Varnarræða FME

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.11.2008.

Í gær sór Davíð af sér allar sakir og í dag fáum við afsakanir FME.  Ég verð að vísu að viðurkenna, að mér finnast skýringar Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar FME, mun yfirvegaðri og trúverðugri, en þær sem formaður bankastjórnar Seðlabankans gaf í gær.  Jón reynir þó ekki að kenna Seðlabanka og ríkisstjórn um.

Það er tvennt sem mig langar að fjalla betur um í málflutningi Jóns Sigurðssonar:

1.  Jón Sigurðsson segir að það hafi ekki verið verkefni FME að "breyta reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja".

Mér finnst þetta vera nokkuð áhugaverð staðhæfing í ljósi þess, að FME er útgefandi af stórum hluta þeirra reglugerða sem gilda um fjármálamarkaðinn.  Ég hef svo sem ekki mikla trú á því að FME semji þessar reglur, heldur sé það meira tæknileg framkvæmd að forstjóri FME skrifi undir reglurnar.  Raunar held ég að það sé hreinlega rangt að FME geri slíkt, en nánar um það í lið 2.

En fyrst FME skrifar undir og gefur út reglurnar, þá verðum við að líta svo á að FME geti breytt "reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja".  Tvær breytingar á undanförnum árum hafa verið mér mjög hugleiknar.  Báðar lúta að sama atriðinu, þ.e. þeim reglum um útreikning á eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja sem kenndur er við Basel II.  Hér eru reglur sem beinlínis opnuðu fyrir vöxt bankanna.  Árið 2003 var eiginfjárkröfu vegna veðlána breytt þannig að áhættavægi af lánum umfram fyrsta veðrétt var lækkað um 50%, sem þýddi að útlánageta bankanna vegna veðlána umfram 1. veðrétt jókst um 100%.  2. mars 2003 var þessari kröfu breytt aftur og nú var áhættuvægið lækkað í 35% af upphaflegu vægi.  Banki sem gat áður lánað 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigið fé, gat núna lánað 285 kr.  Þetta er ein af grundvallar ástæðum þess að útlán bankanna jukust jafnmikið og raun bar vitni.  Þegar síðan peningamargfaldarinn (þ.e. áhrifin af því að peningur sem tekinn er að láni verður að innláni sem eykur útlánagetu) er tekinn inn í þetta, þá fáum við enn frekari skýringu á vexti bankanna.  Rétt er að benda á, að breytingin sem framkvæmd var 2. mars 2007 var framkvæmd beint ofan í aðgerðir ríkisstjórnarinnar í verðbólgumálum og í reynd eyðilagði þá aðgerð. Annað sem rétt er að taka fram, að í Basel reglunum er sérstaklega tekið fram að hvert land fyrir sig skuli meta hvort viðeigandi sé að breyta áhættuvæginu úr 50% í 35%.

Hér eru a.m.k. tvær breytingar á reglum sem FME hefði, samkvæmt verkaskiptingu FME og Seðlabanka, getað dregið til baka að hluta eða alveg til að draga úr vexti bankanna.

2.  Jón Siðurðsson segir: "Verkefni FME er að líta eftir því að starfsemi eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja sé í samræmi við gildandi lög og reglur."  Jafnframt finnst honum óráðlegt að FME sameinist Seðlabankanum.

