Hvar setjum við varnarlínuna?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.11.2008.

Skyndilega er afrakstur vinnu ríkisstjórnarinnar síðustu vikurnar að koma fram.  Ekki get ég sagt að ég sé sáttur við allt sem þar kemur fram, en annað er gott.  Mér finnst eins og í sumum þáttum sé ekki alveg ljóst hvar menn ætli að staðsetja varnarlínuna eða að hún sé staðsett of aftarlega.

Að undanförnu hefur oft verið vísað til þeirrar myndlíkingar, að íslenska hagkerfið hafi fengið 14-2 rassskellingu í fótboltaleik og nú sé verið að stilla upp liði fyrir næsta leik.  Mörgum finnst rétt að skipt verði um þjálfara, fyrirliða og einhverja liðsmenn.  Þessu hefur verið hafnað af ríkisstjórninni og því mun sama liði verða stillt upp í næsta leik.  Þar sem ég þekki nokkuð til leikfræði í fótbolta, þá langar mig að leggja til að ekki bara í næsta leik, heldur næstu leikjum, verði lögð höfuð áhersla á vörnina.  Það er nefnilega þannig, að fái maður ekki á sig mark, þá þarf aðeins að skora eitt til að vinna.

Hægt er að færa þessa myndlíkingu yfir á fjölmargt í íslensku þjóðfélagi.  En tvennt skiptir að mínu mati mestu máli.  Annað er að halda fyrirtækjum landsins gangandi og þar með varðveita störfin í landinu og hitt er að tryggja hag heimilanna.  Mér finnst ríkisstjórnin vera að ná einhverjum árangri varðandi hag heimilanna, en samt eru einhverjir boltar að leka inn.  Betur má ef duga skal.  Skoðum þó fyrst fyrirtækin, þar sem staða þeirra leggur grunninn að stöðu heimilanna.

Gagnvart fyrirtækjunum skiptir þrennt höfuð máli.  Fyrsta er að útvega fyrirtækjunum rekstrarfé, annað að tryggja þeim aðföng og það þriðja er að þau geti haldið fólki í vinnu.  Við skulum vona, að lán AGS hjálpi til við tvennt það fyrra, en viðbrögð stjórnvalda getur hjálpað til við það þriðja.  Hvert starf sem tapast þýðir að vinna verður upp eitt starf.  Þetta er eins og með mörkin.  Fyrir hvert mark sem lið fær á sig þarf það að skora eitt til að halda jöfnu.  Þar sem sóknarfæri eru fá í augnablikinu, þá segir skynsemin mér, að best sé að verja hvert einasta starf eins og kostur er.  Það á ekki að vera ásættanlegur kostur að störf glatist.  Þar vil ég setja varnarlínuna.

Margt vinnst með því að verja störfin.  Vinnandi fólk hefur atvinnutekjur, það greiðir skatta, það verður síður veikt, það missir síður trú á sjálfan sig, það heldur reisn sinni, það hefur tekjur til að framfleyta sér og sínum.  Vinnandi fólk hefur meiri möguleika á að standa í skilum við lánastofnanir og hefur almennt meira á milli handanna til að skapa veltu í þjóðfélaginu.  Fyrirtækin halda starfsmönnum í verðmætasköpun eða við að veita þjónustu.  Verðmæt þekking helst innan fyrirtækjanna og þar með viðskiptatengsl, en þau byggja mjög oft á persónulegum samskiptum.  Svo má ekki gleyma öllum afleiddu störfunum.  Fyrirtæki sem minnkar um 30%, þarf að öllum líkindum 30% minna af aðkeyptri þjónustu.  Mér finnst því nauðsynlegt að líta svo á að hvert einasta tapað starf feli í sér ósigur í baráttunni við kreppuna.  Hvert tapað starf felur í sér að við þurfum að vinna upp þetta starf annars staðar eða síðar.  Hvert tapað starf hefur í för með sér að nýr aðili bætist á atvinnuleysisskrá og á rétt á bótum frá ríkinu.  Hvert tapað starf eykur útgjöld ríkisins og minnkar tekjur í formi lægri skatta.  Hvert tapað starf gerir einni fjölskyldu í viðbót erfiðara um vik að ná endum saman.

Þá komum við að heimilunum.  Hagur heimilanna verður helst tryggður með því að verja innkomu þeirra.  Afkoma ræðst af tekjum og útgjöldum.  Ef tekjurnar skerðast, þá minnka líkurnar á því að þær dugi fyrir útgjöldum.  Lægri tekjur þýða minni velta í verslunum og meiri líkur á því að lán verði ekki greidd.

Talið er að undirmálslánakreppan í Bandaríkjunum hafi orðið jafn djúp og raun ber vitni, vegna þess að lántakendur gengu þvert á viðteknar venjur.  Menn hafa alltaf gengið út frá því að hvað sem á gengi, þá greiddi fólk af íbúðarlánunum sínum.  Þetta brást og þar með hrundi spilaborgin.  Grunnforsenda lánanna, að íbúðarlán yrðu alltaf í forgangi, gekk ekki eftir.  Hætta er á að þetta endurtaki sig hér á landi.  Það gerir það örugglega, ef fólk þarf að velja á milli þess að eiga fyrir mat eða greiða af ÍLS láni.  Þess vegna verður að koma í veg fyrir að innkoma heimilanna skerðist of mikið. 

Búið er að grípa til aðgerða sem lækkar greiðslubyrði lána til skamms tíma, en slík aðgerð má síns lítið, ef tekjustreymið dregst saman.  Af þeim sökum þarf að gera allt til að viðhalda tekjustreyminu.  Besta leiðin til þess er að verja störf fólksins.  Því segi ég enn og aftur, setjum varnarlínuna við að halda í störfin með öllum tiltækum ráðum.  Ég geri mér grein fyrir að við björgum ekki öllum störfum, en fyrir hvert starf sem bjargast er einu færra að vinna upp.

Svona í lokin, þá lýst mér vel á tillögur Skógræktarinnar um atvinnusköpun.  Ég hef bent á að ráðast megi á skjalastafla Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna.  Einnig mætti snúa sér að því að laga aðstöðu á ferðamannastöðum, en hún er víða fyrir neðan allar hellur.  Síðan vil ég einu sinni sem oftar minna á síðu Kjartans Péturs Sigurðssonar, ljósmyndara og leiðsögumanns, photo.blog.is, þar sem Kjartan veltir fyrir sér hvernig stórauka megi verðmætasköpun í landinu.  Hvet ég alla sem ekki hafa kynnt sér efni síðunnar að skoða hana.