Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.11.2008.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir steig í pontu í dag og lýsti því yfir að áfallastjórnuninni eftir fall bankanna væri lokið. Ég ætla ekki að mótmæla þeirri staðhæfingu hennar, að því leiti sem hún snýr að bönkunum og endurfjármögnun þeirra. Hitt er annað mál, að viðbragðsáætlunin sem sett var í gang með neyðarlögunum í byrjun október var bara ein af mörgum sem settar voru í gang eða þurfti að setja í gang. Auk þess er allt endurreisnarstarfið eftir. Skoðum þetta nánar.
Ég fæst við það að atvinnu að veita fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um stjórnun rekstrarsamfellu. Stjórnun rekstrarsamfellu felur m.a. í sér gerð viðbragðsáætlana, skilgreiningu á stjórnskipulagi neyðarstjórnunar og gerð endurreisnaráætlunar. Neyðarstjórnun getur kallað á að margar viðbragðsáætlanir séu virkjaðar. Ríkisstjórnin telur einhverra hluta vegna að neyðarástandið hafi bara náð til bankanna og því hafi verið nóg að bregðast við falli þeirra á því takmarkaða sviði sem starfsemi þeirra nær til. Öll önnur viðbrögð ríkisstjórnarinnar höfðu því greinilega ekkert með fall bankanna að gera!
Eins og ég sé hlutina, þá er fall bankanna aðeins einn angi af mjög stóru máli, þ.e. hrun efnahagskerfis þjóðarinnar. Það getur verið að einhverjum finnist ég taka djúpt í árinni, en staðreyndirnar tala sínu máli. Krónan hefur fallið eins steinn og leitt af sér stórfelda hækkun verðlags og lána. Atvinnuleysi er meira en dæmi er um á síðari tímum og ekki er séð fyrir endann á aukningu þess. Dregið hefur verulega úr inn- og útflutningi til og frá landinu. Fjölmörg, ef ekki flest, fyrirtæki eru tæknilega gjaldþrota, þar sem eignir þeirra duga ekki fyrir skuldum. Skuldir heimilanna hafa vaxið það mikið, að þau standa ekki undir greiðslubyrði þeirra. Uppfærður höfuðstóll húsnæðislána er í mjög mörgum tilfellum kominn yfir markaðsverð fasteigna. Námsmenn og lífeyrisþegar í útlöndum eru á vonarvöl vegna þess að framfærslueyrir þeirra dugar ekki fyrir útgjöldum. Ég gæti haldið svona áfram í góða stund í viðbót, en læt þetta duga. Stóra málið er, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, það á eftir að ljúka áfallastjórnuninni vegna þessara þátta og annarra sem ég taldi ekki upp. Það er frumhlaup hjá þér að flauta áfallastjórnunina af, þegar eftir á að greiða úr stærsta hluta vandans. Það merkilega við þessa upptalningu mína, er að ekkert af þessu er hruni bankanna að kenna. Þetta er allt stöðu krónunnar að kenna. Gengi hennar er ennþá ákveðið með uppboði og gengisvísitalan er 100% hærri í dag en hún var fyrir ári.
Það er eitt af grundvallaratriðum í neyðarstjórnun, að neyðarástandi er ekki aflýst fyrr en lágmarksvirkni er komin í gang varðandi þau atriði sem neyðarstjórnunin nær til. Það er alveg á hreinu, að blessuð krónan hefur ekki náð þeim áfanga. Hvað varðar framfærslueyrir fyrir námsmenn og lífeyrisþega í útlöndum, þá lepja þessir aðilar dauðann úr skel. Skuldir heimilanna eru ennþá þannig að allt of mörg eiga í miklum vanda að standa undir þeim. Þarf ég að halda áfram? Neyðarástandið varir ennþá og það sem verra er, að flestar, ef ekki allar, viðbragðsáætlanir ríkisstjórnarinnar eru annað hvort meingallaðar eða að gripið var í tómt, þegar skoða átti innihald þeirra. Þessu til viðbótar vantar allar endurreisnaráætlanir. Sérstaklega vantar þann þátt í endurreisnina, þar sem fjallað er um endurreisn hins pólitíska kerfis.
Þetta er því miður allt of algengt. Hvort heldur litið er til stjórnvalda, fyrirtækja eða stofnana, þá hefur ekki verið útbúin viðbragðsáætlun. Skipulag neyðarstjórnunar er ekki fyrirliggjandi. Ekki hefur verið mótuð ætlun um stjórnun rekstrarsamfellu. Og í þeim tilfellum sem áætlun um stjórnun rekstrarsamfellu er til staðar, þá nær hún eingöngu til rekstrarsamfellu upplýsingatæknikerfa, en ekki þjónustu, framleiðslu eða annarra viðskiptalegra þátta.
Eins og ég sagði, þá hef ég það að atvinnu að veita fyrirtækjum ráðgjöf um stjórnun rekstrarsamfellu. 8. og 9. desember verð ég með námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, þar sem þátttakendum verður veitt innsýn í þær aðferðir sem hægt er að nota við að koma upp stjórnkerfi fyrir stjórnun rekstrarsamfellu og aðferðum við áhættustjórnun. Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna hér og hér.