Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.11.2008.
Það er leiðinlegt að menn tapi á því að treysta Íslendingum og mun skaða orðspor okkar um langa framtíð. Það sem mig langar meira að vita er hvaða áhrif þetta hefur á bankana. Þeir tóku lán til að lána aftur til fyrirtækja og einstaklinga. Ef lánin sem bankarnir tóku verða öll meira og minna afskrifuð, mun það nýtast okkur skuldurum bankanna eitthvað?
Annað í þessu. Gæti hér myndast kauptækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í vanda að kaupa kröfur á bankana og selja þær síðan bönkunum gegn niðurfærslu sinna skulda? Ég væri alveg til í (ef ég hefði efni á því) að kaupa 100 milljarða kr. kröfu á Landsbankann (svo dæmi sé tekið) fyrir 3 - 5 milljarða og selja honum hana síðan aftur á segjum 10 - 15 milljarða. Málið er að ég á náttúrulega ekki 5 milljónir handbærar hvað þá 5 milljarða.
Lítið fáist upp í skuldir bankanna
Viðbót 30.3.2024: Ég nefndi það nokkrum sinnum í færslum, að með ólíkindum hafi verið að ríkið hefði ekki boðið í þessi bréf. Þarna hefði það getað greitt 5 aura fyrir hverja krónu af skuldunum, sem gert hefði það að helstu kröfuhöfum búa hrunbankanna. Kröfuhafarnir enduðu á því að fá 30-40 aura á hverja krónu. Að skuldabréfin hafi þarna fengist á einhverja aura fyrir hverja krónu var meðal helstu raka Hæstaréttar í dóm sínum um neyðarlögin.