Framlög til einkarekinna grunnskóla

Birt á Moggablogginu 10.6.2007 - Efnisflokkur: Menntamál

Á visir.is er að finna eftirfarandi frétt:

Nýr meirihluti gerir vel við einkaskólana

Skólastjórar Ísaksskóla og Landakotsskóla segja viðmót borgaryfirvalda í garð einkarekinna grunnskóla hafa breyst til hins betra eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum fyrir rúmu ári.

„Við sjáum það núna, bæði í orðum og athöfnum ráðandi borgar­meirihluta, að viðhorfið er annað," segir Edda Huld Sigurðar­dóttir, skólastjóri Ísaksskóla.

„Waldorfskólinn er til dæmis búinn að fá lóðir í Sóltúni til að byggja á og við erum að bæta við okkur heilli bekkjardeild fyrir níu ára börn. Það eru aðgerðir sem við hefðum aldrei getað farið út í fyrir tveimur árum. Rekstrarskilyrðin voru svo þröng að það var ekki inni í myndinni."

Meginástæðu breytinganna segir hún vera fimmtán prósenta hækkun fjárframlaga á hvern nemanda einkarekinna grunnskóla, sem gekk í gegn fyrr í vetur. Þá ákvað borgarráð að hækka framlögin. Það hefði þó ekki þurft að gera fyrr en í ágúst. Þá skilar Hagstofan af sér upplýsingum um meðalkostnað við hvern nemanda í opinberum skólum landsins. Framlag á nemendur í einkareknum skólum reiknast svo sem 75 prósent af þeirri upphæð. Borgaryfirvöld gerðu hins vegar ráð fyrir að ákveðin lágmarkshækkun yrði að veruleika og hækkuðu framlögin strax.
„Það er bara hið besta mál að þeir skyldu snara sér í þessa hækkun strax og sýnir vott um jákvæða afstöðu þeirra gagnvart sjálfstæðu skólunum," segir Edda.

Fríða Regína Höskuldsdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, tekur í sama streng. „Það hefur gjörbreytt rekstrarstöðunni hjá okkur að borgaryfirvöld hafi hækkað fjárframlögin. Borgin tók mjög vel við sér og hækkaði framlagið fyrr en þurfti. Mér finnst nýr meirihluti hafa staðið sig afskaplega vel það sem af er. Við gátum lækkað skólagjöldin okkar töluvert."

Fríða segist vona að enn betur verði gert við einkareknu skólana í tíð meirihlutans. „Við fáum núna 75 prósent af framlagi til opinberra skóla, en við erum að vonast til að það fari í níutíu prósent. Það er stefna Samtaka sjálfstæðra skóla að ná framlaginu að því marki."

Ég vil byrja á því að fagna því að Reykjavíkurborg er hætt þeirri atlögu sinni að Ísaksskóla og Landakotsskóla sem átti sér stað meðan Samfylkingin í nafni Reykjavíkurlistans stjórnaði málefni grunnskólanna í Reykjavík.  Einnig vil ég fagna því að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að hækka framlög borgarinnar til skólanna og verður það vonandi til þess að önnur bæjarfélög (sem m.a. er svo gott að búa í) í nágrenni Reykjavíkur fylgi fordæmi borgarinnar (og efni kosningaloforð) með því að greiða sambærilega upphæð með nemendum úr þessum bæjarfélögum.  Sum hafa gert vel, eins og Garðabær, en önnur hafa verið eins nísk og þau hafa komist upp með, þ.e. horft til 75% tölunnar sem Hagstofan reiknar út.

Ég skil ekki af hverju sveitarfélag á að greiða minna með barni sem sækir einkarekinn grunnskóla, en í grunnskóla sem rekinn er af bæjarfélaginu.  Ég skil ekki af hverju 33% af kostnaði við skólagöngu barnsins eigi að fara í að greiða niður kostnað annarra, því að það er nákvæmlega það sem gerist.  (Ég veit ekki til þess að skattarnir breytist neitt við það að barnið sæki grunnskóla annað.)  Ég skil ekki að það eigi að verða óbeinn tekjustofn fyrir sveitarfélag að foreldrar barns kjósi að nýta þjónustu einkarekins skóla í staðinn fyrir að senda barnið í grunnskóla í bæjarfélaginu.  Ég raunar efast um að það sé lagastoð fyrir því að sveitarfélag mismuni þegnum sínum á þennan hátt.

Garðabær hefur farið þá leið (eða það er minn skilningur) að peningarnir fylgi barninu.  Það þýðir að Garðbæingar hafa fundið út meðalkostnað af árlegri skólagöngu barnsins miðað við að það sæki grunnskóla á vegum sveitarfélagsins.  Þessi upphæð fylgir síðan barninu, sama hvert það sækir skóla.  Það getur verið, svo dæmi séu tekin, grunnskóli í Hafnarfirði, Kópavogi, á Álftanesi eða í Reykjavík, og skiptir rekstrarformið ekki máli.  Nokkur af ríkustu sveitarfélögum landsins tíma aftur á móti ekki að greiða sanngjarnt gjald með börnum sem sækja einkarekna skóla.  Kópavogur sparar sér með þessu kannski 2 - 3 milljónir á ári, Seltjarnarnes kannski helminginn af þessari tölu og Hafnarfjörður eitthvað svipað og Seltjarnarnes.  Mér þykir hún vera lítilla sanda, lítilla sæva framkoma stjórnenda þessara sveitarfélaga í garð barnanna.

(Bara svo það fari ekkert á milli mála, þá ganga börnin mín í Ísaksskóla fyrstu ár skólagöngunnar.  Barn númer fjögur er að hefja nám þar í haust og barn númer þrjú á eitt ár eftir.  Sjálfur er ég búsettur í ,,það er gott að búa í"-Kópavogi.)