Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.11.2008.
Hún er alveg furðulegur þessi söguskýring forsætisráðherra, að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar sé íslenskum bankamönnum einum að kenna. Efnahagsvandi þjóðarinnar er einnig stöðu krónunnar og háu stýrivaxtarstigi að kenna. Nýlega sett gjaldeyrishöft koma t.d. íslenskum bankamönnum lítið við. Háir stýrivextir og sterk króna drógu hingað til lands erlenda fjárfesta sem efndu til vaxtaskiptasamninga. Alls flæddu hátt í 1.000 milljarðar inn í hagkerfið vegna þessa í formi jöklabréfa og kaupa á ríkisskuldabréfum. Hvernig ætlar Geir að klína þessu öllu á íslenska bankamenn, nema hann sé náttúrulega að tala um seðlabankamenn líka? Seðlabankinn opnaði fyrir þetta innflæði með peningamálastefnu sinni.
Vandi almennings í dag er ekki fall bankanna. Vandi almennings er fall krónunnar og háir vextir. Þessi vandi er búinn að vera viðvarandi allt þetta ár og raunar mun lengur. Stýrivaxtastefna Seðlabankans hefur alltaf gengið út á að viðhalda vaxtamun milli Íslands og annarra landa. Menn hafa verið að rembast eins og rjúpan við staur að halda stýrivöxtum háum, þegar stærsti hluti vaxta í landinu er óháður stýrivöxtum. Það er þessi stefna og verðtryggingarkerfið sem er allt lifandi að drepa. Fall bankanna er fyrst og fremst að bitna á fjármagnseigendum, sem hingað til hafa verið varðir með belti og axlaböndum. Vandi almennings er hækkun skulda vegna hárra vaxta og falls krónunnar. Vissulega eru þeir sem áttu pening í banka að tapa miklu, en það erum við líka að gera sem eigum peningana okkar í steinsteypu. Hver er munurinn að tapa 10 milljónum á sparireikningi í banka og tapa 10 milljónum af eigin fé í fasteign vegna hækkandi lána eða lækkandi fasteignaverðs? Ég sé ekki muninn. En það þykir sjálfsagt að leggja 200 milljarða í peningasjóði bankanna og innistæður í bönkum. Hvar eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja eigið fé almennings í húsnæði þess? Og hvað með lífeyrissparnað, að maður tali nú ekki um séreignalífeyrir? Viðskiptaráðherra lofaði því á sínum tíma að lífeyrissparnaður landsmanna verði varinn. En þetta er bara eins og með loforð hans um að enginn bankamaður myndi missa vinnuna. Hann lofar upp í ermina á sér við öll tækifæri.
Það tapa allir í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu. Sumir tapa út af falli bankanna, aðrir vegna verðbólgunnar eða falli krónunnar, einhver hópur tapar vegna lækkunar húsnæðisverðs, margir lækka í launum eða missa vinnuna. Það sem þarf að gera er að meta möguleika fólks og fyrirtækja til að vinna upp tap sitt. Eru einhverjir sem ekki geta unnið upp tap sitt? Hvað tekur það aðra langan tíma að vinna upp tap sitt? Hve mikið af þessu tapi er pappírstap á pappírsgróða? Hugsanlega þarf að bæta einhverjum tjónið með endurgreiðslu skatta sem þeir voru búnir að greiða af pappírshagnaðinum.
Þar sem allir eru meira og minna að tapa einhverju, þá er það sanngjarnt að björgunaraðgerðir nái til allra. Ég vil gjarnan sjá 200 milljarða, ef ekki meira í að lækka skuldabyrði lántakenda og þá er ég ekki bara að tala um þá sem tóku húsnæðislán. Sá sem tók bílalán fyrir tveimur árum er alveg jafnmikið fórnarlamb aðstæðna og sá sem tók íbúðarlán á sama tíma. En fólk og fyrirtæki þurfa samt að bera hluta tapsins í bili. Vonandi verður þetta bara tímabundið tap, en hvort það taki eitt ár, 5 eða 10 að vinnu tapið upp, það verður bara að fá að koma í ljós.