Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.12.2008.
Mér brá nokkuð, þegar ég heyrði forsætisráðherrann, Geir H. Haarde, lýsa því yfir við fréttamann RÚV að hækkun opinberra gjalda á bensín og áfengi hefði ekki í för með sér hækkun á verðbólgu. Hvernig getur hagfræðimenntaður maður sagt að hækkun á álögum og þar með útsöluverði valdi ekki meiri verðbólgu? Það skiptir engu máli hvort verið er að "vinna upp" verðbólgu ársins eða ekki, hærra verð á áfengi og eldsneyti fer beint út í verðlagið og þar með mælist það í hækkun á vísitölu neysluverðs (eða minni lækkun, ef verðhjöðnun er í gangi). Ingibjörg Sólrún viðurkenndi þó þessa staðreynd.
Annars hefur líka verið merkilegt að hlusta á ráðherra ríkisstjórnarinnar kenna AGS um niðurskurð útgjalda og hækkun skatta. Það er eins og Ísland hafi ekki haft neina samningsstöðu í málinu. Svo má líka rifja upp, að þetta sama fólk hefur haldið því fram að ekki eigi að hrófla við ýmsum þeim þáttum sem nú eru skornir niður. Það er nákvæmlega ekkert að marka orð þeirra lengur.
Og eitt í lokin. Valgerður Sverrisdóttir benti á í viðtali við fréttamann í gær, að lækkunin vegna útgjalda utanríkisráðuneytisins samkvæmt breyttu fjárlagafrumvarpi, séu ekki í raun lækkun heldur sé verið að taka til baka tillögur til hækkunar á útgjöldum. Þetta er því bara talnaleikur, en ekki raunveruleg lækkun. Þetta minnir mig á það þegar tekjuskattsprósentan var hækkuð, þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra. Þá hafði kvisast út að tekjuskattsprósentan myndi hækka um 6%, en Ólafur bar það til baka. Það ætti bara að hækka hana um 3,5%!