Nú er búið að þurrmjólka þennan markað. Hvað næst?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.12.2008.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hvernig spákaupmennirnir færa peningana sína á milli markaða.  Eina stundina var það .com, þá var það hlutabréfamarkaðir, fjármála- og lánamarkaðir og hárvörumarkaðir.  Þessum síðasta var skipt upp í nokkra geira, þ.e. hrávöru í iðnaðarframleiðslu, hrávöru í matvælaframleiðslu og síðan olíu.  Allir þessir markaðir hafa verið leikvellir peningamanna, sem hafa haft það eina markmið að ná út eins miklum hagnaði á stuttum tíma og mögulegt var.  Gull virðist einn góðmálma ennþá haldast hátt.  Silfur, kopar og hvítagull hafa hrapað svo að bara íslenska hlutabréfavísitalan kemst til jafns við þetta.

Ástæður fyrir þessum sveiflum virðast byggðar á rökum sem ekki standast nánari skoðun.  Olían átti að hafa hækkað vegna meiri eftirspurnar í Kína, en hækkunin fylgdi engum lögmálum um verðteygni, eins og búast hefði mátt við.  Sama var um hækkun á matvælaverði á fyrri hluta þessa árs.  Þetta bar allt merki um samráð markaðsráðandi aðila.  Svipað og gerðist hér á landi með öll bílnúmera einkahlutafélögin (þ.e. félög sem hétu nöfnum sem minntu á bílnúmer).

Ég hef nefnt þetta áður í færslum hér og þá var gert grín að einfeldni minni og þekkingarleysi á markaðslögmálum, en nú held ég að atburðir síðustu vikna hafi sýnt okkur hér á landi, hvernig menn léku sér að markaðinum til að hámarka hagnað sinn.  Þetta er að gerast á mun stærri skala á heimsvísu.  Ef einhver aðili myndi taka sig til og rannsaka markaðsíhlutun eða markaðsstjórnun á alþjóðavísu síðustu ár, þá er ég viss um að í ljós mun koma að lítill hópur peningamanna ræður nákvæmlega verði og gengi hrávöru, hlutabréfa, gjaldmiðla, olíu, skuldartryggingarálags og hvað það nú er sem gengur kaupum og sölu á almennum markaði.  Frjáls markaður er ekki til.  Eftirlitsstofnanir eru vita gagnslausar.  Regluverk um markaðsviðskipti er ekki pappírsins virði.  Við höfum séð hvernig þetta hefur virkað hér á landi og af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi úti í hinum stóra heimi.  Ef maður er ekki einn af skákmönnunum, þá er maður í besta falli peð á taflborði þeirra.


Fréttaskýring: Hamfarir á hrávörumörkuðum hafa áhrif hér