Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.11.2088.
Eftir að hafa lesið þessa frétt Morgunblaðsins, þá eru nokkrir punktar sem vekja athygli mína:
1. Fjölmiðlum kennt um:
Spurði Davíð að því hvort það hefði verið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu ekki verið í þeim heljargreipum sem þeir voru í.
Um þetta er ekki annað að segja, að fjölmiðlar eiga að flytja fréttir ekki leysa vanda. Vandamál hverfa ekki þó ekki sé fjallað um þau.
2. Árangurslausar viðvaranir Davíðs:
Að sögn Davíðs varaði hann ítrekað við útrásinni og fylgifiskum hennar...Vísaði Davíð þar til orða sinna á fundi Viðskiptaráðs fyrir ári þar sem þetta kom allt fram. Á þeim fundi varaði Davíð stórlega við útrásinni og öllu því sem henni fylgdi, svo sem skuldasöfnunin og hvað lítið þurfi til þess að loftið fari allt úr útrásinni með skelfilegum afleiðingum. Jafnframt vísaði Davíð til ræðu sinnar á ársfundi Seðlabankans frá því í mars þar sem hann varaði einnig við því sem gæti gerst.
Orð eru til alls vís, en ef engar aðgerðir fylgja þeim, þá gagnast þau ekkert.
3. Skýrsla eftir fund með matsfyrirtækjum:
Davíð vísaði til fundar sem bankastjórnin átti í Lundúnum í febrúar með matsfyrirtækjum og háttsettum bankamönnum þar í landi. Segir hann að þó seðlabankamenn hafi haft áhyggjur af ástandi mála fyrir fundinn þá hafi þeim verið brugðið eftir fundinn..Þar hafi verið lesin skýrsla, sem var til eftir fundinn í Lundúnum. Í skýrslunni kom fram að áhyggjur af Íslandi lutu eingöngu að íslensku bönkunum og stöðu þeirra. Ef þeim yrði hált á svellinu þá myndu fleiri falla með.
Davíð sagði, að af skýrslunni megi draga þá niðurstöðu, að íslenska bankakerfið hefði verið í verulega hættu á þeim tíma sem skýrslan var kynnt, það er í febrúar. Þar kom fram að markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum sem og öðrum bönkum næstu mánuði og í allt að tvö ár.
Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka. Niðurstaða skýrslunnar er sú, að ljóst sé að íslensku bankarnir hafi stefnt sér og íslensku fjármálalífi í stórhættu með framgöngu sinni undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að vinda strax ofan af stöðunni.
Ok, hér er Seðlabankinn með mikið efni að vinna úr, en hver voru viðbrögð hans. Erindi á ársfundi bankans.
Hér tiltek ég þrjú atriði úr erindi Davíðs, eins og þau koma fyrir í frétt mbl.is. Í fyrsta kennir hann fjölmiðlum um, í öðru útrásarmönnum og í hinu þriðja bönkunum. Hann aftur nefnir hvergi til hvaða aðgerða Seðlabankinn greip til að sporna við þróuninni. Hann viðurkennir meira að segja að Seðlabankinn hafi ekki áttað sig á því fyrir fundinn með matsfyrirtækjunum í febrúar hve staðan hefði verið alvarleg. En fyrst að staðan var orðin svona alvarleg:
1. Af hverju jók Seðlabankinn ekki strax við gjaldeyrisvaraforðann sinn í nóvember á síðasta ári í kjölfar ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs?
2. Af hverju lagðist Seðlabankinn gegn því að Kaupþing gerði upp í evrum?
3. Af hverju var beðið með það fram í maí að fá heimild hjá Alþingi fyrir stóra láninu, ef Seðlabankinn vissi í febrúar að þörf var á því?
4. Af hverju gerði Seðlabankinn ekki tillögu að því að leita til IMF strax í febrúar, þegar hann hafði þá skoðun matsfyrirtækjanna að lokað væri fyrir lánsfé til íslensku bankanna og slík lokun gæti staðaið yfir í 12 - 24 mánuði?
5. Af hverju hafnaði Seðlabankinn þeirri leið í sumar (sbr. orð Davíðs í Kastljósþættinum fræga) að leita til IMF á þeim tíma?
6. Hvað með að beita einhverjum öðrum stjórntækjum, en bara stýrivöxtum?
Það er nákvæmlega ekkert gagn af Seðlabankanum, ef bankinn bara horfir á og fylgist með, en aðhefst ekkert. Ég hélt að það væri hlutverk Seðlabankans að koma á stöðugleika, að vera bakhjarl bankanna. Seðlabankinn er búinn að viðurkenna fyrir sér í febrúar, að hann geti ekki bjargað bönkunum!
Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka.
Það er því ljóst að aðgerðirnar sem gripið var til gegn Glitni í lok september höfðu verið undirbúnar fyrir löngu. Seðlabankinn var búinn að ákveða það fyrir löngu að hann gæti ekki staðið við þá skuldbindingu sína að vera lánveitandi til þrautarvara. Þannig í staðinn fyrir að auka við sjóði Seðlabankans, þá fóru menn að útbúa áætlun um yfirtöku bankanna.
Eitt í viðbót. Þetta heyrði ég í hádegisfréttunum: Davíð skammaði sjálfan sig í ræðu sinni, þegar hann gagnrýnir að FME hafi verið fært undan Seðlabankann með lögum árið 1998. Hver skyldi nú hafa verið forsætisráðherra þá?