Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.11.2008.
Ofsóknaræðið er orðið svo mikið í þjóðfélaginu að menn sjá skrattann í öllum hornum. Fólk skýtur út í loftið án þess að vita af hverju eða á hvern, vegna þess að það er hrætt og reitt. Upplýsingaflæðið frá stjórnvöldum er í dropatali, þegar það á að vera stöðugt flæði, eins og í fallegri á og eykur það frekar á fárið. Þeir sem eiga að vera í því leiðrétta söguburð eða staðfesta fréttir, eru ekki að sinna hlutverki sínu. Fólk smjattar á fáránlegum orðrómi, eins og um heilagan sannleika sé að ræða. Ekki misskilja mig. Ég vil sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, eins og frasinn er frá Ameríku. Ég vil að okkur sé treyst fyrir upplýsingum, en ekki haldið frá okkur, því það gefur sögusögunum undir fótinn.
Hægt er að telja upp ótal "fréttir" á blogg-síðum, spjallrásum og vefsíðum, þar sem lekið er "staðreyndum" sem eiga svo ekki við rök að styðjast eða eru færðar verulega í stílinn. Síðan fer í gang umræða, þar sem skórinn er níddur af nafngreindum einstaklingum, sem hafa ekkert gert sér til sakar annað en að hafa lent í hamfaraflóðinu með okkur hinum. Nafnabirtingar á einhverjum undirsátum í bankakerfinu eru gjörsamlega út í hött. Fæst af því fólki, sem stjórn Kaupþings ákvað að losa undan persónulegum ábyrgðum, bað um það eða kom á nokkurn hátt nálægt þeirri ákvörðun. Það var bara haft með.
Við verðum að fara að passa okkur á því hvað við segjum. Ég er alls ekki að biðja fólk um að vera meðvirkt. Það er eins fjarri mér og hugsast getur. En það segir einhvers staðar: Við eigum að hugsa allt sem við segjum og ekki segja allt sem við hugsum.
Ég hitti mann í gær, sem er þekkt nafn í atvinnulífinu. Hann sagði mér, að erlendir fjölmiðlar hefðu hringt talsvert í hann, en hann hafi ákveðið að ræða ekki við þá. Ástæðan væri, að hann væri svo reiður að það sem hann segði yrði líklegast út í hött. Hans fyrirtæki sér fram á að fara úr nokkur hundruð starfsmönnum niður í 30 á næstu mánuðum! Hann hefur því fullan rétt á því að vera reiður, en hann vill ekki tjá sig við erlenda miðla, vegna þess að hann er hræddur um að segja eitthvað sem hann sér eftir síðar. Ég held að margir gætu tekið þennan mann sér til fyrirmyndar.
Það sem við þurfum núna eru lausnir. Við þurfum að leggjast á skóflurnar og grafa okkur út úr skaflinum. Við getum ekki beðið eftir því að það hætti að snjóa og byrjað að moka þá. Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að skilja ástandið. Við þurfum að hjálpa hvert öðru og hvetja til dáða. Við eigum að nota reiði okkar til að vinna okkur út úr vandanum, en ekki grafa okkur dýpra niður. Það eiga eftir að koma upp fáránlega vitlaus mál, sem ofgera siðferðisvitund okkar, en höldum haus. Sýnum öðrum virðingu. Munum að gullna reglan er:
Það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, skulið þér og þeim gjöra.
Hún er ekki:
Það sem mennirnir gjörðu yður, skulið þér og þeim gjöra.
Við skulum muna að allt sem við setjum niður hér á internetinu verður á netinu um aldur og ævi.
Hvað svo sem gerist, pössum okkur á því að missa ekki okkar eigin virðingu. Styrkjum siðferðisvitund okkar, en veikjum hana ekki. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.