Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.11.2008.
Það er sama hvert litið er, alls staðar blasir við sama sjónin. Samdráttur, uppsagnir, þrengingar og gjaldþrot. Þetta minnir mig á það sem sagt var um ástandið í Finnlandi á sínum tíma. Af því sem ég hef heyrt frá fólki sem upplifði finnsku kreppuna, þá virðist fólk almennt vera sammála um að þar hafi ein reginn mistök verið gerð. Þess var ekki gætt að fólk héldi vinnunni sinni. Það þótti betra að fólk hrúgaðist inn á atvinnuleysisskrá og mældi göturnar. Bent er á að í sumum héruðum Finnlands hafi atvinnuleysi farið upp í 50% og á mörgum stöðum verið yfir 30%. Þjónusta lagðist af, fyrirtæki lokuðust. Fólk svalt af því að það hafði ekki efni á mat. Börnum var gefinn morgunmatur í skólum á mánudagsmorgnum, þar sem þau höfðu lítið fengið að borða frá því í hádeginum á föstudögum. Ástandið var ískyggilegt.
Ég nefni þetta hér, bæði vegna þess að þessar lýsingar rifjuðust upp fyrir mér þegar ég hlustaði á viðtal um þetta efni í útvarpinu í gær og eins vegna þess að þetta er nokkuð sem við verðum að forðast. Það er betra að ríkið komi til móts við atvinnurekendur með því að greiða þeim andvirði atvinnuleysisbóta til að lækka launakostnað, en að þau segi fólki upp. Meðan fólk er í vinnu, þá er það í verðmætasköpun eða að veita þjónustu. Við getum kallað þetta atvinnubótavinnu, gott og vel, en allt er betra en stórfellt atvinnuleysi. Ríkið getur líka hrint í framkvæmd mannfrekum verkefnum sem það hefur ekki viljað fara út í. Ég get nefnt sem dæmi að koma skjölum Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna í það horf sem er söfnunum til sóma. Að færa gamlar sjúkraskrár yfir á tölvutækt form. Að taka í gegn hinar mörgu byggingar ríkisins, þar sem viðhald hefur dregist. Ég gæti vafalaust haldið svona áfram lengi og aðrir eru með sínar hugmyndir. Allt er betra en fjöldaatvinnuleysi. Jóhanna Sig. og Árni Mat. nú er komið að ykkur að láta verkin tala.