Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.11.2008.
Það var hringt í mig á miðvikudaginn frá DV og ég beðinn um að taka þátt í léttu gríni. Að vera forsætisráðherra í slembuvalinni ríkisstjórn alþýðunnar. Ég hugsaði mig aðeins um, enda gætu einhverjir litið svo á, að það rigndi upp í nefið á þeim sem tæki þátt í slíku, en ákvað svo að slá til.
Mér voru sendar nokkrar spurningar með tölvupósti og svaraði ég þeim eins og ábyrgur forsætisráðherra. Niðurstöðuna er að finna í helgarblaði DV, sem kom út í gær. Ég tók eftir því við yfirlestur svara minna, að þar er ein villa: Buiter sem ég vísa til er William H. Buiter en ekki Walter Buiter.
Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að DV, þá eru spurningarnar og svör mín hér fyrir neðan. Ég set þau fram eins og ég sé sá sem valdið hefur. En hafa skal í huga, að allt er þetta í gríni gert, þó tilefnið sé vissulega alvarlegt.
1. Hvort ræður Seðlabankinn eða ríkisstjórnin?
Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að stjórna landinu. Ríkisstjórnin markar stefnu í efnhagsmálum og setur bæður bönkum og Seðlabanka lög og reglur sem eiga að tryggja efnahagsstöðuleika í landinu. Þetta regluverk á að verja hagsmuni almennings ofar öllu og þarf því að breyta því verulega í ljósi reynslunnar.
a. Viltu reka Seðlabankastjórnina? Ef já: Af hverju?
Í ljósi þess að Seðlabankanum hefur hvorki tekist að tryggja stöðugleika verðlags eða í gengi krónunnar, þá hef ég ákveðið að víkja stjórn og bankastjórum Seðlabankans. Nýr yfirbankastjóra hefur verið ráðinn til starfa. Mun hann vinna til að byrja með, með núverandi bankastjórn á meðan mesta neyðarástandið varir, en tekur svo alveg yfir 1. janúar 2009. Til starfans var ráðinn fyrirverandi bankastjóri Bank of England og honum til aðstoðar hafa verið ráðnir nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman, William H. Buiter og Þórður Friðjónsson.
b. Hvernig bera ráðherrar ábyrgð?
Frumskylda hverrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og halda uppi háu atvinnustigi. Bregðist hún slíkri skyldu, þá á hún að víkja. Hafi einstakir ráðherrar ekki staðið sig, ber þeim að stíga til hliðar. Í ljósi atburða síðustu vikna verða boðað til alþingiskosninga og mun þær fara fram laugardaginn 1. mars 2009. Í millitíðinni verður skipuð utanþingsstjórn og hef ég farið þess á leit við rektor Háskóla Íslands að finna hæfa einstaklinga úr háskólasamfélaginu og atvinnulífinu til að sitja í þeirri stjórn.
2. Telur þú tímabært að sækja um aðild að ESB?
Aðild að ESB verður að vera á okkar forsendum og má alls ekki vera sem neyðarúrræði. Það er þó rétt að óska strax eftir slíkum viðræðum, þó svo að viðræðurnar sjálfar hefjist ekki fyrr en hægir um í þjóðfélaginu.
3. Hvort myndir þú, sem ráðherra efnahagsmála, vilja byggja upp krónuna eða taka upp annan gjaldmiðil?
Krónan hefur runnið sitt skeið sem sjálfstæð mynt. Það er nauðsynlegt að skoða kosti tengingar hennar við aðra gjaldmiðla eða upptöku annars gjaldmiðils, en ákvörðun um slíkt má ekki taka án undangenginnar greiningar á hvað telst best. Þessa vinnu þarf að setja strax í gang og kalla til færustu sérfræðinga, en stjórnvöld taka síðan ákvörðunina, ekki sérfræðingarnir.
4. Ætlarðu að láta Breta komast upp með að sverta ímynd Íslands með hryðjuverkalögum?
Það sem Breta gerðu var ófyrirgefanlegt og við munum sækja fast að þeir bæti okkur upp tjóni okkar. Til að sýna hver alvarlegum augum við lítum málið, hefur sendiherra okkar í Bretlandi verið kallaður heim til skrafs og ráðagerða.
5. Treystirðu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir hagsmunum Íslendinga?
Aðkoma IMF er og verður alltaf á okkar forsendum og með það að markmiði að halda atvinnulífinu gangandi. Komi í ljós að skilyrði IMF eru þannig að hér stefni í mikið atvinnuleysi, þá er það ekki ásættanlegt. Fyrr munum við aðstoða fyrirtæki með launagreiðslur en að hér fyllist allt af fólki sem mælir göturnar.