Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.11.2008.
Hér er grimm spá sem þarf ekki að verða að veruleika. Haldi ríkisstjórnin áfram að gera ekki neitt, eins og tíðkast hefur síðustu mánuði og ár, þá mun ekkert koma í veg fyrir að framtíðarsýn Seðlabankans renni upp.
Nú þarf strax að grípa til aðgerða og fá færustu sérfræðinga landsins og þá erlendu aðila sem næst í til að mynda nokkur aðgerðaráð. Ég sé fyrir mér að þessi ráð verði um eftirfarandi málefni:
Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
Bankahrunið og afleiðingar þess: Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
Atvinnumál: Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
Húsnæðismál: Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
Skuldir heimilanna: Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
Ímynd Íslands: Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
Félagslegir þættir: Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
Gengismál: Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
Verðbólga og verðbætur: Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.
Þessir hópar þurfa að vera fleiri, en ég læt þessa upptalningu duga.
Hóparnir þurfa að vera ópólitískir. Fyrir hverjum hópi fari einstaklingar úr atvinnulífinu eða háskólasamfélaginu. Stærð hópa velti á umfangi vinnu og hversu brýn viðfangsefnin eru. Stærri hópar þurfa lengri tíma. Mikilvægt sé að allir geti komið skoðunum sínum að. Misjafnt er hve hratt hóparnir þurfa að vinna, en ljóst að "neyðarhóparnir" þurfa að vinna hratt og vel.
Ég vona náttúrulega að þessi vinna sé þegar farin í gang, a.m.k. að einhverju leiti. Málið er að þetta þolir enga bið, þar sem töf á endurreisnarstarfi mun bara gera kreppuna verri.