Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.11.2008.
Ég legg það ekki í vanann að lesa efni á xd.is, en ákvað að fylgja hlekk af eyjan.is. Þar var vísað í pistil með yfirskriftinni Öflugar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja stöðu heimilanna. Þetta er metnaðarfullur lista, það vantar ekki, en það er bara allt of margt rangt í þessum tillögum. Mig langar hér að skoða listann aðeins og gera mínar athugasemdir við hann.
Sveigjanleiki á vinnumarkaði: Til að sporna við vaxandi atvinnuleysi á að lengja þann tíma sem greiða má tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Ennfremur er gert ráð fyrir að greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa verði miðaðar við tekjur launamanns samkvæmt starfshlutfalli áður en til samdráttar kom. - Er ég að misskilja eitthvað? Hvernig spornar það við atvinnuleysi að borga fólki hærri bætur? Hér væri mun betra að greiða atvinnurekandanum þessa upphæð fyrir það að halda starfsmanninum í fullu starfi. Í staðinn má lækkar byrðar á atvinnulífinu með lækkun tryggingargjalds og tímabundinni lækkun framlags launagreiðanda í lífeyrissjóð. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar auka líkur á atvinnuleysi, þar sem atvinnurekendur vita að skellur þeirra sem missa vinnuna verður ekki eins mikill.
Komið til móts við námsmenn erlendis: Fallist hefur verið á tillögu stjórnar LÍN um breytingu á úthlutunarreglum sjóðsins fyrir yfirstandandi skólaár. Boðið verður upp á aukalán. Auðvelda á mönnum að hefja lánshæft nám á næsta ári. - Ég bíð spenntur eftir að heyra hverjar þessar breyttu úthlutunarreglur verða og hvað felst í þessu aukaláni og vonandi verður það til hagsbóta fyrir nemendur. En þá kemur þessi kostulega tillaga að auðvelda fólk að fara í lánshæft nám. Ríkið ætlar sem sagt að hvetja fólk til að fara í frekara nám til þess að það fari á námslán til að tryggja sér og sínum framfærslu. Höfum í huga, að það þarf að greiða lánin til baka og þau borga ekki afborganir annarra lána. Það á sem sagt að ýta fólki út í meiri lántökur.
Almenn velferð nemenda: Tilmælum beint til skólastjórnenda að huga að almennri velferð nemenda. - Gott og blessað. Göfug hugmynd. En hefði ekki verið betra að segja að ríkið ætlaði að leggja 100, 200 eða 300 milljónir í þetta verkefni. Hvaðan eiga skólarnir að fá þessa peninga? Nei, þetta er tillaga sem aðrir eiga að borga fyrir.
Mildaðar innheimtuaðgerðir: Íbúðalánasjóður getur lengt tímann fyrir þá sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum. - Enn og aftur er það tillaga ríkisstjórnarinnar að fólk greiði meira. Lengri tími þýðir hærri vaxtagreiðsla og þar með hærri heildargreiðsla. Ríkið ætlar ekki að greiða neitt í þessu. Ríkið ætlar ekki að taka ábyrgð á því að það leyfði verðbólgunni að æða upp úr öllu. Nei, hér eiga þeir sem geta ekki borgað bara að borga meira á lengri tíma.
Afborganir myntkörfulána frystar: Tilmælum beint til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti tímabundið vexti og afborganir af myntkörfulánum, þar til eðlileg virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. - Fín hugmynd sem virðist virka, en leiðir bankanna eru misjafnar. Þetta er bara ekki nóg. Hvað á að gera ef "eðlileg virkni gjaldeyrismarkaðar" verður með gengisvísitölu í kringum 240? Ég vona að tillögur um slíkt komi fljótlega.
Breytingar á lánum auðveldaðar: Fella tímabundið niður stimpilgjöld af skilmálabreytingum og skuldbreytingum. - Besta mál, en þarf ekki að breyta lögum? Það hefur ekki verið gert. Og aftur þýðir lengri lánstími hærri heildargreiðslu.
Lenging skuldbreytingalána: Nú verður hægt að skulda í 30 ár í stað 15 ára. - Er ekki allt í lagi? Hvað er skuldari bættur með að vera lengur í skuldafangelsinu? Og aftur lengri lánstími með hærri heildargreiðslu. Það þarf að létta skuldunum af fólki, ekki lengja í þeim.
Aukið námsframboð í háskólum og framhaldsskólum: Auka framboð hefðbundins náms og fjölga tækifærum til endurmenntunar. - Gott og blessað, en eru skólarnir tilbúnir að taka við 20 - 30 þúsund nýjum nemendum? Þeir gera það ekki nema með háum framlögum úr ríkissjóði. Er ríkið tilbúið að leggja þá peninga til? Svo er það hitt: Hvernig á fólk að framfleyta sér meðan það er í námi? Líklegast á að vísa fólki á LÍN, sem eykur á skuldirnar, sem eru nógar fyrir, og námlánin þarf að borga til baka.
