Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.11.2008.
Mér þykir ástandið í þjóðfélaginu alveg nógu klikkað og alvarlegt, þó svo að fjölmiðlar snúi ekki út úr upplýsingum á þann hátt sem hér um ræðir. Fyrirsögnin "Útlánin jukust um 3.500 milljarða á einu ári" er villandi, ef ekki beinlínis röng.
Það er rétt að andvirði útlánasafns bankanna hækkaði um 3.500 milljarða miðað við þær upplýsingar sem koma fram í fréttinni. Þegar betur er að gáð (og Morgunblaðið greinir skilvíslega frá), þá er ástæða fyrir 2.200 milljörðum breytingar á gengi krónunnar og verðbólga. Höfuðstóll fyrirliggjandi lána hækkaði af þessum sökum, en ekki er fyrir nýjum útlánum að fara. Útlánin jukust ekki, heldur varð breyting á höfuðstóli. Útlán aukast ekki nema nýtt lán sé veitt eða eldra láni er skuldbreytt til hækkunar.
Til þess að svona samanburður sé marktækur, þá verður að gera hann á föstu gengi og á fastri vísitölu. Morgunblaðið reynir það að hluta og segir að þegar tekið hefur verið tillit til gengisbreytinga, þá sé raunhækkun 1.300 milljarðar króna. Hér er aftur fetað út á hálan ís. Er verið að tala um raunhækkun út frá nýjum lánum, sem ekki voru áður til staðar eða raunhækkun sem hækkun umfram það sem hægt er að skýra út frá gengisþróun? Í okkar verðbólguþjóðfélagi, þá er hugtakið raunhækkun notað um hækkun umfram verðbólgu. Verðbólga var nálægt 15% frá miðju ári 2007 fram á mitt ár 2008 (ágúst til ágúst). Nú er bara spurningin hvað stór hluti þessara 1.300 milljarða er umfram verðbólguhækkun útlánasafnsins.
Niðurstaða mín er að Morgunblaðið setur fram í þessum stutta stúf á mbl.is tvær villandi, ef ekki rangar staðhæfingar. Hin fyrri, sem síðan er leiðrétt í fréttinni, er að útlánin hafi aukist um 3.500 milljarða. Sú síðari er að raunhækkun hafi verið um 1.300 milljarða. Hvorugt stenst skoðun.
Síðan skil ég ekki hvers vegna eftirfarandi setningu er skotið inn í frétt mbl.is:
Á tímabilinu var mikil lausafjárkreppa í heiminum og margar lánalínur bankanna höfðu þegar lokast.
Er þarna verið að skýra hækkun andvirði útlánasafnanna eða er verið að skýra út af hverju þau hækkuðu ekki meira?