Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.12.2008.

Núverandi staða í þjóðfélaginu hefur kallað á mikla gagnrýni á notkun verðtryggingar.  Lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála, o.fl. voru samþykkt frá Alþingi 7. apríl 1979 og tóku gildi þremur dögum síðar, 10. apríl 1979.  Í VII. kafla laganna eru ákvæði um verðtryggingu sparisjár og lánsfjár.  Þessi lög ganga almennt undir nafninu Ólafslög í höfuðið á Ólafi Jóhannessyni, þáverandi forsætisráðherra.

Óhætt er að segja, að þessi lög hafa haft meiri áhrif á meðhöndlun fjárskuldbindinga á Íslandi undanfarna tæpa þrjá áratugi, en nokkur önnur lög samþykkt á Alþingi fyrr eða síðar.  Nokkrum sinnum hefur komið upp sú umræða að fella niður ákvæði lagana um heimild til að verðtryggja lánsfé, en því hefur jafnan verið hafnað sem algerri fásinnu.  Landsamband lífeyrissjóða fékk Tryggva Herbertsson til að taka saman greinargerð um þetta og skilaði hann henni í nóvember 2004 (sjá Áhrif afnáms verðtryggingar á íslensku lífeyrissjóðina).  Greinargerðin fjallar nær eingöngu um hverjir hagnast og hverjir tapa á afnámi verðtryggingar frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna sem lánardrottna og skuldunauta, þ.e. þeirra sem taka lán hjá lífeyrissjóðunum.  Kemst hann ekki að neinni einhlítri niðurstöðu varðandi það.  Varla er hægt að segja að hann eyði miklu púðri í áhrif afnáms verðtryggingar á skuldbindingar sjóðanna, en það er dekkað með eftirfarandi texta:

Afnám verðtryggingar gæti þannig aukið óvissu lífeyrisþega hvað varðar kaupmátt lífeyris. Skuldbindingar sjóðanna eru þannig verðtryggðar og ef tryggingin yrði afnumin eignamegin er ljóst að hætta gæti skapast á misgengi milli eigna og skuldbindinga.

Í lokaorðum greinargerðarinnar segir Tryggvi:

Hér að framan hefur verið sýnt fram á að ekki er einhlítt hverjir hagnast og hverjir tapa á verðtryggingu. Við mikinn óstöðugleika í efnahagslífinu og tíð óvænt verðbólguskot er líklegra að skuldunautar hagnist á því að verðtrygging sé afnumin en að þeir tapi aftur á móti ef stöðugleiki og jöfn verðbólga ríkja. Ekki er ljóst hvað kæmi í stað verðtryggingar sem grunnur að vöxtum á langtímalánum ef vísitölutenging yrði afnumin en rétt er þó að benda á að afnám verðtrygginga á fjárskuldbindingar myndi taka nokkra áratugi í framkvæmd því ekki er hægt að breyta gerðum lánasamningum auk þess sem misgengi gæti skapast á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóðanna. Jafnframt er líklegt að ekki yrði hægt að fá lán til jafn langs tíma og nú er.

Það er sem sagt fernt sem Tryggvi telur vinna gegn því að afnema verðtrygginguna:

