lenda í verulegum vandræðum, en mun gera það verði ekkert gert.  Fólkið sem mun fara yfir mörkin, þegar skattahækkanir næsta árs skella á þeim, eins og flóðbylgja.

MOS:  Verið er að leiðrétta stöðuna í það sem hún var fyrir hrun.

MGN:  Þetta er rétt gagnvart verðtryggðum lánum, en ekki gengistryggðum.  Gengið byrjaði að lækka í júlí 2007 og fyrra hrun þess varð í mars 2008, ekki eftir 2. maí 2008.  Nær engin breyting varð á gengi krónunnar frá 2. maí til 1. september 2008.  Munurinn á þessum tveimur dagsetningum er um 5% úr 152,6 stigum í 159,8 stig (breyting á gengisvísitölu).  Valið á 2. maí er eingöngu gert til að mars og apríl fall krónunnar sé inni í greiðslubyrðinni.

MOS:  Tillögur ráðherra hafa mjög jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn... Fólk mun taka lánin með sér ... Þær hjálpa fasteignamarkaðnum að endurskipuleggja skuldir.

MGN:  Hvernig getur það hjálpað fasteignamarkaðnum að auka óvissu um hvort lán verða færð niður eða ekki?  Hvað á fólk að gera með "kreppuhalann" þegar það minnkar við sig, stækkar við sig, selur til að flytjast úr landi?  Hvernig hjálpar það ungu fólki að koma inn á húsnæðismarkaðinn, að stór hluti húsnæðis er með "kreppuhala"?

MOS:  Er ekki betra að fólk borgi í samræmi við laun?

MGN:  Þetta er skýrasta dæmið um að þingmaðurinn skilur ekki tillögurnar.  Það er enginn að fara að greiða af lánum í samræmi við launin sín.  ENGINN.  Fólk á að fara að greiða í samræmi við þróun launa í þjóðfélaginu og atvinnustig.  Ef kennarar fá 20% kauphækkun, þá hækkar mánaðarleg greiðsla lögregluþjónsins sem jafnvel lækkaði í launum vegna niðurskurðar eða breytinga á vaktafyrirkomulagi.  Greiðslujöfnunarvísitalan er ekki beintengd við laun hvers og eins.  Hún mælir breytingar hjá fjöldanum.  Og þrátt fyrir afleitt atvinnuástand og mikla kjaraskerðingu stórra hópa, þá hefur hún lækkað um rétt 4-5 stig (4-5%) á einu ári. Á sama tíma hefur atvinnuleysi farið út 3,3% í 7,7% eða aukist um 133%.

MOS: Leiðrétting á höfuðstóli nýtist ekki fólki núna.

MGN: Úps! Ég legg málið í dóm.  (Þetta voru raunar eitt það fyrsta sem hann sagði, en ég enda á þessu gullkorni.)  Ég er ekki viss um að Magnús Orri hafi skilið hvað hann var að segja.  Skoðum þetta betur:  "Leiðrétting á höfuðstóli nýtist ekki fólki núna."  Það nýtist ekki fólki að lækka töluna, sem ákvarðar mánaðarlegar greiðslur, um 20 - 50%.  Það nýtist ekki fólki til að liðka fyrir fasteignaviðskipti að lækka höfuðstól lána um 20 - 50%.  Ég gæti sagt svo margt um þessi ummæli Magnúsar Orra, en læt það ógert.  Þau dæma sig sjálf.

Ég velti því fyrir mér hvort Magnús Orri hafi skilning á tillögum félagsmálaráðherra eftir að hafa hlustað á hann í Kastljósi.  (Ég er búinn að fara vel yfir viðtalið á vefnum, svo ég sé ekki að taka neitt eftir minni.) Hann sýndi það ekki í þessu viðtali og fann ég til með Birni Þorra að þurfa að sitja undir vandræðalegum málflutningi þingmannsins.