Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.11.2008.
Ég var að hlusta á Sjálfstætt fólk Jóns Ársæls, þar sem hann fékk nokkuð mikinn aðgang að forsætisráðherra þjóðarinnar. Það var fjölmargt áhugavert í viðtalinu og gaman að sjá Geir í þessu ljósi í stað þess atgangs sem hefur verið í kringum hann undanfarnar vikur.
Það var tvennt í þessu viðtali, sem mig langar að minnast á. Hið fyrra eru ummæli aðstoðarkonu hans að Geir kunni ekki að segja ósatt. Það er alveg með ólíkindum að manneskjan segi þetta, þar sem blessaður maðurinn er búinn að vera að ljúga þjóðina svo fulla undanfarnar vikur að það væri efni í langa grein að rifja það allt upp.
Hitt atriðið eru ummæli Geirs um að mikilvægast sé að tími atvinnuleysis eins stuttur og hægt er. Ég get alveg tekið undir að mikilvægt sé að fólk verði ekki lengi á atvinnuleysisskrá. Það sem mér finnst aftur mikilvægast, er að varðveita störf fólksins. Að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að fólk missi vinnuna. Ég vil frekar að fyrirtækjum fái greitt ígildi atvinnuleysisbóta eða hluta þeirra fyrir að hafa fólk í vinnu, en að greiða fólki fyrir að hafa ekki vinnu. Ég geri mér grein fyrir að því að hægt er að misnota þetta, en það er betra að nokkrir misnoti þetta, en að hér verði stór hópur fólks atvinnulaus sem þyrfti ekki að vera það ef fyrirtækjum væri veittur réttur stuðningur.