Spákaupmennska og ævintýramennska stjórna efnahagsmálum heimsins

Birt á Moggablogginu 3.1.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðamál

Það fer ekkert á milli mála, að spákaupmennska hefur um þessar mundir veruleg áhrif á efnahagsmál í heiminum. Þarf ekki annað en að skoða þróun olíuverðs sem sveiflast og færist upp á við án haldgóðra skýringa. Það má ekki hvessa á Norðursjó eða snjóa í Bandaríkjunum án þess að olíuverð fari í nýjar hæðir og þó svo að lygni aftur og fari að rigna, þá verður það að ástæðu fyrir því að olíuverð hækki. Bensín hækkar fyrir mikla ferðahelgi í Evrópu, en lækkar ekki eftir hana. Skýringarnar á hækkun olíuverðs eru farnar að verða að brandara, en það hræðilega við þetta er að afleiðingar þeirra eru grafalvarlegar. Og svo kemur þessi skýring. Einhver bjáni vill geta stært sig af því að vera sá fyrsti til að greiða 100 USD fyrr tunnu af olíu. Viðskipti upp á 1000 tunnur settu allt á annan endann, vegna þess að maðurinn vildi hugsanlega geta montað sig af afrekinu.

OPEC ríkin hafa margoft bent á að það sé ekki þeim að kenna að olíuverð hækki. Framleiðsla þeirra er miklu meiri en nóg. Olíuhreinsistöðvar virðast hafa undan, þó eitthvað sé farið að nálgast efri mörk framleiðslugetu þeirra. Olíunotkun er víða orðiðn mun hagkvæmari en áður m.a. með bílum og flugvélum sem nýta eldsneyti betur en nokkru sinni fyrr.

Eina haldbæra skýringin á hækkun olíuverðs er spákaupmennska eða hreinlega samantekin ráð nokkurra aðila um að hækka verð eldsneytis. Það má svo sem alveg viðurkenna, að miðað við eldsneytisverð á 9. áratug síðustu aldar, þá er olíuverð upp á 40 - 60 USD tunnan ekkert svo fjarstæðukennt. Það er raun í dúr og moll við spár sérfræðinga á þeim árum. En 90 - 100 USD á tunnuna er gjörsamlega út úr kortunum.  Líklegasta skýringin á þessu er spákaupmennska með framvirka samninga.  Þetta dæmi frá því í gær sýnir að það þarf ekki mikið magn eða háar upphæðir til að skekkja myndina og ef nokkrir aðilar taka sig saman, þá væri lítill vanda að búa til spíral verðhækkunar.  Það er á svona dögum, sem maður saknar gömlu góðu verðákvarðana OPEC ríkjanna, því það virðist meiri skynsemi í þeim nú, en markaðsverði dagsins í dag.

Færslan var skrifuð við fréttina: Einn fjárfestir á bak við olíuverðshækkun