Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.11.2008.
Jæja, þá er það komið í ljós. Hið aldurhnigna ljón breska heimsveldisins hefur fundið mús sem það ræður við. Hér eru menn lítilla sanda, lítilla sæva. Hvað segir þetta fólki um möguleika okkar innan ESB? Viljum við treysta ESB fyrir auðlindum okkar, þegar það á að kúga okkur til undirgefni? Fyrst rýra Bretar eigur íslensku bankanna í Bretlandi um þúsundir milljarða og skerða þannig möguleika breskra innistæðueigenda til að fá greitt út, en við eigum samt að greiða tjónið. Þetta er hvílíkt bull, að það þarf virkilega siðblindan einstakling til að skilja ekki ruglið.
Það sem mér finnst samt merkilegast, er að stjórnvöldum þessara stórþjóða finnst hið besta mál að íslenskur almúgi eigi að greiða. Við tókum á engan hátt þátt í þessu og höfðum ekkert um þetta að segja, en við eigum að borga. Göfgi þeirra er mikil. Nú þurfum við að snúa okkur að fulli til Rússa (ef það er ekki um seinan).
En það er fleira. Við þurfum líka að skipta um ríkisstjórn án tafar og mynda utanþingsstjórn. Ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vilja ekki víkja að sjálfsdáðum, þá sting ég einfaldlega upp á að frjálsir Íslendingar myndi sína eigin stjórn. Finnum hæfa einstaklinga til að mynda alvöru þjóðstjórn. (Þá er ég ekki að tala um ríkisstjórn alþýðunnar, eins og DV gerði.) Við getum alveg gert appelsínugulabyltingu eins og Úkraínumenn. Við getum fellt múra stjórnleysis og óréttlætis, eins og Austur-Þjóðverjar gerðu. Að minnsta kosti mæli ég með því að stofnaður verði aðgerðahópur (hafi það ekki þegar verið gert), þar sem saman koma einstaklingar með hugmyndir um hvað þarf að gera. Menn og konur sem hafa þor, dug og kjark til að setja fram nýjar hugmyndir fyrir nýtt Ísland. Svo verði auglýst eftir frekari tillögum. Ég er farinn að hallast að við, fólkið í landinu, verðum að taka völdin af þeim sem sváfu á verðinum. Þetta er margt hið vænsta fólk, en það fékk sitt tækifæri. Ég viðurkenni fúslega að það nýtti það vel til að byrja með, en svo óx viðfangsefni þeim upp fyrir höfuð. Nú er kominn tími til að hleypa nýju aðilum að.