Sagan endurtekur sig

Birt á Moggablogginu 18.1.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðamál

Það er svo merkilegt að í hvert skipti sem gefnar eru út stefnumarkandi yfirlýsingar um frið milli Ísraela og Palestínumanna, þá fylgja hernaðaraðgerðir af hálfu Ísraelhers.  Ég beið eftir þessu eftir að Bush kom með "allt of lítið, allt of seint" yfirlýsinguna sína í síðustu viku.  Það er eins og menn geti ekki nýtt sér meðbyrinn til að gera eitthvað gott, heldur noti hann sem skjól til að gera illt verra.  Og svo ef Palestínumenn dirfast að svara fyrir sig, sem þeir gera örugglega, þá mun heimsbyggðin ekki vera sein á sér að gagnrýna þá fyrir að vilja ekki frið. Það eru nefnilega hryðjuverk, þegar Palestínumenn skjóta litlu heimabúnu rakettunum sínum, en réttlætanlegur hernaður þegar Ísraelar nota flugher og þungavopn á Palestínumenn.  Ég flokka hvorutveggja sem hryðjuverk.  Þó man ég ekki til þess að Palestínumenn hafi ennþá náð að sprengja fjögurra hæða hús í loft upp með "flugskeytunum" sínum.

Það er aldrei talað um það opinberlega að Ísraelar vilji ekki frið, en fyrir þann sem horfir á þennan hildarleik úr fjarlægð, þá er ekki hægt að draga aðra ályktun en að Ísrael vilji viðhalda ófriðnum.  Þannig halda þeir aftur af efnahagslegum framförum í Palestínu.  Ég trúi alveg að Ísraelar vilji frið, en þeir vilja hann á eigin einhliða forsendum og þær forsendur geta ekki túlkast á annan hátt en sem ofurkostir.  Hvar í heimunum er friði náð með því að sprengja í loft upp ráðneytisbyggingar sjálfráða þjóðar?  Hvar í heiminum er friði náð með því að sprengja í loft upp raforkuver og veitustofnanir?  Hvar í heiminum er friði náð með því að svelta fólk heilu hungri, meina því að heimsækja ættingja sína, varna því menntunar o.s.frv.?  Svarið er: Hvergi, vegna þess að friður næst ekki með slíkum aðgerðum.  Þessi háttsemi viðheldur stríðsástandi og eykur spennuna.  Spennu og stríðsástand sem hefur kynnt undir hryðjuverk um allan heim og alið á tortryggni á milli þjóðernishópa. 

Það er löngu fyrirséð að deilan verður ekki leyst nema með því að Palestínumönnum, sem flúðu/voru hraktir frá heimkynnum sínum 1948 og síðan aftur 1967, verði leyft að snúa aftur til heimkynna sinna eða þeim greiddar það ríflegar bætur að þeir geti hafið nýtt líf í sjálfstæðu ríki Palestínumanna.  Þetta er það sem staðið hefur helst í Ísraelum og er í sjálfu sér skiljanlegt.  Ef Palestínumönnum fjölgar of mikið í Ísrael, þá gætu gyðingar lent í því að verða minnihlutahópur í landinu.  Vissulega ekki góð tilhugsun fyrir þá og gæti bráðinn orðið að veiðimanninum.  Annað sem skiptir máli, er að nýju ríki Palestínumanna verði tryggður aðgangur að vatni, en svo vill til að vatn er mjög af skornum skammti á þeim svæðum sem Palestínumenn ráða yfir.  Þriðja atriðið er að tryggja öllum borgurum Palestínu ferðafrelsi, en það er nokkuð sem bara sumir njóta.  Fjórða atriðið er að byggja upp innviði samfélagsins og tryggja að Ísraelsher brjóti (sprengi) þá ekki niður jafnóðum í misviturlegum aðgerðum.  Fimmta atriðið er að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.  Sjötta atriðið er að tryggja Palestínumönnum sjálfsákvörðunarrétt í innanríkismálum sínum.  Það þýðir að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar geti gegnt skyldum sínum, en þurfi ekki að óttast handtökur og fangelsisvist án dóms og laga af hálfu Ísraelsmanna.  Mér finnst eins og Ísraelsmenn hafi gleymt því að margir af fyrri ráðamönnum þjóðarinnar frömdu á sínum tíma voðaverk sem í dag myndu flokkast undir hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi.

Vegna getuleysis, eða eigum við frekar að segja vegna áhugaleysis, Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna, hefur verið meira óöryggi í heiminum undanfarin 10 ár en næstu rúm 50 ár þar á undan.  Og það sér ekki fyrir endann á þessu.  Svo heldur "allt of lítið, allt of seint" Bush að hann geti slegið sig til riddara á síðustu embættismánuðum sínum.  Þetta eru orðin fyrirséð viðbrögð frá forsetum Bandaríkjanna, þegar forsetatíð þeirra er að renna út.  Ég vona að næsti forseti Bandaríkjanna átti sig á því, að það þarf að verða eitt af hans/hennar fyrstu verkum að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna.  Það má ekki draga það þar til korteri fyrir kosningar. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Ráðuneyti jafnað við jörðu