Nú er ekki tími til að sleikja sárin

Birt á Moggablogginu 13.5.2007 - Efnisflokkur: Stjórnmál

Framsóknarflokkurinn varð fyrir miklu áfalli í kosningunum í gær og nú vilja sumir ráðamenn innan flokksins draga sig út úr ríkisstjórninni þar sem þeir vilja sleikja sár sín í næði úti í horni.  Mér finnst ekki vera mikil skynsemi í þessu, nema að þessir sömu aðilar hafi ekki verið sannfærðir um að ríkisstjórnin hafi verið að vinna að réttum málum.  Ef það er aftur sannfæring þessara aðila að ríkisstjórnin hafi verið að vinna að góðum málum og nú gefist tækifæri til að hnýta ýmsa lausa enda, þá verður flokkurinn að sætta sig við kinnhestinn, hysja upp um sig buxurnar og koma sér að verki.  Þetta snýst nefnilega ekki um Framsóknarflokkinn, eins og svo ítrekað var bent á í gærkvöldi, heldur velferð okkar hinna.  Árangur áfram - ekkert stopp, hljómaði í tíma og ótíma í kosningarbaráttunni.  Það er það sem nær helmingur landsmanna kaus í kosningunum, því að sjálfsögðu eru bæði stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sama sinnis.

Framsóknarflokkurinn hefur tvo kosti:  Annar er að víkja til hliðar og horfa á Sjálfstæðisflokkinn og líklega Samfylkinguna skera upp það sem flokkurinn hefur sáð til undanfarin 12 ár.  Og af hliðarlínunni getur flokkurinn horft á Sjálfstæðisflokkinn enn einu sinni berja sér á brjósti og eigna sér heiðurinn.  Hinn kosturinn er að halda áfram, finna sér viðspyrnu, eins og Jón Sigurðsson sagði í nótt sem leið, og byggja á því inn í framtíðina.  Hvað sem hver segir, þá hefur árangurinn verið mjög góður.  Raunhækkun útgjalda til heilbrigðis- og tryggingamála er slík að þau hafa nær tvöfaldast á undanförnum tólf árum.  Sama gildir um útgjöld til félagsmála.  Það getur verið að það hafi ekki verið nóg, en þá er bara að gera betur.  Staða Íslands í samfélagi þjóðanna hefur aldrei verið betri.  Íslenska útrásin, sem er einstök sama hvert er litið, átti sér stað með ráðherra Framsóknar í ráðuneytum viðskipta- og bankamála og í utanríkisráðuneytinu, en áherslur þess hafa breyst frá því að vera pólitískþjónusta yfir í að vera utanríkisviðskiptaþjónusta.  Þessum árangri verður stefnt í voða, ef annar hvor vinstri flokkanna á að koma í staðinn fyrir Framsókn í ríkisstjórn.