Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.11.2008.
Ég tek eftir því að það er verið að henda smjörklípum um allt til að leiða umræðuna frá aðalviðfangsefninu. Það virðist ekki skipta mála með hvaða fjölmiðli maður fylgist með, alls konar furðulegar sögur eru farnar að dúkka upp eða athyglinni er beint að aukaatriðum í stað aðalatriða. Mig langar að nefna þrjú dæmi um þetta sem komu upp um helgina:
Agnes Bragadóttir "skúbbaði" 3 ára gamalli frétt um að Hannes Smárason hefði hugsanlega lánað Pálma Haraldssyni fyrir kaupverðinu á Sterling. Aðrir fjölmiðlar bitu á agnið og hafa eytt ómældum tíma í að endursegja gamlar fréttir.
Birt er grein í Morgunblaðinu þar sem bent er að Jón Ásgeir sé ennþá skráður í stjórnir 13 hlutafélaga. Aðrir fjölmiðlar bíta á agnið og eyða tíma og plássi í þetta.
Haldinn er fjölmennur mótmælafundur á Austurvelli. Fáeinir einstaklingar á fundinum kasta eggjum í Alþingishúsið og "saurga" það og tveir klifra upp á þak. Varla er minnst á fundinn og ekkert á málflutning fundarmanna.
Ég get ekki að því gert, en mér finnst eins og einhver áróðursvél sé komin í gang, sem hefur það að markmiði að beina athyglinni frá klúðri ráðamanna.
Ég er búinn að bíða eftir því í meira en mánuð að fá að vita nákvæmlega hvað gerðist í undanfara þjóðnýtingar Glitnis. Þetta er áhrifaríkasta ákvörðun sem tekin hefur verið í lýðveldissögu þjóðarinnar og hvernig væri nú að Agnes "skúbbari" reyni nú að skúbba nýrri frétt en 3 ára gamalli sem fjallað var ítarlega um á sínum tíma. Hvernig væri að einhver alvöru blaðamaður skoðaði, með hjálp sérfræðings, hvaða áhrif tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnuleysistryggingarsjóð hafa á atvinnumarkaðinn eða hvaða úrræði væru önnur eða hvað Tryggvi Þór Herbertsson var að gefa í skyn í viðtalinu við Björn Inga á laugardaginn eða að menn köfuðu ofan í orð Davíðs Oddssonar í Kastljósviðtalinu á sínum tíma eða menn fengju á hreint hvað var reynt í sumar, hvaða svör fengust og hvers vegna þessi svör fengust. Það eru svo mörg mál sem eru mun brýnni en 3 ára gömul saga um Hannes Smárason. Trúverðugleiki Hannesar er ekki það sem skiptir máli, heldur skiptir máli að skilja af hverju þrír stærstu bankar landsins hrundu í byrjun október, hvaða skuldir og ábyrgðir við sitjum uppi með vegna hrunsins, hvernig ætlunin er að halda atvinnurekstri í landinu gangandi, hvaða aðgerðahópar á vegum ríkisstjórnarinnar eru í gangi og hvað þeir eru að fást við, hvað ríkisstjórnin er yfirhöfuð að gera til að rétta þjóðarskútuna af, hver aðkoma Alþingis er að málum. Mér þætti líka forvitnilegt að fá alvöru fréttaskýringu, sem fjallaði um hvað er satt og logið varðandi icesave.