Birt á Moggablogginu 12.6.2007 - Efnisflokkur: Menntamál
Mig langar að spyrja: Hvaða skóli er bestur:
a) Sá sem tekur við nemendum með meðaleinkunn upp á segjum 8,5 og skilar þeim út með meðaleinkunn upp á 7,25
b) Sá sem tekur við nemendum með meðaleinkunn upp á segjum 7,0 og skilar þeim út með meðaleinkunn upp á 7,25
c) Sá sem tekur við nemendum með meðaleinkunn upp á segjum 5,5 og skilar þeim út með meðaleinkunn upp á 7,00
Skólar sem falla undir a) eru t.d. MR, Versló, MH og Kvennó, undir b) falla t.d. MS, FÁ, Borgarholt og FB og undir c) falla m.a. IR og IH.
Í mínum huga eru það þeir skólar sem ná mestri getuaukningu út úr nemendunum sem eru bestir.
Ég var í mörg ár kennari og aðstoðarstjórnandi við Iðnskólann í Reykjavík. Þangað inn komu mjög margir nemendur sem höfðu misstigið sig á samræmdum prófum og áttu því ekki möguleika á að komast inn í ,,góðu" skólana. Þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli höfnuðu ,,góðu" skólarnir þessum nemendum, þannig að þeir höfðu ekki í önnur hús að venda. Sumir stoppuðu bara við rétt á meðan þeir voru að rétta sig af og fóru síðan í MH um áramót. Aðrir ílengdust og tóku miklum framförum.
Ég man sérstaklega eftir einum nemanda. Hann var í húsasmíði, frekar en húsgagnasmíði. Hann var einn af þessum sem hafði lent í ógöngum í grunnskóla og kom til okkar með fall í öllum áföngum á samræmdu prófi. Hann útskrifaðist með 9 og 10 í öllum áföngum á síðasta skólaárinu. Framför hans í námi var ótrúleg. Að byrja í fjórum núll-áföngum og fá síðan verðlaun skólans fyrir frábæran námsárangur er að sjálfsögðu meira en að segja það.
Þetta kalla ég góðan nemanda.
Þetta kalla ég góða kennslu.
Og þetta kalla ég góðan skóla.
Svo langar mig að benda þeim á sem ætla að fara í rafmagnsverkfræði, að það er ekki til betri undirbúningur en að fara í rafeindavirkjun eða rafvirkjun og ljúka svo stúdentsprófi samhliða því. Og fyrir þá sem ætla í tölvunarfræði, þá er tölvunám við Iðnskólann í Reykjavík sem lokið er með stúdentsprófi besti undirbúningur sem hægt er að hugsa sér.