Heldur vel í lagt eða hvað?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.10.2008.

Gaman væri nú að sjá á hverju Lars Christiansen byggir spádóma sína.  Ekki ætla ég að efast um að hann hefur reiknað þetta út, en ég býst við að forsendur hans byggi á því að krónan fari niður á það stig sem hún er skráð hjá UBS.  Hvort sú skráning er raunhæf, er ómögulegt að segja til um, en mér finnst hún fjarstæðukennd.

Sjálfur spáði ég yfir 20% verðbólgu á næstu mánuðum í færslu hér í september (sjá Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum).  Þá var nú ástand efnahagsmál nokkru skárra en nú og því virðist fátt geta komið í veg fyrir slíkan skell, nema Seðlabankanum takist að koma böndum á gengið. Ef gengið hjá UBS verður ráðandi, þá fáum við yfir okkur ofurverðbólgu á við það sem Lars Christiansen er að spá.

Í gamla daga keyptu og seldu seðlabankar gjaldeyri til að skapa ró á markaði og nú þarf Seðlabanki Íslands að gera það.  Að auki er orðið lífsnauðsynlegt, að Seðlabanki Íslands geri hreinlega samninga við Seðlabanka Evrópu og seðlabanka í Sviss, Japan og Bandaríkjunum, að þessir aðilar taki þátt í því að styrkja krónuna í nafni efnahagslegra neyðaraðgerða hér á landi.  Ef þessir fjórir seðlabankar taka þátt í því að kaupa krónur í skiptum fyrir evrur, franka, jen og dollara, þá gæti komist á stöðugleiki á örfáum dögum.  Mjög ólíklegt er að þeir myndu tapa á þessu, vegna þess að sterkari króna myndi þýða fleiri evrur/frankar/jen/dollarar í kassann, þegar þeir losa síðan um krónueign sína.  Nú veit ég ekkert hvort svona samningar eru mögulegir, en við svona ástand verður ekki búið.


Spáir 75% verðbólgu á næstunni