Úrræði ríkisstjórnarinnar snúast um að lengja í lánum, bæta við lánum og fjölga þeim sem missa vinnuna. Þetta er víst finnska leiðin, þó ég eigi erfitt með að trúa því.
Hvernig væri að snúa þessu við og leggja alla þessa peninga, sem eiga að fara í atvinnuleysisbætur, lengingu lána Íbúðalánasjóðs, aukið námsframboð og aukningu námslána, í að halda fólki í vinnu. Það er eins og ríkisstjórnin gleymi því, að þess fleiri sem fara af vinnumarkaði, þess færri greiða skatta. Markmiðið á að vera að halda sem flestum á atvinnumarkaði, þannig að sem flestir taki þátt í að greiða fyrir samneysluna. Að sem flestir geti framfleytt sér á sjálfsaflafé í stað lána eða bóta. Námslán og atvinnuleysisbætur tryggja í besta falli lágmarksframfærslu og duga ekki fyrir húsnæðisláninu eða bílaláninu. Það fólk sem fer þessa leið og er með mikla greiðslubyrði fyrir mun bara sökkva dýpra. Þetta eru ekki úrræði sem bæta ástandið. Þetta eru úrræði sem viðhalda kreppunni. Eina leiðin til að sigrast á kreppunni er að auka þjóðarframleiðslu og það verður ekki gert nema fyrirtækjunum verði haldið gangandi og fólki í vinnu.
Ríkisstjórnin hefur núna nokkrar vikur til að hugsa þessar tillögur upp á nýtt áður en holskefla atvinnuleysis skellur á. Ég skora á menn að hugsa út fyrir þennan kassa félagslegra lausna og færa sig yfir í kassa atvinnusköpunar. Það er atvinnulífið sem er lífæð þjóðfélagsins. Sköpum því nýjan rekstrargrundvöll með því að breyta rekstrarumhverfi þess. Með því að létta undir með því. Förum ekki leið fjölda atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrða heimilanna.
Ef ríkisstjórnina vantar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu, þá vísa ég í færslu Kjartans Pétur Sigurðssonar HVERNIG MÁ STÓRAUKA VERÐMÆTI Í ÍSLENSKU HAGKERFI?, en hún er uppfull af góðum hugmyndum. Síðan skora ég á ríkisstjórnina að fá Róland R. Assier til að vera með fyrir ráðherra, þingmenn og aðstoðarmenn þeirra hraðkúrsinn um atvinnulífið, sem hann er með í Leiðsöguskólanum. Þar kemur margt fram sem fólk veit almennt ekki um. Atvinnulífið býður upp á svo mikið að það er synd að nýta það ekki.
Þessu til viðbótar eru fjölmörg verkefni sem setið hafa á hakanum vegna skorts á vinnuafli (og fjármagni), sem tilvalið væri að fara út í. Má þar bara nefna flokkun og frágangur skjala í Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnum, yfirfærsla sjúkragagna af pappírsskrám yfir á rafrænt form og endurbætur og viðhald á opinberu húsnæði. Ég get ekki skilið að það sé betri kostur að hafa fólk atvinnulaust en að veita því vinnu. Ég neita að trúa því.
Nú gagnvart áhvílandi lánum, þá á ríkisstjórnin að leita leiða til að gera fólki kleift að greiða af lánum sínum. Það má gera á ýmsa vegu. Ég hef áður bent á að taka hluta lánanna til hliðar og leggja á afskriftarreikning sbr. færslan mín Hinn almenni borgari á að blæða. Önnur leið er að hækka vaxtabætur verulega og greiða þær út mánaðarlega. Það þýðir ekki að segja að þetta kosti of mikið, þar sem allt kostar mikið, og fátt kostar meira fyrir almenning en að missa húsnæðið sitt. Málið er líka, að ef tekið er á hlutunum að festu og með hraði, þá verður hægt að draga verulega úr kostnaðinum. Því lengri tími sem líður, þess hærri kostnaður fyrir alla.
Ég skora á ríkisstjórnina að víkja af þeirri leið sem hún stefnir inn á. Tryggið fólki atvinnu sem veitir því sjálfsaflafé. Gangið strax í að létta greiðslubyrði fólks til langframa. Og gleymið aldrei, að það var á ykkar vakt sem allt fór til andskotans og þið skuldið því fólkinu í landinu uppbyggjandi aðgerðir í stað áframhaldandi niðurrifs. Ef þið ráðið ekki við verkið, þá er fullt af góðu fólki sem er til í að bretta upp ermarnar og leggjast á árarnar með ykkur.