Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.10.2008.
Ég var að hlusta á Silfur-Egils og þar var gamall samstarfsmaður minn og nemandi, Úlfar Erlingsson, að tala fyrir hugmynd um sannleiksnefnd að Suður-Afrískri fyrirmynd. Mig langar að rifja upp að ég setti þessa hugmynd fram í færslu minni Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana frá 11.10. Þar segi ég:
Hvort að íslensku bankarnir hefðu lifað af, ef þeir hefðu verið minni, betur undirbúnir eða vegna annarra viðbragða Seðlabankans fáum við aldrei að vita. Ég sting aftur upp á því að við stofnum nokkurs konar sannleiksnefnd í anda Suður-Afrísku sannleiksnefndarinnar (þó þar hafi náttúrulega verið um mun alvarlegri atburði að ræða), þar sem öllum sem að þessu máli komu verði boðið að koma og leysa frá skjóðunni af sinni hálfu án eftirmála að hálfu lögreglu, ákæruvalds, samkeppnisyfirvalda eða fjármálaeftirlits. Þeir, sem ekki nýta tækifærið, gætu aftur átt yfir höfði sér ákærur komi í ljós að aðgerðir þeirra hafi brotið í bága við lög. Niðurstöðurnar úr framburðum þessara aðila verði síðan notaðar til að koma í veg fyrir að þetta geti nokkru sinni komið fyrir aftur. Legg ég til að Hæstiréttur skipi hlutlausa aðila til að stjórna þessu ferli og að það verði opið öllum.
Ég er glaður yfir því að þessari hugmynd er að vaxa fiskur um hrygg og vona innilega að hún verði að veruleika.
Það slúður sem er í gangi í þjóðfélaginu þessa dagana er allt of oft á mörkum þess að vera skáldskapur, að við verðum að fá fram hvað af þessu er satt og hvað ósatt. En við verðum þá líka að vera tilbúin að hlusta á það sem menn hafa að segja, þó svo að við sættum okkur ekki við skýringar þeirra.