Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.11.2008.
Mér sýnist sem ákveðinn hluti íslenska fjármálageirans sé haldinn slæmri spilafíkn. Það hefði kannski verið betra að leyfa fjárhættuspil hér á landi og skapa þeim sæmilega lokað umhverfi til að leggja sitt eigið líf í rúst, en láta okkur hin í friði. Það kemur svo sem ekki fram í frétt mbl.is hvort að bankarnir voru með í því að taka "stórfelldar stöðutökur gegn íslensku krónunni" bara haft eftir heimildarmanni að
..það haf[i] komið á óvart hversu háum fjárhæðum fjárfestingafélög, innlend og erlend, hafi verið tilbúin að veðja á að íslenska krónan myndi veikjast.
Ég feitletraði það sem mér fannst skipta máli. Nú er spurningin hver þessi innlendu félög voru og hvort eitthvað af þessum samningum enduðu hjá bönkunum, þ.e. hvort bankarnir voru virkir þátttakendur í þessu eða bara eðlilegur milligönguaðili.
Annars var ég að horfa á mjög forvitnilega fréttaskýringu í 60 minutes í gærkveldi, þar sem fjármálamarkaðnum var bara lýst sem jafn ómerkilegri veðmálastarfsemi og íþróttaveðmálum. Þeir sem ekki komust að kjötkötlunum til að versla með pappírana sjálfa, stóðu í veðmálum um þróun þeirra. Þetta er svo sem ekkert annað en ég hef oft verið að tala hér um í tengslum við skuldatryggingarálag og starfsemi vogunarsjóða en þessi eftirlitslausi markaður er búinn að leggja hátt í 600.000 milljarða USD undir (516.000 milljarða USD í CDO og 56.000 milljarða í CDS).
Ég hef margoft bent á að regluverk fjármálakerfisins þarfnist verulegrar yfirhalningar. Í upplýsingaöryggismálum erum við með í grunninn tvær reglur:
Allt er leyft sem er ekki sérstaklega bannað
Allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft
Fjármálageirinn virðist hafa verið stilltur á reglu 1 undanfarin ár og ekki bara það, hann hefur verið undir eigin eftirliti. Hvað á ég við með því? Jú, það þarf ekki annað en að fara inn á vefsvæði Fjármálaeftirlitsins til að sjá, að eftirlitsskyldir aðilar eiga að skila fleiri tugum skýrslna á hverju ári í gegnum rafrænt skilakerfi. Hjá FME starfa 53 starfsmenn (samkvæmt upplýsingum á vefsvæði). Ég leyfi mér að efast stórlega um að FME hafi haft burði til að sinna eftirlitsskyldu sinni. Raunar var ég svo efins um það í vor, þegar stofnunin sendi frá sér enn eitt sjálfsmatsformið, að ég sendi þeim póst, þar sem ég bauð fram þjónustu mína við að aðstoða stofnunina við að sannreyna upplýsingarnar.