Þetta kemur inn á mitt sérsvið.  Ekki að ég hefi of mikið vit á inniviðum fjármálamarkaðarins, en ég fæst við skilgreiningu reglna, innleiðingu og framkvæmd þeirra og úttektum sem lúta að áhættu- og öryggisstjórnun.  Ég hef rekið áróður fyrir því í langan tíma, að nauðsynlegt sé að tryggja aðskilnað þessara þriggja þátta.  Þá á ég við að sami aðili sé ekki að setja reglur og innleiða þær, að reglusmiðurinn sé ekki jafnfram úttektaraðilinn og að sá sem sér um framkvæmdina taki ekki sjálfan sig út.  Yfirleitt hefur verið auðvelt að skilja á milli framkvæmdar og úttektar, en erfiðara hefur verið að fá menn til að skilja að það sé ekki viðeigandi að sami aðilinn semji reglurnar og sjái um úttekt (nema um óformlega stöðuúttekt sé að ræða). Jafnframt þykir allt of mörgum sjálfsagt, að sami aðili skilgreini kröfurnar sem á að uppfylla og sjái síðan um framkvæmdina.

Þetta gæti verið ein af þeim kerfislægu villum sem Jón Sigurðsson vísar til, þó ég raunar efist um það.  Að mínu áliti er eitt af vandamálum fjármálakerfisins, að FME hefur verið að setja markaðinum reglur og síðan sjá um úttekt á þessum sömu reglum.  Það sem gerist við þetta, er að úttektaraðilinn ber bara framkvæmdina saman við reglurnar, en þá vantar að bera reglurnar sama við kröfurnar, þ.e. lög og alþjóðlega staðla og reglur.

Í mínum bransa sækjast fyrirtæki gjarnan eftir vottun sem krefst vottunarúttektar.  Slík úttekt er tvískipt.  Annars vegar úttekt á því hvernig stjórnkerfið og reglurnar falla að kröfum staðalsins sem um ræðir og hins vegar hvernig fyrirtækinu gengur að vinna í samræmi við hið skilgreinda stjórnkerfi og reglur.  Þar sem FME setur hluta af þeim reglum, sem fjármálafyrirtæki eiga að uppfylla, þá er FME hreinlega vanhæft til að sinna úttektunum.  Ástæðan er sú að með því er FME að taka út sitt eigið regluverk.  Markmið úttektarinnar verður því að skoða framkvæmdina (sem er gott og blessað), en menn missa af því að skoða hvort regluverkið sé rétt.  Það er því alveg rétt, að FME var að standa sig vel í úttektum og bankarnir voru að koma vel út úr þeim, en það vantaði hlutlausan aðila til að spyrja hvort reglurnar, sem úttektirnar voru byggðar á, hafi verið réttar.  Voru kröfur FME og Seðlabankans í samræmi við þá áhættu sem bankakerfið stóð frammi fyrir.  Mín niðurstaða er að svo hafi ekki verið.

Ein alvarlegasta kerfislægan villan í fjármálakerfinu er því að mínu áliti, að ekki er skilið á milli þeirra sem setja reglurnar og þeirra sem sjá um eftirlitið.  Ef við viljum gera breytingar á verkaskiptingu Seðlabanka og FME, þá á að efla eftirlitsþátt FME en flytja reglusmíðina yfir í Seðlabankann.  Þetta kallar örugglega á lagabreytingu varðandi hlutverk Seðlabankans.

Það sem við græðum á þessu er að myndaður er algjör aðskilnaður milli reglusetningar, innleiðingar og framkvæmdar og síðan eftirlits.  Síðan þarf að gera þessa sömu kröfu til allra fjármálafyrirtækja, þ.e. að skilið sé alfarið á milli áhættustýringar (þ.e. mótun stefnu, greining krafna, ákvörðun stýringa), daglegrar öryggisstjórnunar (m.a. gerð verklagsreglna, innleiðing og framkvæmd) og úttekta (þ.e. innra og ytra eftirlits, regluvörslu, o.s.frv.). Mér vitanlega hefur aðeins einn af stóru bönkunum fylgt þessari skiptingu, meðan hinir hafa verið að blanda saman fyrstu tveimur þáttunum. 

Ég mun fara nánar út í mikilvægi þessa aðskilnaðar í námskeiði mínu um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sem fram fer 8. og 9. desember nk. Frekari lýsingu á námskeiðinu er að finna hér.


Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlits og Seðlabanka