  1. Óvissan um hvað tekur við

  2. Tímann sem það tæki að afnema hana þar sem ekki væri hægt að breyta gerðum lánasamningum

  3. Misgengi á milli eigna og skuldbindinga

  4. Ekki verður hægt að fá lán til langs tíma.

Skoðum þessi fjögur atriði.  Ég ætla að byrja á atriði nr. 2, en það á við mun fleiri aðila en bara lífeyrissjóðina:  Við höfum séð það á síðustu vikum að ýmislegt er hægt að gera í nafni laga, sérstaklega ef þau hafa forskeytið neyðar-.  Enda er sagt að neyð brjóti lög og nú held ég að komið sé að þeim tímapunkti.  Heimilin og fyrirtækin í landinu eru að kikna undan óhóflegri vaxtabyrði, hvort heldur í formi nafnvaxta eða verðtryggingar. Vakin hefur verið athygli á því að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verji eigendur verðtryggðra lánasamninga og er það fullgild ábending.  Því er nauðsynlegt að eitthvað komi í stað verðtryggingarinnar eða að henni verði takmörk sett.  Ég vill benda enn og einu sinni á leiðir, sem ég tel að geti verið færar.  Önnur er að setja þak á verðtrygginguna, þannig að fari verðbólga yfir segjum 6%, þá fær eigandi lánasamningsins verðbólguna ekki bætta umfram þessi 6%.  Þessa tölu mætti alveg eins festa við efri vikmök Seðlabankans.  Þá mætti hreinlega skipta verðtryggingunni út fyrir fasta vaxtatölu, t.d. efri vikmörkin, þ.e. 4%.  Sjálfum lýst mér betur á fyrri leiðina, þ.e. að halda verðtryggingunni til að byrja með, en setja henni takmörk. Samhliða því verði bannað að gera nýja verðtryggðasamninga og þeim sem fyrir eru verði smátt og smátt breytt.

Misgengið: Það er vissulega satt að hátt í 50% af útlánum lífeyrissjóðanna er í formi verðtryggðra útlána og meðan lífeyririnn er verðtryggður, þ.e. eftir að taka lífeyris er hafin, þá taka verðtryggingarákvæði gildi.  Undanfarin ár hefur ávöxtun lífeyrissjóðanna flestra verið vel yfir verðbólgu.  Undantekning er síðasta ár og síðan mun þetta ár fara illa út.  En hvað er það sem hefur skapað þessa ávöxtun?  Jú, óverðtryggði hluti ávöxtunarinnar.  Við getum ekki horft til áranna fyrir 1979 og sagt að staða lífeyrissjóðanna verði með þeim hætti innan nokkurra ára, ef verðtryggingin verður afnumin.  Þó svo að nú hafi komið slæmur skellur, þá hefur hann ekki áhrif í þessu samhengi.  Ástæðan er að skellurinn er að mestu að koma á óverðtryggða hluta eignasafns sjóðanna í formi mikillar lækkunar á hlutabréfaeign sjóðanna. Vissulega skerðist eign sjóðanna líka vegna verðtryggðra skuldabréfa, en sú skerðing er alveg óháð verðtryggingunni.  Hún hefur fyrst og fremst með fjárfestingastefnu sjóðanna að gera.  Við megum heldur ekki líta framhjá því, að sjóðirnir hafa hagnast gríðarlega á undanförnum árum á hlutabréfaeign sinni.  Sumir hafa náð að innleysa þann hagnað með sölu bréfanna, en aðrir sitja uppi með nánast verðlausa hluti.

Óvissan um hvað tekur við:  Ljóst er að breytilegir óverðtryggðir vextir er það sem kemur í staðinn. Það er engin lausn að bjóða fólki upp á óverðtryggð lán með himinháum breytilegum vöxtum.  Þá er verr af stað farið en heima setið.  Koma yrði í veg fyrir slíkt.  Í Danmörku eru reglur (ég veit ekki hvort það er bundið í lög) þar sem hámark er á þeim vöxtum sem taka má.  Sé verðbólga yfir þessum vöxtum, þá ber lánastofnunin það.  Mér finnst athugandi að koma á slíku kerfi.  Hverjir þeir hámarksvextir ættu að vera, veit ég ekki, en tryggja yrði að lánastofnunin héldi ekki vöxtunum stöðugum í þessum efri mörkum.

