Hvað er að dómskerfinu?

Birt á Moggablogginu 6.3.2008 - Efnisflokkur: Réttarkerfið

Í fréttum annarrar sjónvarpsstöðvarinnar í kvöld var frétt þess efnis, að maður hafi fengið 30 daga skilorðsbundinn dóm til tveggja ára fyrir að "buffa" sambýliskonu sína, þannig að stór sá á henni.  Á dv.is er frétt þess efnis að annar maður hafi fengið 5 mánaða dóm fyrir að kýla annan mann þannig að tönn brotnaði.  Er ekki allt í lagi?  Ná hegningarlög ekki yfir líkamsárásir í heimahúsum?  Siðgæðisvitund minni er misboðið með svona hróplegu óréttlæti.

Í fyrra tilfellinu virðist um yfirgengilegt ofbeldi gagnavart konunni, þar sem hún er laminn aftur og aftur.  Í síðara tilfellinu er eitt eða tvö högg í afbrýðiskasti.  Ef eitt eða tvö högg gefa 5 mánuði, þá hefði hinn átt að fá 5 ár hið minnsta.  Af hverju er svona mikið ósamræmi milli ofsafengis heimilisofbeldis og tveggja kjaftshögga á skemmtistað?  Er það vegna þess að fleiri horfðu á hið síðara?  (Ég tek það fram að sá sem veitti kjaftshöggin átti skilið að fá dóm, en 5 mánuði skilorðsbundið til þriggja ára er líklegast fullmikið í lagt.)

Ef dómaframkvæmd hegningarlaga gagnvart líkamsárásum inni á heimilum gagnvart öðru heimilisfólki (það sem falið er undir hugtakinu heimilisofbeldi) er jafn arfavitlaus og raun ber vitni, þá er einfaldlega nauðsynlegt að setja í lög að refsingar vegna slíkra líkamsárása skulu vera í samræmi við refsingar þegar óskildir/ótengdir aðilar eiga í hlut.  Maður sem "buffar" konuna sína, líkt og konan lýsti, á að þurfa að sitja nokkur ár í fangelsi, ef sá sem kýlir annan í augnabliksæði fær 5 mánaða fangelsi.