Gefið lífeyrissjóðunum Kaupþing

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.10.2008.

Ég skora á viðskiptaráðherra að afhenda lífeyrissjóðunum Kaupþing endurgjaldslaust.  Lífeyrissjóðirnir eru í sameign vel flestra landsmanna og því snertir afkoma þeirra okkur landsmenn ekki minna en afkoma ríkissjóðs.  Viðskiptaráðherra sagði á fréttamannafundi í síðustu viku að lífeyrir landsmanna yrði varinn.  Nú kemur í ljós að hann getur líklega ekki staðið við þau stóru orð sín frekar en margt annað sem hann hefur sagt.  Hér hefur hann tækifæri.  Með því að afhenda lífeyrissjóðunum Kaupþing með manni og mús, þá eiga þeir möguleika á því að vinna upp það tap sem landsmenn hafa orðið fyrir. 

Fjárhagslegur styrkleiki lífeyrissjóðanna er mikill og innan þeirra starfa margir aðilar með mjög mikla og góða reynslu af fjármálakerfinu.  Ég treysti þessum aðilum mun betur fyrir Kaupþingi en þeim misvirtu stjórnmálamönnum sem hjálpuðu til með aðgerðaleysi sínu að koma okkur í þá stöðu sem við erum núna í.  Setja má alls konar skilyrði fyrir meðhöndlun lífeyrissjóðanna á eignarhlut sínum og hve mikið þeir mega setja í bankann.  Eigið fé bankans má auka með því að gefa út viðbótar hlutafé og með framlagi frá lífeyrissjóðunum.


Tilboði lífeyrissjóða hafnað