Birt á Moggablogginu 20.4.2007 - Efnisflokkur: Stjórnmál
Mér finnst vera minnst þrjár hliðar á þessu máli með fylgishrun Framsóknarflokksins. Fyrst má segja að þessi niðurstaða skoðanakannana sé mjög eðlileg vegna þess að Framsókn hefur verið dugleg að hrekja kjósendur frá sér. Framsóknarflokkurinn hefur í ríkisstjórnarsamstarfinu verið einstaklega laginn við að vinna gegn þjóðarsálinni og hefur orðið holdgervingur stóriðjustefnu og eyðileggingar á náttúrunni meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur einu sinni sem oftar haft vit á því að ræða ekki þessi óþægilegu mál. Framsókn hefur haldið utan um erfiðu málin meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með frítt spil aðgerðarleysis í mjög mörgum málaflokkum, svo sem menntamálum, sjávarútvegsmálum og málefnum forsætisráðuneytisins og til að bæta gráu ofan á svart er fyrrverandi forsætisráðherra í herför gegn efnahagsumbótum með okurvaxtastefnu sinni. Í öðru lagi er þetta með öllu óskiljanlegt, þar sem Framsókn hefur staðið að mestu framfaramálum seinni tíma, þ.e. opnun fjármagnsmarkaðarins sem hefur rutt leið íslenskra fyrirtækja til útrásar um allan heim. Þessi breyting var studd mikilli breytingu á utanríkisþjónustunni sem í dag er meira í áttina að vera utanríkisviðskiptaþjónusta en gamaldags pólitísk þjónusta. Það getur vel verið að bankarnir hafi farið á undirverði, en það gerði líka Útvegsbankinn á sínum tíma og að maður tali nú ekki um Síldarverksmiðjur ríkisins. Hitt er alveg á hreinu að með því að losa bankana úr eigu ríkisins opnuðust tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, þar með bankana sjálfa, til að fara í meiri uppbyggingu en nokkur dæmi eru um frá tímum Thorsara og Kveldúlfs. Með þessu hafa skapast fleiri hátekjustörf og meiri auðlegð en nokkurn óraði fyrir 1999 hvað þá fyrr. Nú í þriðja lagi, þá hefur þrengt um flokkinn á miðju íslenskra stjórnmála og þar með þarf hann að leggja meira á sig til að halda fylgi sínu og sækja nýtt.
Kannski er skýringanna á fylgishruni Framsóknar að leita í því að Jón Sigurðsson er jafn óaðlaðandi persóna og hann er eldklár. Maðurinn er hreinlega fráhrindandi. Hann myndi skána strax við að snyrta skeggið og svo verður hann að koma sér úr kennarahlutverkinu og setja sig í hlutverk leiðtoga. Það að Framsókn skyldi takast að finna leiðinlegri leiðtoga en Halldór var, er alveg með ólíkindum.
Kannski er skýringin á fylgishruni Framsóknarflokksins fólgin í því sem Davíð Oddsson benti á fyrir síðustu þingkosnignar, að flokkurinn er ekki nógu duglegur að berja sér á brjóst og hrósa sjálfum sér fyrir það sem vel hefur verið gert.
Ein líkleg skýringin á fylgishruninu er að kjósendur sjá ekki flokkinn fyrir sér standa á sínum málum. Framsóknarmönnum þykir greininlega of vænt um stólana sína til að vilja rugga bátnum. Við sáum þetta í tengslum við fjölmiðlalögin og núna síðast auðlindaákvæðið. Við höfum líka séð þetta í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Meðan Sturla fær allt sem hann vill til vegamála þurfti Jón Kristjánsson að svelta Landspítalann ár eftir ár og skera framlög til Tryggingastofnunar við nögl. Þetta er að koma í bakið á Framsóknarmönnum. Þjóðin lítur á flokkinn sem afllitla hækju fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vitiði hvað, Sjálfstæðisflokkurinn er sama sinnis.
