Hinn almenni borgari á að blæða

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.11.2008.

Það er gjörsamlega fáránlegt að leggja til svona eignaupptöku.  Við skulum hafa í huga, að hinn almenni borgari gerði í fæstum tilfellum nokkuð rangt.  Vissulega tóku ýmsir 90 - 100% lán og þau hafa hækkað, en í langflestum tilfellum hefur það eitt gerst að greiðslubyrði lána hefur vaxið fólki yfir höfuð vegna þess að ríkisstjórn og Seðlabanka mistókst að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.  Í verðtryggingarkerfi eins og hér á landi, þá hækka lánin og koma ekki niður aftur.  Það þarf að leysa, ekki með því að taka eignina af fólki, heldur með því að færa greiðslubyrði hvers einstaklings niður á það stig að hann ráði við það á sama hátt og hann réð við það áður.

Fyrirtæki geta fært starfsemi sína yfir á nýja kennitölu.  Það geta einstaklingar ekki.  Ég væri alveg til í að stofna ehf um húseignina mína og kaupa hana svo aftur af ehf-inu á lægra verði.  Ég get það ekki (a.m.k. eftir því sem ég best veit).  Að Íbúðalánasjóður eða lífeyrissjóðirnir eigi að eignast hluta af húsnæði á móti fyrri eiganda er gjörsamlega út í hött.  Ég hef lagt til aðferð, sem ég tel margfalt betri og sanngjarnari gagnvart almenningi.  Ég birti hana í færslu hér í síðasta mánuði og vil birta hana hér aftur:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.

  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.

  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.

  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.

  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.

  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Til að skýra betur hvað er átt við:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.

Mönnum finnst þetta kannski dýr lausn, en málið er að hún kostar nákvæmlega það sama og leið Gylfa og Jóns.  Eignist Íbúðalánasjóður eða lífeyrissjóðirnir hluta af húsnæði einstaklinga, þá er það hvort eð er bara talnaleikur.  Skiptir einhverju máli hvort þessir aðilar eiga kröfu á afskriftarsjóðinn eða eignarhlut í húsnæði, sem þeir hugsanlega fá ekki greiddan fyrr en eftir dúk og disk, auk þess sem eigandi húsnæðisins er settur í nokkurs konar átthagafjötra, þar sem hann veit að um leið og hann seldur, þá hirðir einhver annar af honum stóran hluta af söluverðinu.


Skoðað hvort leyft verður að selja hluta húsa

Viðbót 30.3.2024: Þessari hugmynd var síðan hrint í framkvæmd 14 árum síðar í hlutdeildarlánum vegna íbúðakaupa.