Ekki hægt að fá láns til langs tíma:  Það er mín skoðun, að verðtryggingin hafi frekar aukið á óstöðugleikann, en dregið úr honum.  Allar sveiflur í hagkerfinu verða ýktari og það tekur lengri tíma að jafna þær út.  Aðeins örfá lönd í heiminum hafa notast við verðtryggingu.  Önnur hafa komist alveg bærilega af án hennar.  Í þeim löndum hefur verið hægt að fá lán til langs tíma á lágum vöxtum.  Raunar hafa þeir, sem fjárfesta til langs tíma, frekar viljað skuldabréf með lágum vöxtum og veði í íbúðarhúsnæði, en bréf á hærri vöxtum sem bera meiri áhættu.  Síðan er spurning hvort hreinlega eigi ekki að banna lán til lengri tíma en 25 ára.  Afborgunarbyrði 10 milljón króna láns til 25 ára er kr. 33.333 á mánuði, en sé það til 40 ára er afborgunarbyrðin kr. 20.833.  Hér er munur upp á 12.500 kr.  Fyrsta afborgun 25 ára lánsins er ríflega 116 þúsund kr. meðan borga þarf 104 þúsund af 40 ára láninu. Eftir 10 ár eru greiðslurnar orðnar þær sömu, þ.e. um 83.000 kr. og eftir það er afborgun með vöxtum lægri á mánuði af 25 ára láninu.

Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá sérstaklega áhrifin af falli bankanna, sýnir að ekkert kerfi er óskeikult.  Verðtryggðareignir eru ekkert öruggari, en óverðtryggðar.  Á næstu mánuðum munu lífeyrissjóðirnir fara í gegnum tryggingafræðilega endurskoðun.  Búast má við því að niðurstaða þeirrar endurskoðunar verði skerðing á lífeyrisréttindum sem nemur á bilinu 5 - 15% eftir sjóðum.  Í sumum tilfellum verður þetta afturhvarf til réttinda sem áður höfðu verið uppfærð, þannig að ekki er um eiginlega skerðingu að ræða.  Í öðrum tilfellum verður skerðingin raunveruleg. 

Með skynsamlegri fjárfestingastefnu, þá munu allir lífeyrissjóðirnir vinna upp töp sín á innan við 10 árum.  Það gera þeir með því að halda hlutabréfum sínum og bíða eftir að þau hækki, að kaupa ný hlutabréf sem síðar hækka o.s.frv.  Í einhverjum tilfellum mun tapið leiða til frekari sameiningar sjóðanna.

Verðtryggingin snertir fleiri en lífeyrissjóðina.  Innlánseigendur eru með háar upphæðir á verðtryggðum reikningum.  Það er í sjálfu sér ekkert sem mun geta bannað innlánsstofnun að bjóða verðtryggða reikninga, en mér finnst sjálfsagt að um slíka reikninga gildi sömu reglur og um verðtryggð lán.  Sett verði þak á hve háir vextir geta verið.  Varðandi verðtryggð útlán annarra en lífeyrissjóða, þá gilda alveg sömu rök.  Verðtrygging verði annað hvort bönnuð eða henni settar skorður.

Svo ég svari spurningunni, sem ég set fram í fyrirsögninni, þá er svarið játandi.  Það er raunhæft að afnema verðtryggingu eða setja henni skorður með einu pennastriki.  Það sem meira er, það er heilmikil skynsemi í því.  Þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði, að lítið réttlæti er í því að lán séu verðtryggð meðan tekjur eru það ekki.  Auk þess virðist allt benda til þess að líf íslensku krónunnar sé á enda.  Hún á kannski nokkur ár eftir, nema eitthvað kraftaverk gerist.  Hvort sem tekin verður upp evra, norsk króna, pund, svissneskir franka, bandarískir dalir eða kanadískir, þá munum við aldrei flytja verðtryggingarkerfið okkar yfir í nýja mynt.  Seðlabanki viðkomandi ríkis/Evrópu myndi aldrei samþykja slíkt.  Bara út frá þessari ástæðu einni, á verðtryggingin ekki rétt á sér og óhjákvæmilegt er að hún verði lögð niður sem fyrst.  Núna er tækifærið og það á að grípa.