Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.12.2008.
Það fer ekkert á milli mála að tilkoma Bónusar var gott mál fyrir íslenska neytendur. Hér breyttist verðmyndun á dagvörumarkaði og vöruverð lækkaði til muna. Málið er að það var fyrir langa löngu. Og það var áður en Bónus varð hluti af Baugi. Ég er ekki þar með að segja að Bónus hafi breyst í eitthvað skrímsli við sameininguna við Hagkaup, bara benda á að þá breyttist staða fyrirtækisins á samkeppnismarkaði. Bónus varð hluti af markaðsráðandi fyrirtæki á matvörumarkaði. Fyrirtæki sem hefði hvergi annars staðar fengið að vera til.
Ég er svo sem ekki í aðstöðu til að meta áhrif Haga á vöruverð í landinu í dag. Þar er örugglega margt jákvætt og annað neikvætt. Ég er samt ekki viss um að við vildum vera án verslana Haga af þeirri ástæðu að undir hatti Haga eru mörg ákaflega góð fyrirtæki sem stuðlað hafa að fjölbreytni í verslun og tiltölulega hagstæðu vöruverði. Ég hef svo sem ekki alltaf verið sammála aðferðum fyrirtækisins við að færa út kvíarnar, en það er kannski þess vegna sem þeir eru stórir en ég er sjálfstætt starfandi í harkinu. Business er harður heimur og þeir feðgar, Jóhannes og Jón Ásgeir, hafa náð langt vegna þess að þeir hafa bein í nefinu, ekki vegna þess að þeir séu í góðgerðarmálum.
Þetta mál snýst bara ekkert um það. Þetta mál snýst um að notaðar voru ósiðlegar aðferðir til að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili, Krónan, gæti aukið markaðshlutdeild. Það er enginn að andmæla því að Bónus mátti bregðast við. Þeir notuðu bara aðferðir, sem að mati samkeppnisyfirvalda, voru ólöglegar. Samkeppnisyfirvöld hafa ekkert leyfi til að milda afstöðu sína vegna áhrifa verslana Haga til hugsanlegrar lækkunar verðlags. Það er þessu óskylt. Góðverk í gær gefur mönnum ekki leyfi til lögbrota í dag. Um það snýst málið og ekkert annað.
Ég tek það fram, að ég er þakklátur þeim Baugsmönnum fyrir margt sem þeir hafa gert. Á sama hátt er ósáttur við annað. Þeir eru í andstreymi núna út af falli bankanna og Monopoly leiknum sem þeir hafa tekið þátt í undanfarin ár með íslenskt efnahagslíf. Því miður virðist sem þeir hafi lent í því sama og fyrri valdastéttir þjóðarinnar, þ.e. að kunna sér ekki hóf, að vita ekki hvenær á að stoppa. Við erum að bíta úr nálinni með það núna og því er taktískt rangt hjá þeim að koma með mótbárur í þessu máli. Það besta sem þeir gera í þessu máli er að viðurkenna mistökin og læra af þeim. Það vissi það hvert einasta mannsbarn á Íslandi, að aðferðir þeirra í verðstríðinu við Krónuna stönguðust á við gott viðskiptasiðferði og gátu ekki staðist. Nú hafa samkeppnisyfirvöld staðfest það. Af hverju getur Jóhannes ekki bara kyngt þeirri staðreynd?
Ég viðurkenni alveg að sektin er há, en það er eðli sekta við samkeppnisbrotum. Bónus vissi alveg, að verslunin mátti ekki bregðast við samkeppninni frá Krónunni með því að borga með vörunni. Það eru skýr ákvæði um það í samkeppnislögum. Ef Bónus hefur talið, að Hagar væri ekki markaðsráðandi aðili, þá voru menn í afneitun. Víða í heiminum eru fyrirtæki með 30% markaðsstöðu talin markaðsráðandi, ef enginn annar aðili er stærri. Markaðshlutdeild Haga á matvörumarkaði var á þessum tíma 60% á höfuðborgarsvæðinu. Á lágvörumarkaði var Bónus nær einrátt. Það er sama hvernig litið er á þetta: Bónus var markaðsráðandi. Sú staðreynd setur fyrirtækinu alls konar hömlur, eins og Síminn hefur margoft rekið sig á. Menn höfðu dæmin fyrir framan sig, en héldu samt sínu striki. Nú er komið að skuldadögum.
Það hefur komið fram að tap Bónusar á verðstríðinu hafi verið um 700 milljónir. Spurningin sem þarf að svara er hver var hagur Bónusar á verðstríðinu? Hve mikið tókst Bónus að takmarka aukningu á markaðshlutdeild Krónunnar með viðbrögðum sínum við markaðsátaki Krónunnar? Hve vel heppnaðist Bónus að verja verðið á vöru sinni með hinum grimmu viðbrögðum við markaðsátaki Krónunnar? Ég hef ekki lesið skýrslu Samkeppniseftirlitsins, þannig að ég veit ekki hvort lagt er mat á þessi atriði, en það er eðlilegt að sektin sé eitthvað margfeldi af þessu. Það er nefnilega hagur Bónusar af viðbrögðunum sem skipta máli, ekki hvað Bónus hefur gert fyrir neytendur í gegnum tíðina.
Ég vil hvetja forráðamenn Haga til að halda áfram að stuðla að lágu vöruverði. Samkeppniseftirlitið hefur ákvarðað að þið skiptið meira máli fyrir íslenska neytendur en flest önnur íslensk fyrirtæki á sama markaði. Takið því sem hrósi, en lærið í leiðinni af mistökunum.