Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.10.2008.
Út um alla Evrópu má sjá það sama: Hækkun skuldatryggingarálags og lækkun lánshæfismats. Þetta tvennt helst í hendur eins og síamstvíburar og geta ekki annað, þar sem hvort um sig beitir hinu sem rökstuðningi. Skiptir engu máli, þó sérfræðingar og seðlabankar um allan heim séu sammála að markaðurinn fyrir skuldatryggingarálag sé kominn út fyrir allan þjófabálk menn halda vitleysunni áfram. Hækkandi álag hefur sjálfkrafa í för með sér lakari aðgang að lánsfé og lakari aðgangi að lánsfé fylgir lægra lánshæfismat. Á sama hátt þýðir lægra lánshæfismat lakari aðgangur að lánsfé sem leiðir af sér hærra skuldatryggingarálag. Fyrirtæki og lönd sem lenda í þessum vítahring eiga sér ekki leið út.
Ísland og íslensku bankarnir festust í þessum vítahring fyrir um ári. Hann vatt smátt og smátt upp á sig, sem varð til þess að lánalínur lokuðust samhliða hækkun álags og lækkun lánshæfismats. Færa má fyrir því góð og gild rök að þetta hafi spilað stærstan þátt í hruni bankakerfisins hér á landi. Þessi tveir þættir hafi hægt og rólega þrengt svo að íslenska bankakerfinu, að því hafi að lokum verið allar bjargir bannaðar. Steininn hafi síðan tekið úr, þegar ríkið ákvað að taka yfir Glitni, en þá hækkaði skuldatryggingarálagið upp í 5.000 - 5.500 stig og lánshæfismat var fellt verulega. Ástæðan sem gefin var, var að ríkið hefði ekki getu til að bjarga bönkunum(!) einmitt þegar ríkið/Seðlabankinn hafði verið að bjarga Glitni og það án þess að taka lán. Þetta er svo mikið bull að það er grátlegt að horfa upp á þetta. Þarna rugluðust matsfyrirtækin einfaldlega á orsök og afleiðingu. Spurningin sem þau gleymdu greinilega að spyrja var: Hvenær varð staða Glitnis þannig að bankinn gat misst lánalínu með stuttum fyrirvara? Vorum við búin að innifela það í matinu? Og, ef ekki, hvers vegna var það ekki innifalið í matinu?
(Annars pæli ég betur í samspili orsakar og afleiðingar í annarri færslu sem birtist síðar í dag.)