Færa þarf höfuðstól lánanna niður

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.11.2008.

28. september sl. skrifaði ég færslu undir heitinu Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum þar sem lýst er hugmyndum að leiðum til að hjálpa fólki sem er í vanda vegna hækkun lána.  9. október birti ég færsluna Tillögur talsmanns neytenda sem tillögur mínar um aðgerðir vegna síhækkandi höfuðsstóls íbúðalána og var síðan endurbirt 4. nóvember.  Ennþá örlar ekkert á raunhæfum tillögum frá ríkisstjórninni og vil ég því endurbirta tillögu mína einu sinni enn:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.

  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.

  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.

  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.

  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.

  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Sú leið að frysta höfuðstólinn í nokkra mánuði bara til þess að lánin safni meiri vöxtum og hækka þannig heildargreiðslur lánatakanda er engin lausn.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Til að skýra betur hvað er átt við:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.


Hætti að greiða af lánum sínum