Gerum radarvara gagnslausa

Birt á Moggablogginu 13.6.2007 - Efnisflokkur: Umferðin

Ég er nú alveg viss um að fljótlega verða komnir radarvarar sem vara við nýja tækinu þeirra þarna á Blönduósi (sjá frétt).  Fyrir utan að vararnir geta ennþá varað við hraðaeftirliti þar sem gömlu hraðamælingatækin eru notuð.

Fyrir nokkrum árum var ég farþegi í jeppabifreið sem ekið var um götur Reykjavíkur (Miklubraut austan Grensásvegar, Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg) um miðjan dag á um 140 km hraða.  Bílstjórinn var karlmaður á sextugs aldri, sem var að fá útrás fyrir karlmennsku sína og að mínu mati ótrúlega heimsku.  Hann taldi sig geta ekið á þessum hraða, þar sem hann var með radarvara í bifreið sinni.  Í framhaldi af því sendi ég tillögu til Umferðaráðs um að eina leiðin til að gera radarvara gagnslausa, væri að setja upp radarvita með jöfnu millibili á götum/vegum þar sem búast má við svona hraðakstri.  Þessir radarvitar myndu senda út sams konar merki og hraðaradarar og því væru radarvarar sífellt að fá inn á sig radarmerki.  Þar sem þeir gætu ekki greint á milli radarvita og hraðaradara, þá yrðu radarvararnir gagnslausir eða til þess að menn hættu að taka þessa sjensa.  Svona radarvitar þyrftu ekki að vera dýrir og gætu gengið fyrir sólarorku sem jafnframt sæi um að hlaða rafgeymi.  Radarvitana mætti hengja á vegstikur, tré, kletta, símastaura eða rafmagnsstaura.  Vitanlega yrðu einhverjir fórnalömb skemmdarverka, en það færi eftir staðsetningu þeirra.  Þá yrði að staðsetja þar sem líklegt væri að lögregla væri að sinna hraðamælingum til þess að gera merkin frá þeim trúverðug.

Ég legg til að Sjóvá og VÍS leggi lögreglunni lið við að koma svona radarvitum upp um allt land.