Það sem skiptir í mínum huga mestu máli, er að línurnar í íslenskum stjórnmálum hafa breyst. Áður höfðum við hreinan hægri flokk (Sjálfstæðisflokkinn), félagshyggjuflokk á miðjunni (Framsókn), flokk sem langaði að vera jafnaðarmannaflokkur vinstra megin við miðju (Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna) og svo hreinan vinstri flokk (Alþýðubandalagið og síðar Vinstri - græn). Framsókn hafði því nokkuð gott rými á miðjunni, þangað sem þeir sem voru næst miðjunni í hinum flokkunum leituðu þegar þeir urðu ósáttir við stefnu síns flokks. Þetta kom glögglega í ljós í kosningunum 1995, þegar Framsókn fékk mjög góða kosningu, en þá leituðu líklega bæði óánægðir kratar og óánægðir Sjálfstæðismenn grimmt til Framsóknar. Það sem gerðist í framhaldinu af þeim kosningum var að flokkarnir fóru að elta kjósendur í áttina að miðjunni og sem afleiðingu af því fóru líka fleiri kjósendur að sækja inn að miðjunni. Bilið sem Framsókn hafði út af fyrir sig tók að dragast saman. Samfylkingunni mistókst að sameina vinstri menn og þar var greinilega leitað í smiðju Tony Blair, en honum tókst á nokkrum mánuðum að breyta Verkamannaflokknum í Bretlandi frá því að vera vinstri jafnaðarmannaflokkur í að vera eiginlega hægri jafnaðarmannaflokkur eða ætti ég að segja miðju flokkur. Sem sagt undanfarin ár hefur Samfylkingin reynt að elta kjósendur sína inn að miðjunni. Það sama hefur gerst hægra megin við miðjuna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að fjarlægjast frjálshyggjuna (nema örfáir kverúlantar á borð við Pétur Blöndal) og sækir í átt að miðjunni, þar sem félagshyggja í bland við jafnaðarmennsku er að búa til nýja póltíska sýn hér á landi. Sjáum bara samþykktir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins: bæta kjör aldraðra, hækka barnabætur, skóli fyrir alla, o.s.frv. Þetta eru gömul slagorð jafnaðarmanna. Og hjá Samfylkingunni: draga úr forræðishyggju, draga úr áhrifum ríkisvaldsins, o.s.frv. Þetta er farið að minna á texta í Biblíunni: "Í húsi föður míns eru margar vistaverur." Það er rúm fyrir svo ólíkar skoðanir í þessum tveimur flokkum, að óánægjufylgið við Sjálfstæðisflokkin sem átti áður bara athvarf í Framsókn, það getur ýmist haldið sig í vinstri jaðri Sjálfstæðisflokksins, sótt í Framsókn, Íslandshreyfinguna eða Frjálslynda eða krossað yfir til miðju-/hægri hluta Samfylkingarinnar. Og síðan öfugt hjá Samfylkingunni. Þeir einu sem græða á þessu eru Vinstri - græn sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum, því þangað leita vinstri kratar í hrönnum í hvert skiptið sem Ingibjörg Sólrún tekur Samfylkinguna nær miðjunni. Eftir stendur að Framsókn hefur misst sérstöðu sína sem eini miðjuflokkurinn á landinu. Bilið sem kjósendur flokksins komu úr hefur minnkað eða að fleiri eru farnir að fiska á sömu miðum.
Að lokum má ekki gleyma því, að það þykir sport að gera grín að Framsókn. Kannski er það vegna þess að Guðni Ágústsson hefur svo gaman af því að tala, að hann þykist hafa skoðun á öllu. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa aftur á móti lært að betra er að stinga sér í gegnum ölduna og halda sér í kafi eins lengi og þörf er frekar en að koma fram í öllum fréttatímum ljósvakamiðla. Framsóknarmenn þurfa að læra, að oft má satt kyrrt liggja.