Birt á Moggablogginu 26.1.2008 - Efnisflokkur: Almennt efni
Sífellt eru að finnast fleiri og stærri svarthol í alheiminum með hjálp öflugra stjörnusjónauka. Þetta nýjasta sem hefur verið uppgötvað virðist vera svo stórt og öflugt að heilu sólkerfin eru gleypt í einu lagi. Önnur svvarthol eru talin vera í miðju stjörnuþoka og enn önnur á fleygiferð um himingeiminn.
Nýlegar kenningar (frá 2002) um upphaf alheimsins byggja á því að alheimurinn sé í stöðugri hringrás þess að þenjast út eftir mikla sprengingu (Stóra Hvell) og þess að dragast saman sem getur verið afleiðing þess að efnið sé að sogast inn í risa stórt svarthol. Það sé svo þetta svarthol sem springi að lokum og valdi hvelli á við Stóra Hvelli. Hver hringur í hringrásinni taki tug milljarða ára, t.d. er talið að minnst 13,7 milljarðar ára séu síðan núverandi alheimur varð til í sprengingu.
Það er gaman að segja frá því að elstu þekktu hugmyndir um tilvist alheimsins ganga út á svipaða hugmynd. Þær eru frá Hindúum eru hafðar eftir Brahmanda í Rig-Veda hinni fornu bók Hindúa. Þar segir að alheimurinn sé geimegg (cosmic egg) sem er í sífelldri hringrás sem felur í sér að þenjast út og falla saman. Heimurinn er uppruninn í samþjöppuðum punkti sem kallaður er Bindu. Kannski er Bindu bara svarthol sem springur.
Úr athugasemdum:
Það hafa ekki komið neinar "sannanir" fyrir nokkrum kenningum um upphaf alheimsins, þannig að þessi er ekkert verra stödd en aðrar. Við erum eingöngu að skoða vísbendingar, ályktanir og kenningar. Kenningin um Stóra hvell var, t.d., úthrópuð af vísindamönnum fyrir nokkrum áratugum. Vandamálið með vangaveltur um "upphaf" alheimsins, er að enginn þeirra svarar þeirri spurningu hvað var til áður og hvað kom öllu af stað. Byrjaði allt með engu eða byrjaði það með einhverju? Ef það byrjaði á engu: hvernig varð ekkert að einhverju? Ef það byrjaði á einhverju: hvernig varð þetta eitthvað til?
Það er þetta með sönnunargögnin. Vísindamenn eru að gera tilraun til að skýra út upplýsingar/vísbendingar sem þeir telja sig hafa fundið (það sem þú nefnir vísindalegan rökstuðning). Ég er ekki að segja að eitthvað af þessum upplýsingum/vísbendingum séu ekki raunverulegt, en þetta þarf ekki að þýða það sem þeir halda. Við höfum fullt af slíkum tilfellum í vísindasögunni. það breytir samt ekki því að menn eiga að halda áfram að rýna í upplýsingar og draga ályktanir af þeim.